Document Actions

Norrænt meistaranám

Í Norræna meistaranáminu (Nordic Master Programme) fá nemendurnir þekkingu og reynslu frá allt að þremur norrænum löndum í meistaranámi sem fram fer á ensku. Þetta er kunnátta sem löndin geta ekki boðið upp á hvert um sig.

Posering
Ljósmyndari
Karin Beate Nøsterud/norden.org

Hreyfanleiki og gæði eru lykilþættir í Norræna meistaranáminu. Auk þess að vera meistaranám í háum gæðaflokki myndar það sameiginlegt norrænt menntasvæði og stuðlar jafnframt að frjálsri för þekkingar milli landanna.

Sameiginlegt meistaranám Norðurlanda gefur námsmönnunum kost á að búa og stunda nám í að minnsta kosti tveimur norrænum löndum á þeim tveimur árum sem námið varir.


Fjölbreyttir möguleikar

Þær námsleiðir sem heyra undir Norrænt meistaranám eiga það sameiginlegt að vera allar á ensku og nema að minnsta kosti 120 ECTS. Að öðru leyti eru þær mjög mismunandi enda taka þær 25 námsleiðir sem hingað til hefur verið boðið upp á til ýmiss konar fagsviða, allt frá sjávarverkfræði til náms í glerblæstri og menningarstjórnun.


Ánægðir nemendur

Spurningakannanir og viðtöl sýna að nemendur í Norrænu meistaranámi eru ákaflega ánægðir með það. Í könnun meðal námsmanna sem gerð var 2012 sögðu 93% nemenda að þeir myndu mæla með náminu við aðra. Nemendum finnst hreyfanleikinn í námsleiðunum sérlega mikils virði og hvorki meira né minna en 70% segja að hann hafi átt stóran þátt í ákvörðun þeirra um að hefja Norrænt meistaranám.

Í ljós hefur komið að námsleiðirnar laða að nemendur hvort tveggja frá Norðurlöndum og frá öðrum heimshlutum. Sem stendur eru um 40% nemenda frá Norðurlöndum, 20% eru frá öðrum löndum Evrópu og 40% eru frá löndum utan Evrópu. 


Hvernig er hægt að stofna nýtt norrænt meistaranám?

Að minnsta kostir þrír norrænir háskólar þurfa að taka höndum saman um stofnun nýrrar norrænnar námsleiðar í meistaranámi og geta þeir þá sótt um allt að 1,5 milljónir danskra króna frá Norrænu ráðherranefndinni. Einn háskóli þarf að taka að sér umsjón með náminu og að minnsta kosti tveir aðrir þurfa að vera samstarfsaðilar.

Umsjón með Nordic Master hefur Utbildningsstyrelsen (fræðsluyfirvöld) í Finnlandi.

Opnað hefur verið fyrir umsóknir um Norrænt meistaranám og er umsóknarfrestur til 29. september 2017.

Nánari upplýsingar um meistaranámið má nálgast á nordicmaster.org


Tengiliður

Kai Koivumäki
Sími: +45 21 71 71 24
Netfang: