Viljinn það eina sem vantar

23.10.19 | Fréttir
Malmtog i Kiruna
Photographer
Johannes Jansson/norden.org
Skortur á heildstæðum lausnum fyrir norræna samgönguinnviði dregur úr hreyfanleika á Norðurlöndum og veikir samkeppnishæfni og arðsemi í atvinnulífinu. Einnig stendur hann í vegi fyrir þeirri framtíðarsýn forsætisráðherranna að Norðurlöndin verði sjálfbærasta og samþættasta svæði heims. Þetta er einróma álit Norðurlandaráðs og forysta atvinnulífsins tekur undir.

Góðir innviðir fyrir samgöngur og vöruflutninga eru ofarlega á baugi á Norðurlöndunum öllum, en fátt er um ljóstýrur í myrkrinu fyrir norræna járnbrautarkerfið sem hefur liðið fyrir skort á viðhaldi og nýjum fjárfestingum. Þetta kom skýrt fram á hinni árlegu samgönguráðstefnu Elmia Nordic Future Transport Summit í Jönköping.

„Við erum með peningana, tæknina, þörfina og umhverfissjónarmiðin. Það eina sem vantar er pólitískur vilji,“ sagði Alf Johansen, skrifstofustjóri landamæranefndarinnar Värmland-Østfold, og uppskar lófaklapp ráðstefnugesta.

Johansen talaði um þann möguleika að byggja upp háhraðalestartengingu milli Óslóar og Gautaborgar. Það var aðeins eitt af mörgum dæmum um þann skort á samvinnu og gagnkvæmum skilningi á samgöngulausnum til framtíðar sem þykir einkenna norræna samgönguinnviði.

Við erum með peningana, tæknina, þörfina og umhverfissjónarmiðin. Það eina sem vantar er pólitískur vilji

Alf Johansen, skrifstofustjóri landamæranefndarinnar Värmland-Østfold

Á ráðstefnunni Elmia Nordic Future Transport Summit er áhersla lögð á að líta til framtíðar í millilandasamstarfi á sviðum á borð við fjármögnun, færniþróun, rannsóknir og nýsköpun. Það leyndi sér ekki að norrænu samgöngumálaráðherranna var sárt saknað á ráðstefnunni. Þeim var öllum boðið að taka þátt.

„Það er synd að norrænu ráðherrarnir sýni Elmia ekki meiri áhuga. Þetta er vettvangurinn til að ræða innviði framtíðarinnar og þróa þá áfram. Hér hefðu ráðherrarnir fengið tækifæri til að ræða fleira en það sem hvert og eitt land er að fást við. Það er svo miklu áhugaverðara að heyra hverju þeir vilja fá áorkað í sameiningu,“ segir Johan Lindblad, aðalráðgjafi hjá Norðurlandaráði.

Skortur á viðhaldi eykur kostnað

Áhrifa af ónógu viðhaldi og samstarfi gætir meðal annars í skógariðnaði á Norðurlöndum. Einkum í skógariðnaði, en einnig almennt í atvinnulífi Norðurlanda, hefur ófullnægjandi skilvirkni í vöruflutningum miklar efnahagslegar afleiðingar. Karolina Boholm, framkvæmdastjóri flutningsmála í sænskum skógariðnaði, greinir frá því að kostnaður við flutninga í bransanum sé að meðaltali meira en 20 prósent af heildarkostnaði. Samfara auknum kostnaði hefur dregið úr gæðum vöruflutninga með járnbrautarlestum.

„Gamlir og niðurníddir innviðir skapa vandamál fyrir alla hagsmunaaðila. Þeir verða til þess að kostnaður eykst enn frekar og arðsemi minnkar, sem aftur leiðir til færri fjárfestinga og fleiri vandamála. Járnbrautirnar eru komnar í vítahring sem er bara hægt að leysa með miklu átaki í viðhaldsmálum. Að auki er nýrra fjárfestinga þörf,“ segir Boholm.

Boholm segist enn vera að ræða sömu vandamálin og árið 2012. Þróun mála í járnbrautakerfinu hafi ekki stefnt í rétta átt þó að aðilar iðnaðarins hafi kveðið skýrt á um nauðsyn góðs járnbrautarkerfis fyrir fyrirtækin í löndunum.

Í framkvæmdaáætlun Norrænu ráðherranefndarinnar um hreyfanleika 2019–2021 kemur fram að samstarfsráðherrar Norðurlanda biðja viðkomandi fagráðherra um að funda að minnsta kosti einu sinni á árinu 2019. Hugmyndin var að á fundinum myndu ráðherrarnir kortleggja sameiginleg markmið og meta gagnsemi þess að koma á fót sérstakri bráðabirgðaráðherranefnd um samgöngumál. Slíkur fundur hefur ekki átt sér stað.

Einnig hefur Norðurlandaráð eins og það leggur sig, með 87 þingmönnum úr öllum stjórnmálaflokkum, beðið norrænu ríkisstjórnirnar að endurvekja norrænu ráðherranefndina um samgöngumál. Svar fagráðherranna var: Nei!

Norðurlandaráð hefur óskað eftir fundi með fagráðherrunum margsinnis frá árinu 2016. Enn hefur ekki orðið af slíkum fundi.  Skýrslugjafi norrænu hagvaxtar- og þróunarnefndarinnar um samgöngumál, Stein Erik Lauvås, er ósáttur við stöðu mála.

„Enginn raunverulegur vilji virðist vera til þess að taka höndum saman um að móta stefnu og vinna skipulag fyrir samgönguinnviði á Norðurlöndum. Hvert land virðist hafa nóg með sín eigin umfangsmiklu verkefni. Kannski þau hafi gleymt því sem segir um samgöngumál í Helsingforssamningnum,“ andvarpar Lauvås.

Þar vísar hann til 26.–28. greinar i samningnum, þar sem undirstrikað er að norrænu löndin skuli vinna saman að samgöngulausnum í þeim tilgangi að „auðvelda samgöngur og vöruskipti milli landanna og finna hagkvæma lausn þeirra vandamála, sem kunna að vera á þessu sviði“.

Hvert land virðist hafa nóg með sín eigin umfangsmiklu verkefni. Kannski þau hafi gleymt því sem segir um samgöngumál í Helsingforssamningnum

Stein Erik Lauvås, skýrslugjafi norrænu hagvaxtar- og þróunarnefndarinnar um samgöngumál
Contact information