Document Actions

Náttúra og umhverfi

Á Norðurlöndum er mikið um ósnortna náttúru, hreint vatn og ferskt loft, en nauðsynlegt er að halda vöku sinni gagnvart umhverfinu ef komandi kynslóðir eiga að geta notið hreinnar og ósnortinnar náttúru. Á Norðurlöndum er löng hefð fyrir samstarfi í náttúru- og umhverfismálum.

Þegar hefur náðst góður árangur, en í hnattvæddum heimi nægir það ekki. Ekki þarf einungis að huga að umhverfismálum á Norðurlöndum heldur einnig að miklum hluta um umhverfismál á grannsvæðunum, Norðurskautssvæðinu, ESB og annars staðar í heiminum.

Samstarf Norðurlandanna á sviði umhverfismála nær frá umhverfis- og heibrigðismálum til meðal annars umhverfis sjávar, útivistar og sjálfbærni. Hugmyndafræðin byggir á því að ekki skuli líta á umhverfismál ein og sér heldur sem hluta af stærri heild. Til dæmis eru skaðleg efni rannsökuð bæði út frá því hvort þau hafi áhrif á lýðheilsu og hvaða áhrif þau hafa á náttúruna.

Umhverfismál og heilbrigði

Eiturefni og efni sem losuð eru út í andrúmsloftið eru ekki eingöngu hættuleg umhverfinu, þau hafa einnig áhrif á heilsufar okkar. Árið 2020 eiga því ekki lengur að vera til vörur á markaði sem innihalda eiturefni sem hættuleg eru umhverfinu og lýðheilsunni né heldur verður leyfð losun efna út í andrúmsloftið sem menga umhverfið . Þetta er markmið norræns samstarfs um eiturefni. Til þess að ná þessu markmiði er meðal annars þörf á aukinni þekkingu um öll þau eiturefni sem notuð eru í dag. Það þarf því að þróa betri gagnagrunna og aðferðir til þess að skrá hættuleg efni. Niðurstöðurnar verða notaðar bæði á Norðurlöndun og sem innlegg á alþjóðavettvangi eins og innan ESB og Sameinuðu þjóðanna.

Það andrúmsloft sem við öndum að okkur á heldur ekki að innihalda menguð efni í magni sem er hættulegt heilsufari okkar og umhverfi. Þess vegna þarf að minnka losun hættulegra agna frá iðnaði, stórborgum og samgöngum. Norðurlöndin vilja hafa áhrif á alþjóðlega samninga og tilskipanir frá ESB með það að markmiði að lækka losunarmörk þannig að þau taki mið af norrænum aðstæðum.

Flestir eru sammála um að útisvist og hreyfing hafi góð áhrif á heilsufar fólks en nú á að skjalfesta það með rannsóknum. Norðurlöndin leggja á þessu sviði sérstaka áherslu á þekkingu um hreyfingu barna og unglinga og hvaða áhrif hún hefur á námshæfileika og hreyfigetu.

Norðurlöndin vilja einnig fylgja eftir því starfi sem hafið er við verndun náttúru og umhverfis á Norðurskautinu. Gerð verður áætlun um aðgerðir vegna kvikasilfurs, loftslagsmála og svonefndra POP efna, en það er samheiti fyrir lífræn umhverfiseiturefni sem erfitt er að brjóta niður.

Samkvæmt ítarlegri skýrslu frá Norðurskautsráðinu sem kom út árið 2004 (ACIA) er líklegt að loftslagsbreytingar muni hafa sérlega mikil og neikvæð áhrif á Norðurskautið. Það á ekki einungis við um umhverfið og dýralífið, heldur einnig heilsufar, byggingar, vegi og aðra innviði. Loftslagið á Norðurskautinu breytist hraðar en annars staðar í heiminum. Meðal árshiti á Norðurskautinu hefur aukist um það bil tvöfalt meira en á lægri breiddargráðum síðustu áratugi og ísbreiður og hafís bráðna hraðar en gert var ráð fyrir. Minni hafís veldur því að stærri öldur ná til strandanna og rofið eykst. Frumbyggjar munu finna fyrir miklum efnahagslegum og menningarlegum breytingum í kjölfar loftslagsbreytinganna. Þess vegna munu ríkisstjórnir Norðurlandanna kanna afleiðingarnar gaumgæfilega í samstarfi við Barentsráðið og Norðurskautsráðið.

Umhverfi sjávar

Norðurlöndin eru umkringd gífurlegum hafsvæðum, frá Norðurskautshafinu og Norður-Íshafi í norðri til Eystrasalts og Norðursjávar í suðri. Norðurlöndin eru öll háð hafinu á einn eða annan hátt.

