Auglýst eftir tilboðum í verkefni um vísa fyrir mat á þróun losunar í nálægri framtíð

28.04.21 | Fjármögnunarmöguleiki
Norræni vinnuhópurinn um umhverfis- og efnahagsmál (NME) sem heyrir undir Norrænu ráðherranefndina auglýsir hér með eftir tilboðum í verkefni um vísa fyrir mat á þróun losunar í nálægri framtíð. Tilboðsfrestur rennur út 10.6.2021.

Upplýsingar

Flokker
Opinber innkaup
Frestur
Fim, 10/06/2021 - 15:00
Fjármálarammi
300.000 DKK
Lönd
Álandseyjar
Danmörk
Færeyjar
Finnland
Ísland
Noregur
Svíþjóð
Grænland

Skýringar

Tölur um losun gróðurhúsalofttegunda eru nú birtar árlega, bráðbirgðatölur með nokkurra mánaða seinkun og lokatölur með um árs seinkun og þær eru sendar til ESB og SÞ jafnvel enn síðar. Notkun hraðmats til að fylgjast með þróun hefur aukist en enn er talsverð seinkun á birtingu lokaniðurstaðna. Í ljós hefur komið að þetta hraðmat gefur oft á tíðum of grófa eða jafnvel alranga mynd af þróuninni. Um leið er vaxandi þörf á að komast að því hvernig mismunandi úrræði hafa áhrif á losun með eins lítilli seinkun og mögulegt er og helst í rauntíma. Erfitt getur verið að finna jafnvægið milli þessara hagsmunaþátta. Frá upphafi kórónuveirukreppunnar vorið 2020 voru gerðar ýmsar tilraunir til að komast að því hvernig lokun stórs hluta samfélagsins hafði áhrif á losun. Þar sem opinberar tölur um losun ársins 2020 eru farnar að birtast er einnig hægt að meta hvernig hraðmatið kemur út miðað við raunveruleikann.

Markmið með verkefninu

Tilgangur þessa verkefnis NME er kanna hvaða vísar og reikniaðferðir hafa verið notaðar í rannsóknum og skýrslum sem skipta máli frá norrænu sjónarhorni og hafa verið gefnar út undanfarin ár til að fá hraðmat á þeirri þróun sem á sér stað á losun gróðurhúsalofttegunda og sérstaklega koltvísýrings. Í verkefninu skal gerð grein fyrir því hvaða upplýsingaveitur innan geirans geta komið að gagni. Þá skal færa rök fyrir kostum og göllum skýrslna um losun innan styttri tímaramma og greina frá því í hvaða tilvikum tölur um losun til skemmri tíma eru mikilvægastar og gagnlegastar.

Kortlagning á mögulegum vísum og reikniaðferðum skal fela í sér:

  • Yfirferð yfir stöðuna eins og hún er nú og mat á því hvaða tækifæri Norðurlöndin hafa til að nota mismunandi vísa og reiknilíkön til að gera losunaráætlunar á stuttum tíma.
  • Mat á þróun aðferða sem þyrfti að beita til að gera áætlanir sem fela í sér eins litla óvissu og kostur er.
  • Tengsl milli efnahagslegrar starfsemi sem og annarrar starfsemi í samfélaginu annars vegar og þróunar á losun hins vegar eru áhugaverð út frá sjónarmiði hagrænna aðgerða í umhverfismálum. Í skýrslunni mætti beina sjónum að erfiðleikum sem fólgnar eru í því að gera losunarmat út frá efnahagslegum gögnum ef ekki er tekið mið af tengslum fyrrnefndra þátta.

Í verkefnisskýrslunni skulu vera tillögur og tilmæli um þróun aðferða og hvernig hægt væri að nýta hraðmat og mat á þróun losunar sem viðbót við opinberar tölfræðilegar upplýsingar á Norðurlöndum.

Fjárhagsáætlun

Fjárhagsrammi verkefnisins er 300.000 DKK (virðisaukaskattur er innifalinn). Fjárhagsramminn tekur til eðlilegra útgjalda ráðgjafans við vinnu verkefnisins ásamt hugsanlegs ferðakostnaðar í tengslum við miðlun niðurstaðna þess.

Frestir

Tilboðið skal berast vinnuhópi Norrænu ráðherranefndarinnar, NME, í síðasta lagi 10.06.2021 Afhenda skal öll skjöl innan þessa tímafrests. Efni sem berst eftir þessa dagsetningu er ekki tekið til greina. Ákvörðun verður tekin í júní og verður öllum sem sent hafa tilboð greint frá ákvörðuninni. Nánari dagsetningar vegna stöðuskýrslu og lokaskýrslu verða ákveðnar í tengslum við samninginn.

Tilboð

Tilboð skal senda með tölvupósti á skráningu í umsýslustofnun NME (registratur.sodraosterbotten@ntm-centralen.fi) á einhverju norrænu tungumálanna og nota til þess verkefnalýsingu/umsóknareyðublað og tilheyrandi fjárhagsáætlun sem skylt er að nota. Í tilboðinu skal vísað til skjalsnúmers EPOELY/1277/2021

Hvatt er til þess að send séu frekari fylgiskjöl (að hámarki 10-15 síður á A4) með nánari lýsingum á þeim þáttum sem skoðaðir eru við matið, til dæmis sjálfstæð verkefnislýsing. Ef sendar eru ferilskrár skulu þær sameinaðar í eitt skjal sem sent er sérstaklega.

Við mat á tilboðsgjöfum verður áhersla lögð á

  • Uppbyggingu og skipulag vinnunnar, þar með talið aðferðir og hvernig á að safna og vinna úr viðeigandi gögnum
  • Tímaáætlun
  • Ábyrgðadreifingu, tímaramma, almenna færni og hæfni þeirra sem eiga að stjórna og vinna verkið
  • Fyrri reynslu tilboðsgjafa á sviðinu
  • Tengslanet sem nýtt verða í verkefninu og geta til að skilja norrænu tungumálin
  • Kostnað vegna skipulagningar tíma, tímalaun og önnur útgjöld
  • Skipulag á miðlun niðurstaðna verkefnisins

NME mun velja verktakann út frá mati hópsins á tilboðum. NME áskilur sér rétt til að hafna öllum tilboðum.

Sjá fylgiskjal: „Anbudsinbjudan_Klimatindikatorer_NME_LONG.docx“ til að fá nánari upplýsingar um inntak verkefnisins og kröfur vegna fjármögnunar.