Document Actions

Tungumál

Skyldleiki tungumálanna er eitt af því sem tengir norrænt samstarf. Danska, norska og sænska eru svo náskyld, að einstaklingur sem talar eitt þeirra getur lært að skilja þau öll með tiltölulega lítilli fyrirhöfn .

Danska, norska eða sænska eru móðurmál nær 80 prósenta Norðurlandabúa. Á ýmsum sviðum er það kostur, en mikilvægt er að hafa í huga að á Norðurlöndunum eru töluð önnur tungumál en þau skandínavísku.

Um 20 prósent tala finnsku og þar að auki eru mörg minnihlutatungumál.

Tungumálafjölskyldur

Flest norræn tungumál tilheyra þremur tungumálafjölskyldum.

Danska, færeyska, íslenska, norska og sænska tilheyra hinni norður-germönsku grein indóevrópskra tungumála. Tungumálin hafa þróast úr einu norrænu tungumáli, en síðastliðin 1000 ár hafa þau fjarlægst hvert annað. Þeir sem tala dönsku, norsku eða sænsku geta þó enn skilið hvern annan að miklu leyti.

Af hinni finnsk-samísku grein finnó-úgrísku tungumálanna er finnska mest talaða tungumálið á Norðurlöndum. En önnur tungumál úr þeirri fjölskyldu eru einnig töluð á Norðurlöndum. Í norðurhluta Finnlands, Noregs og Svíþjóðar eru töluð ýmis samísk tungumál. Karelska er töluð á litlu svæði í Finnlandi, kvænska í Noregi og meänkieli eða „tornedalsfinnska" í Svíþjóð.

Grænlenska eða „Kalaallisut" tilheyrir inui-grein eskimó-aluetískra tungumála og er töluð á Grænlandi. Tungumálið er í fjölskyldu tungumála sem töluð eru í norðurhluta Kanada og Alaska.

Nánari upplýsingar um tungumálin á Norðurlöndum eru í bókinni Norðurlandamálin með rótum og fótum.

Tungumál í einstökum ríkjum

Danmörk.

Danska er opinbert tungumál. Minnihluti á Suður-Jótlandi (Norður-Slésvík) talar þýsku. Menningar- og tungumálaréttindi þýska minnihlutans er verndaður með hinum svonefndu Kaupmannahafnar-Bonn-yfirlýsingum frá 1955. Yfirlýsingin verndar einnig danska minnihlutann í Suður-Slésvík.

Finnland.

Opinber tungumál í Finnlandi eru finnska og sænska.

Sænska er móðurmál um það bil sex prósenta íbúanna. Flestir sænskumælandi Finnar búa við suður- og vesturströnd landsins.

Í þremur sveitarfélögum (Korsnäs, Närpes og Larsmo) er sænska eina opinbera tungumálið. Samíska er opinbert tungumál í fjórum sveitarfélögum: Enontekiö, Inari, Utsjok og norðurhluta Sodankylä.

Samarnir, sígaunar og aðrir hópar eiga rétt á að viðhalda og þróa sitt eigið tungumál og menningu. Rétturinn til að nota táknmál er lögbundinn í finnsku tungumálalögunum.

Ísland

Íslenska er vestnorrænt tungumál, en í því eru einnig mörg orð af keltneskum uppruna.

Stærsti hluti orðaforða forníslensku hefur varðveist í nútímamáli. Þess vegna er tiltölulega auðvelt fyrir Íslendinga að lesa gamla texta, að minnsta kosti Íslendingasögurnar.

Íslendingar hafa um all langt skeið gert sér grein fyrir því hve mikilvægt það er að varðveita og viðhalda tungumálinu, bæði vegna þess að það hefur sína eigin sögu og vegna þess að það veitir aðgang að einstökum bókmenntum.

Íslensk málstefna einkennist af því að reynt er að komast hjá erlendum tökuorðum eins og til dæmis „computer" og „telefon". Þess í stað eru fundin upp íslensk nýyrði eins og tölva og sími.