Verndun lífríkis sjávar er því afar mikilvæg fyrir Norðurlöndin.

Norðurlöndin hafa einnig að markmiði að tryggja sjálfbæra stjórnun lifandi auðlinda hafsins og halda losun framandi lífvera, sem valdið geta lífríki sjávar skaða, í lágmarki. Unnið verður að því á virkan hátt að stöðva losun umhverfiseiturefna og takmarka umhverfisáhrif skipaumferðar. Í Eystrasalti, þar sem þörungablómi er mikill vegna skorts á súrum efnum í hafinu, er unnið að því að takmarka magn niturs og fosfórs.

Náið samstarf er um verndun sjávar við alþjóðlegar stofnanir eins og ESB og Sameinuðu þjóðirnar og leggja Norðurlöndin þannig sitt að mörkum við gerð alþjóðlegra umhverfissáttmála.

Náttúru- og menningarumhverfi - auðlind fyrir Norðurlöndin

Nú eru rúmlega eitt hundrað þjóðgarðar á Norðurlöndum, en þar gilda lögmál náttúrurnnar. Í þjóðgörðum verður mannskepnan að gæta sín að ferðast varlega án þess að skemma náttúruna. Árið 2008 var fyrsti þjóðgarðurinn í Danmörku stofnaður, á Norðvestur strönd Jótlands, og fleiri eru á leiðinni.

En þjóðgarðarnir eru einungis lítill hluti stórra náttúrsvæða Norðurlanda. Nauðsynlegt er að vernda, varðveita og einnig endurnýja mun fleiri svæði þannig að líffræðilegur fjölbreytileiki geti einnig þróast í framtíðinni, því eins og staðan er í dag er þróunin neikvæð. Tegundir, stofnar og dvalarstaðir þeirra hverfa. Norrænu ríkisstjórnirnar vinna því saman að því að afla þekkingar og láta skrá tegundir í úttrýmingarhættu, og einnig þær nýjar árásargjarnar tegundir sem taka sér bólfestu eins og til að mynda kóngakrabbinn. Markmiðið er að stöðva minnkun líffræðilegs fjölbreytileika í síðasta lagi árið 2010, svo mikið liggur á.

Almannarétturinn - frjáls aðgangur almennings að náttúrinni - á einnig að gilda um náttúru- og menningarumhverfið og í og við borgir og bæi. Þess vegna á að skjalfesta notagildi staðbundinna náttúrsvæða á Norðurlöndum. Einnig verður vinna sem tengist sjálfbærri ferðaþjónustu sett í forgang til þess að efla staðbundna þróun.

Sjálfbær neysla og framleiðsla

Norðurlöndin vilja vera í fremstu röð í þróun skilvirkrar og hreinnar framleiðslu og sjálfbærrar neyslu. Allt ferlið frá framleiðslu til losunar vöru og þjónustu verður að vera skaðlaust umhverfinu og heilsunni.

Nútíma farsími mengar ekki lengur svo framarlega sem honum er hent í réttan sorppoka þegar honum er skipt út. En framleiðsla eins síma skilur eftir sig 75 kílógrömm af sorpi. Ef gert er ráð fyrir að meðal endingartími farsíma sé eitt og hálft ár verða til margar milljónir tonna úrgangs á hverju ári. Þess vegna leggja framleiðendur farsíma mikla áherslu á endurvinnslu og endurnýtingu. Reynslan sýnir að það borgar sig að endurnýta. „Waste is money” er orðið eitt af slagorðum þessa iðnaðar sem er sérlega umfangsmikill í Svíþjóð og Finnlandi.

Dæmið með símana er einungis eitt af mörgum, sem sýna þær aðgerðir sem Norðurlöndin hafa átt frumkvæði að til að efla sjálfbæra neyslu. Annað er að stuðla að því að bæði opinberi og einkageirinn taki tillit til umhverfisins við innkaup. Norðurlöndin vilja einnig halda áfram að styðja við og þróa norræna umhverfismerkið Svaninn.

Norrænu ríkisstjórnirnar vilja vinna að því að uppfylla langtímamarkmið loftslagssáttmálans um að ná gróðurhúsalofttegundum í andrúmsloftinu í jafnvægi svo hægt verði að koma í veg fyrir hættuleg áhrif á loftslagið í heiminum af mannavöldum. Norðurlöndin sækjast eftir breiðu samstarfi við sem flest ríki, sér í lagi Eystraltsríkin og Rússland.

Ljósmyndari
Johannes Jansson/norden.org

Tengiliður

Marita Hoydal
Sími: 0045 29692915
Netfang: