Document Actions
Nóvember, 2016

Munu Norðurlöndin spjara sig með lífssýn byggða á gildum sem getur virst dálítið einfeldningsleg?

BLOGGFÆRSLA 27/11/2016

Nú þegar skammdegi sígur að og kólna tekur í veðri gerum við Norðurlandabúar nokkuð sem okkur lætur vel: við höfum það notalegt. Við setjumst að rjúkandi drykkjum og heitum máltíðum með fjölskyldu og vinum. Við kveikjum á kertum og sköpum notalegt andrúmsloft sem er svo sérstakt að fjallað er um það í erlendum fjölmiðlum. Það er jafnvel nota sem þema í auglýsingum frá stóru, norrænu fyrirtæki. Þar er skammdegið boðið velkomið, því þá er kominn tími til að hafa það notalegt.

Margar af þeim samræðum sem nú fara fram við matarborð norrænna heimila hljóta að fjalla um þá þróun sem á sér stað í heiminum. Í ljósi ástandsins í stjórnmálum nær og fjær velta margir fyrir sér hvers konar heimur þetta sé sem við – og ekki síst afkomendur okkar – eigum að byggja í framtíðinni. Hvert stefnum við, íbúar þessarar jarðarkringlu? Hvað merkir þróunin í heiminum fyrir okkur á Norðurlöndum?

Hvað hið norræna samstarf snertir, þá deilum við Norðurlandabúar ekki aðeins sögu og landfræðilegri legu heldur einnig ýmsum sameiginlegum grundvallargildum. Við stöndum vörð um lýðræðið í samfélögum okkar, sem einkennast af trausti – bæði í samfélaginu almennt og í garð stjórnmálaleiðtoga. Velferðarkerfi okkar veita jafnt aðgengi að heilbrigðisþjónustu, menntun og félagslegu öryggisneti. Þau tryggja jöfnuð á heimsmælikvarða í samfélögum þar sem stefnt er að því að „fáir eigi of mikið og enn færri of lítið“, eins og Grundtvig orðaði það. Við stefnum að því að tryggja sjálfbær samfélög þar sem hagsmunir komandi kynslóða eru hafðir til hliðsjónar við stjórnun náttúruauðlinda. Við virðum líka fjölbreytileika mannlífsins og viðurkennum jafnt manngildi allra, en þess sér meðal annars stað í markvissum aðgerðum til að tryggja jafnrétti kynjanna.

Í ljósi nýjustu þróunar á grannsvæðum okkar og annars staðar í heiminum getur virst tilefni til að velta fyrir sér hvort unnt verði að viðhalda þessum gildum – trausti, víðsýni, jafnrétti, jöfnuði og sjálfbærni – eða hvort eitthvað beinskeyttara þurfi að koma í þeirra stað.

Geta Norðurlöndin spjarað sig í hinum stóra heimi með lífssýn byggða á gildum sem stundum getur virst dálítið einfeldningsleg?

Frá mínum bæjardyrum séð er svarið tvímælalaust JÁ. Norrænu löndin skipa iðulega efstu sæti í alþjóðlegum samanburði – þykja til að mynda bestu löndin til að eiga viðskipti í [1], lönd þar sem samkeppnisstaða [2] og nýsköpun [3] eru á heimsmælikvarða, og þykja jafnvel hamingjuríkustu lönd í heimi [4], en allt kemur þetta til af því að gildi okkar skapa verðmæti.

Það að traust skuli ríkja – einnig í garð stjórnmálamanna – er líka áhrifaríkt í þeim skilningi að viðhafa þarf minni eftirlitsráðstafanir í samfélaginu en ella. Traustið eykur samheldni innan samfélagsins. Það leggur grunninn að hagvexti og efnahagslegri framleiðni. Opin samfélög, þar sem traust ríkir og lítið er um spillingu, eru heillandi fjárfestingamarkaðir fyrir alþjóðleg fyrirtæki.

Um leið mynda vinnumarkaðslíkön okkar og hið félagslega öryggisnet góðan grundvöll fyrir hugvit og nýsköpun. Á Norðurlöndum er unnt að taka áhættu – skipta um starfsvettvang eða stofna fyrirtæki – án þess að leggja allt í sölurnar. Og hinn efnahagslegi jöfnuður, sem á undir högg að sækja nú um stundir en einkennir þó lönd okkar enn sem fyrr, á þátt í því að skapa öruggara samfélag auk þess að stuðla að því góða heilsufari og miklu lífslíkum sem tíðkast á Norðurlöndum.   

Áherslu okkar á sjálfbærni fylgja auk þess miklir viðskiptamöguleikar fyrir norræn fyrirtæki, sem hafa gripið tækifærin til að selja grænar lausnir. Það er engin tilviljun að sex af tuttugu sjálfbærustu fyrirtækjum heims eru staðsett á Norðurlöndum.[5] 

Eins og forsætisráðherra Svíþjóðar, Stefan Löfven, hefur margsinnis sagt: Við eigum að beita okkur fyrir aukinni sjálfbærni og gegn fátækt, vegna þess að það er siðferðislega rétt og efnahagslega skynsamlegt.

Í heimi sem virðist æ ótryggari eigum við því að halda fast í norrænu gildin – traust, víðsýni, jafnrétti, jöfnuð og sjálfbærni. Þannig tryggjum við að hin áralanga jákvæða þróun, sem norrænir borgarar hafa notið góðs af, haldi áfram. Og þannig verðum við áfram fremst í flokki á alþjóðavettvangi og eigum þátt í að tryggja jákvæða þróun hér eftir sem hingað til, bæði á grannsvæðum okkar og á heimsvísu. Eins og Ghandi komst að orði: ef við viljum sjá breytingar í heiminum verðum við að byrja á okkur sjálfum.

Þetta finnst mér við eiga að leggja áherslu á í spjalli okkar við matarborðið nú í skammdeginu.

[1] World Bank “Ease of Doing Business”-index 2016

[2] World Economic Forum Global Competitiveness Index 2015-16

[3] Global Innovation Index 2016

[4] World Happiness Report 2016

[5] Global 100 index 2016

Fréttir

Dagfinn Høybråten