Íslensk málnefnd leggur áherslu á að íslenska skuli vera það tungumál sem notað er alls staðar í íslensku þjóðfélagi, jafnvel þó enska verði sífellt meira áberandi í alþjóðlegu samhengi.

Noregur

Nokkur tungumál hafa stöðu opinbers tungumáls: norska (tvær tegundir: bókmál og nýnorska) samíska (þrjú ritmál: norður-samíska, lule-samiska og suður-samíska), kvenska, romani, romanes og norska táknmálið.

Samíska er opinbert tungumál í sveitarfélögunum Kautokeino, Karasjok, Gáivuotna (Kåfjord), Nesseby, Porsanger, Tana, Tysfjord, og Snåsa.

Nánari upplýsingar um norska málstefnu í "Mål og meining" sem gefið er út af norska menningar- og kirkjumálaráðuneytinu.

Svíþjóð

Samkvæmt sænsku tungumálalöggjöfinni sænska aðaltungumálið og sameiginlegt tungumál þjóðfélagsins. Alls eru sex minnihlutatungumál: finnska, meänkieli (tonedalsfinnska), samíska, jiddíska, romani chib og sænskt táknmál.

Færeyjar

Færeyska er aðallega töluð í Færeyjum. Samkvæmt heimastjórnarlögunum skal kennd danska og nauðsynlegt er að geta notað dönsku í opinberum erindum.

Grænland

Grænlenska er aðallega töluð á Grænlandi. Grænlensku sjálfstjórnarlögin frá 2009 kveða ekki á um dönskukennslu eða nauðsyn þess að geta notað dönsku í opinberum erindum. Grænlenska stjórnin býður opinberar upplýsingar á dönsku.

Álandseyjar

Samkvæmt sjálfstjórnarlögum Álandseyja eru Álandseyjar sænskumælandi. Finnskir þegnar hafa rétt á því að nota finnsku í samskiptum sínum við dómstóla og önnur stjórnvöld.

Önnur tungumál á Norðurlöndum

Auk talmála eru notuð mismunandi táknmál í ríkjunum. Íslenska táknmálið er skylt því danska, en það finnska er þróað úr því sænska.

Síðast en ekki síst eru fjölmörg tungumál innflytjenda töluð í flestum norrænum ríkjum.

Norrænu tungumálin utan Norðurlandanna

Danska er töluð af minnihlutanum í þýska héraðinu Slésvík-Holsetalandi þar sem tungumálið hefur stöðu minnihlutatungumáls.

Finnska er töluð í lýðveldinu Karelíu í Norðvestur-Rússlandi. Um 2 prósent íbúa eru Finnar og á opinberri vefsíðu lýðveldisins eru upplýsingar á finnsku.

Norrænu tungumálin eru notuð af útflytjendum í mismiklu mæli í Norður- og Suður-Ameríku. Tungumálin hafa ekki opinbera stöðu og erfitt er að meta hversu mikið þau eru notuð.

Norræna tungumálið norn var talað á miðöldum bæði í Caithness í Norður-Skotlandi og á Orkneyjum og Shetlandseyjum. Tungumálið er var náskylt færeysku hefur einungis varðveist að litlu leyti. Hætt var að tala það um árið 1800, en orð og orðatiltæki má enn finna í norður-skoskum mállýskum.

Danska, finnska og sænska eru opinber tungumál í Evrópusambandinu.

Norðurlandatungumálin í norrænu samstarfi

Í opinberu norrænu samstarfi eru danska, norska og sænska notuð sem vinnutungumál. Á fundum í Norðurlandaráði og Norrænu ráðherranefndinni er túlkað eftir þörfum milli finnsku, íslensku og skandínavísku, en ekki milli skandínavísku tungumálanna.

Norðurlöndin hafa gert með sér nokkra samninga um norrænt tungumálasamstarf.

Tengiliður

Marita Hoydal
Sími: 0045 29692915
Netfang: