Saman heima – fylgstu með verðlaunahátíð Norðurlandaráðs 2020

Vinnarna till Nordiska rådes priser avslöjas den 27 oktober 2020.

Verðlaun Norðurlandaráðs verða afhent í gegnum netið á einstakri verðlaunahátíð þann 27. október klukkan 20:10. Kórónuveirufaraldurinn kom ef til vill í veg fyrir hefðbundna verðlaunahátíð en hann gaf okkur engu að síður tækifæri til að skapa nýja og persónulega upplifun. Og þér er boðið!

Norðurlandaráð veitir ár hvert fimm verðlaun til þess að vekja athygli á bókmenntum, tungumáli, tónlist og kvikmyndum Norðurlandanna ásamt nýsköpun á sviði umhverfismála. Vegna kórónuveirufaraldursins fer verðlaunahátíð ársins fram á netinu.

Verið hjartanlega velkomin

Fyrir hönd landsdeildar Íslands í Norðurlandaráði viljum við bjóða ykkur öll hjartanlega velkomin á verðlaunahátíð Norðurlandaráðs 2020.

Þar sem við þurfum öll að halda fjarlægð hvert frá öðru á þessum tímum höfum við skipulagt stafræna kvöldhátíð til að heiðra tilnefnda rithöfunda, listamenn og frumkvöðla ársins fyrir listræna sköpun þeirra og hvetjandi aðgerðir í umhverfismálum.

Verðlaun Norðurlandaráðs gegna mikilvægu hlutverki við að vekja athygli á og styðja einstök framlög til menningar og umhverfis á svæðinu.

Þess vegna er sérlega ánægjulegt að allir á Norðurlöndum geti komið saman heima úr stofu og fylgst með þegar tilkynnt verður hverjir hljóta verðlaun Norðurlandaráðs í óhefðbundni sjónvarpsútsendingu þann 27. október.

Verið velkomin að njóta einstakrar norrænnar kvöldstundar með sérstökum innslögum frá Íslandi!


Með kærri kveðju,

Silja Dögg Gunnarsdóttir

Forseti Norðurlandaráðs

Oddný Harðardóttir

Varaforseti Norðurlandaráðs

Horfðu á verðlaunahátíðina á netinu

Þú getur horft á verðlaunaafhendinguna með beinu streymi á netinu eða í sjónvarpi hvar sem er á Norðurlöndum. Bein útsending RÚV hefst klukkan 20.10. Hægt verður að streyma athöfninni í gegnum Play-þjónustu RÚV á öllum Norðurlöndum. Verðlaunaafhendingin verður einnig send út á almannaþjónustustöðvum í öllum löndunum en tímasetningar geta verið breytilegar. Athugaðu tímasetninguna í sjónvarpsdagskrá þíns lands.

 

Dagskrá

Dagskrárgerðarkonan Halla Oddný Magnúsdóttir mun bjóða upp á einstaka hátíðarsamkomu í sjónvarpi. Við fáum meðal annars að sjá Íslenska dansflokkinn flytja sérsamið utanhússverk og píanóleikarinn Víkingur Ólafsson og hljómsveitin Of Monsters and Men leyfa okkur að njóta tóna sinna.

Hjartanlega velkomin

Dagskrárgerðarkonan Halla Oddný Magnúsdóttir býður áhorfendur velkomna frá Íslandi

Barna- og unglingabókmenntaverðlaun Norðurlandaráðs 2020

Afhending verðlauna: Forseti Íslands, Guðni Th. Jóhannesson, afhendir verðlaunin frá heimili sínu á Bessastöðum

Tónlistaratriði

Píanóleikarinn Víkingur Ólafsson flytur verk frá heimili sínu í Reykjavík

Umhverfisverðlaun Norðurlandaráðs 2020

Afhending verðlauna: Loftlagsaðgerðasinnarnir Kira Lennert Olsen og Nuiana Hardenber afhenda verðlaunin utandyra frá Nuuk, Grænlandi

