Document Actions

Sýningin New Nordic Landscapes opnuð á heimssýningunni EXPO 2010 í Sjanghæ

Norræna sýningin New Nordic Lanscapes opnuð við hátíðlega athöfn. Norræna sýningin New Nordic Lanscapes hefur verið opnuð við hátíðlega athöfn. Hún er haldin í norræna vitanum á meðan á heimssýningunni EXPO 2010 stendur í Sjanghæ, frá 1. júní til 15. ágúst.

28.05.2010

Á sýningunni má fræðast um líffræðilega fjölbreytni í þéttbýli, samspil samfélagsinnviða og landslags, þéttbýlismyndun, jarðhitanýtingu á Íslandi og notkun úrgangs frá olíuiðnaði í Noregi.

New Nordic Landscapes sýnir með raunverulegum verkefnum í norrænu ríkjunum að landslagsarkitektúr snýst um margt fleira en að fegra umhverfið. Hægt er að nota sjálfbærar lausnir við landslagshönnun, efla heilbrigði og skapa betri lífsskilyrði fyrir íbúa borga og dreifbýlissvæða.

Sýningin, sem er nátengd yfirskrift EXPO 2010 "Betri borgir, betra líf", sýnir hvernig landslagsmótun hefur áhrif á skilningarvitin og beinir athygli að mikilvægi þess að þróa nýjar skipulagsaðferðir. Aðferðir sem leggja áherslu á notkun náttúrulegra auðlinda og sameina nýjustu tækni, þekkingu á alþjóðavettvangi, og þekkingu á staðbundnum aðstæðum, menningu og sjálfsímynd fólks.

Náið samband við náttúruna og leitin að jafnvægi milli nýtingar, framþróunar og verndunar náttúruauðlinda og landslags eru mikilvægir þættir í norrænni menningarsögu. Þeir hafa orðið æ mikilvægari á undanförnum árum í ljósi þeirra umhverfisbreytinga sem eiga sér stað. Þess vegna leggur Norræna ráðherranefndin áherslu á landslagshönnun sem tæki til sjálfbærrar þróunar í borgarumhverfi, skynsamlega og skilvirka landnotkun og kynningu á norrænni færni á ESXP 2010 í Sjanghæ.

- Norðurlandaþjóðir eru í fararbroddi í sjálfbærri þróun borgarumhverfis og skilvirkri landnýtingu. Sérstaklega er mikil gerjun í nýsköpun og sköpun í hönnun, arkitektúr og landslagsmótun. Sýningin "New Nordic landscapes" er prýðisgott dæmi um þetta, og ég er þess fullviss að hún mun verða mörg þúsund gestum sýningarinnar innblástur, segir Per Stig Møller, menningarmálaráðherra Danmerkur og formaður Norrænu ráðherranefndarinnar um menningarmál.

Norræna ráðherranefndin átti frumkvæði að og fjármagnar New Nordic Landscapes og er sýningin hluti af hnattvæðingarstefnu norrænu menningarmálaráðherranna. Í samræmi við hana hafa ráðherrarnir ýtt úr vör fjölmörgum verkefnum, með áherslu á sköpunariðnaðinn og kynningu á norrænni menningu í bókmenntum, kvikmyndum og landslagsarkitektúr.

Sýningin er hönnuð af dönsku miðstöðinni um byggingalist í samstarfi við Norsk Form - stofnun um hönnun og byggingalist í Noregi, Norræna húsið í Reykjavík, sænska byggingalistasafnið og finnska byggingalistasafnið.

Nánari upplýsingar veitir:
Kjersti Wikstrøm, forstöðumaður dönsku miðstöðvarinnar um byggingalist
kw@dac.dk / +45 22167125