Konur virkari í ofbeldisfullum öfgahópum en talið var

Skýrslan „Women in violent extremism“ tekur til 200 kvenna en rannsakendurnir telja að þessar konur séu í raun miklu fleiri. Skýrslan er greining á konum í ofbeldisfullum öfgahópum og byggir á mismunandi vísbendingum bæði félagslýðfræðilegum og með tilliti til afbrota.
Konurnar taka þátt í vinstriöfgahópum, hægriöfgahópum og ofbeldisfullum íslamistahópum. Greining sýnir að hlutverk kvennanna er stærra í hópunum og afbrotum en áður hefur komið fram í rannsóknum. Afbrotin sem konurnar eru grunaðar um snerta oft ofbeldi.
Flestar konurnar í vinstriöfgahópum eru með mikla menntun og hafa fengið góðar einkunnir. Þær eru oft í góðri vinnu og eru sjaldan á opinberum bótum. Þetta á ekki við um konur í íslamistahópum og hægriöfgahópum. Konurnar í þeim hópum eru oft með minni menntun og veikari tengsl við vinnumarkaðinn. Veikust eru þessi tengsl meðal kvenna í íslamistahópum. Þær eru einnig háðari félagslegum stuðningi frá opinberum aðilum.
Konur í vinstriöfgahópum skera sig úr þegar kemur að afbrotum. Sextíu próstent þessara kvenna hafa legið undir grun um afbrot. Sambærilegar tölur um konur í íslamistahópum og hægriöfgahópum eru annars vegar 37 prósent og hins vegar 44 prósent.
Vísindafólkið sem stendur að baki skýrslunni telur að fyrri rannsóknir á þessu sviði séu gallaðar og að kynjamismunun einkenni þær nánast allar. Niðurstaða skýrslunnar er þess vegna að frekari rannsóknir séu nauðsynlegar til þess að skilja hlutverk kvenna í öfgahópum, hvers vegna og hvernig þær eru sóttar inn í hópana og hverjar séu réttu leiðirnar til að hamla gegn þessari þróun.