Tónlistarverðlaun Norðurlandaráðs 2020

Afhending verðlauna: Gyða Valtýsdóttir, tónlistarkona og fyrrum handhafi verðlaunanna, flytur tónverk úr sóttkví frá svölum sínum í Reykjavík

Dansatriði

Íslenski dansflokkurinn flytur sérsamið verk úr Elliðaárdal

Kvikmyndaverðlaun Norðurlandaráðs 2020

Afhending verðlauna: Benedikt Erlingsson, leikstjóri og fyrrum handhafi verðlaunanna, afhendir verðlaunin frá hesthúsi í Kópavogi

Tónlistaratriði

Hljómsveitin Of Monsters and Men kemur fram „á sviði“ í hljóðveri sínu í Garðabæ

Bókmenntaverðlaun Norðurlandaráðs 2020

Afhending verðlauna: Rithöfundurinn, grínistinn og listamaðurinn Zinat Pirzadeh afhendir verðlaunin frá heimili sínu í Stokkhólmi

Um hina tilnefndu

51 verk, verkefni og listamenn eru tilnefnd til hinna fimm verðlauna Norðurlandaráðs árið 2020. Hver verðlaunahafi hlýtur verðlaunagripinn Norðurljós og 350 þúsund danskar krónur.

Nánar um hina tilnefndu:

Taktu þátt heima úr stofu

Saman getum við gert verðlaunahátíð Norðurlandaráðs 2020 að gleðilegustu heimahátíð ársins.

  1. Þetta er frábært tækifæri til að taka fram partíblöðrurnar eða pallíettubindið. Þú þarft heldur ekki að óttast fótsærindi þar sem lakkskórnir munu að öllum líkindum ekki fara lengra en á milli sófans og eldhússins.
  2. Leggðu á borð með eftirlætisgóðgætinu þínu frá Norðurlöndunum. Hvað með snarl með Kalles-kavíar frá Svíþjóð, kæstum hákarli, dönskum osti eða norskum sviðahaus á finnsku rúgbrauði?
  3. Ekki gleyma að fylla vel á glösin til að geta alltaf skálað!
  4. Veðjaðu við heimilisfólk eða nágranna um hvaða fimm muni hreppa verðlaunin.
  5. Farðu í norræna kynnisferð á netinu á meðan þú bíður eftir verðlaunaafhendingunni með því að lesa meira um hina tilnefndu á norden.org. Þú getur einnig deilt myndum frá þinni eigin Norðurlandahátíð með því að nota þessi merki á Instagram: #nrpriser eða @nordisksamarbejde.
  6. Bjóddu vinum og vandamönnum að vera með þér, eftir því hvaða takmarkanir eru í gildi í þínu landi. Mundu að þú getur alltaf notað Zoom eða önnur öpp eða forrit ef þið getið ekki hist á sama stað.
  7. Horfðu á hátíðina hér: [Hlekkur kemur síðar]
  8. Njóttu þess að eiga frábæra norrænna kvöldstund!
Veittu öðrum innblástur!

Á þessum tímum, þegar við þurfum að halda okkur í örygginu heima, þurfa mörg okkar að hafa eitthvað spennandi til að hlakka til. Við vonum þess vegna að þessi verðlaunaafhending komi til með að gera þriðjudagskvöldið þitt örlítið skemmtilegra og hátíðlegra! En hvernig getum við komið saman þegar við erum öll heima? Deildu því hvernig þú tekur þátt í verðlaunahátíðinni á þeim samfélagsmiðli sem þú kýst og merktu færsluna með #nrpriser ef það er hægt. Og ekki missa af tækifærinu til að merkja okkur til að við getum deilt uppfærslum þínum með fylgjendum okkar:

Um verðlaun Norðurlandaráðs

 Bókmenntaverðlaunin eru elst verðlaunanna fimm. Þau voru veitt í fyrsta sinn árið 1962. Á eftir þeim fylgdu tónlistarverðlaunin, umhverfisverðlaunin, kvikmyndaverðlaunin og barna- og unglingabókmenntaverðlaunin. Fimm dómnefndir sjá um að tilnefna verk og útnefna verðlaunahafana.