Náttúrulegar lausnir á Norðurlöndum: Styrkir til landsbundinna tilraunaverkefna

28.09.21 | Fjármögnunarmöguleiki
Norræna ráðherranefndin hyggst veita styrki til tilraunaverkefna á öllum Norðurlöndunum til þess að þróa ný verkefni eða þróa áfram verkefni sem þegar eru hafin. Þetta er liður í áætluninni Náttúrulegar lausnir á Norðurlöndum. Markmiðið er að byggja upp hagnýta reynslu og nýja þekkingu á innleiðingu náttúrulegra lausna á Norðurlöndum.

Upplýsingar

Flokker
Kall eftir tillögum
Frestur
fös, 17/12/2021 - 23:59
External organization
Umhvørvisstovan
Fjármálarammi
200.000 – 900.000 danskar krónur fyrir hvert verkefni. 6.500.000 danskar krónur alls.
Lönd
Danmörk
Finnland
Færeyjar
Grænland
Ísland
Noregur
Svíþjóð
Álandseyjar

Verkefnin eiga að hefjast í ársbyrjun 2022 og verður fylgt vel eftir af eftirlitsaðila til loka ársins 2023 þegar niðurstöður allra verkefnanna verða gefnar út í sameiginlegri skýrslu. Gert er ráð fyrir að uppfærðar niðurstöður verkefnanna verði sendar verkefnisstjóra í árslok 2024 og hann miðlar þeim svo áfram. Ekki er nauðsynlegt að tilraunverkefnunum ljúki í árslok 2024 en fjármögnun áætlunarinnar lýkur þá. Hægt er að sækja um fyrir eitt, tvö eða þrjú ár.

Náttúrulegar lausnir

Náttúrulegar lausnir eru skilgreindar sem: Aðgerðir sem vernda, stýra með sjálfbærum hætti og endurheimta náttúruleg eða lítið breytt vistkerfi og taka á samfélagslegum áskorunum á skilvirkan og aðlögunarhæfan hátt um leið og í þeim felst ávinningur bæði fyrir mannfólk og líffræðilega fjölbreytni (IUCN og IPBES-Naturpanelet). Náttúrulegar lausnir byggja á hæfni vistkerfanna sjálfra til þess að veita þjónustu sem gagnast mannfólki, svo sem að draga úr afleiðingum loftslagsbreytinga á samfélög og innviði með því til dæmis að auka jafnvægi vatnsbirgða, vatnsrennslis og gæða vatns og draga úr áhrifum hita í borgum. Náttúrulegar lausnir geta einnig bundið kolefni og dregið úr losun.

Litið er á náttúrulegar lausnir sem mikilvægan lið í vinnu að loftslagsmálum, umhverfismálum og líffræðilegri fjölbreytni og gagnsemin er margháttuð. Náttúrulegar lausnir geta til dæmis verið sjálfbær nýting jarðar og auðlinda, verndun og endurheimt strandsvæða, beitarlands, skóga, mýra og votlendis og hringrásarmyndun eða opnun á ám og fljótum. Vísindamenn telja að hægt sé að byggja á náttúrulegum lausnum þriðjung þess samdráttar á losun gróðurhúsalofttegunda sem er nauðsynlegur er til þess að tryggja að hnattræn hlýnun fari ekki yfir þær tvær gráður sem kveðið er á um í Parísarsamkomulaginu. Loftslagsaðlögun er einnig mikilvæg til að draga úr aurskriðum og landrofi, draga úr flóðum og þurrkum og auka viðnámsþol vistkerfa og sjálfbæra nýtingu náttúruauðlinda.

 

Þá geta náttúrulegar lausnir verið liður í að draga úr missi á líffræðilegri fjölbreytni. Auk þess er sannað að slíkar lausnir hafa jákvæð áhrif á marga samfélagslega þætti, svo sem mataröryggi, aðgengi að vatni og liðan fólks.

Norrænt samstarf er skilvirkt verkfæri til þess að ná fram markmiðinu um að Norðurlönd verði sjálfbærasta svæði heims 2030. Ráðstöfun Norrænu ráðherranefndarinnar á 26 milljónum króna til fjögurra ára áætlunar um náttúrulegar lausnir á Norðurlöndum er liður í þessu starfi. Undir áætlunina heyra fimm undirverkefni sem unnin verða á árunum 2021 til 2024. Fyrsta undirverkefnið hófst árið 2021 og verða niðurstöður þess samantekt reynslu og þekkingar um náttúrulegar lausnir á Norðurlöndum.

Annað undirverkefni áætlunarinnar er helgað landsbundnum verkefnum og verður því ýtt úr vör í janúar 2022. Því eru nú auglýstir til umsóknar styrkir til verkefna sem snúa að innleiðingu náttúrulegra lausna á Norðurlöndum. Áætlað er að um verði að ræða 10 til 15 mál sem dreifast á Norðurlöndin og mismunandi vistkerfi.

Markmið

Markmiðið með þessu undirverkefni er að prófa náttúrulegar lausnir sem ekki hafa þegar fest sig í sessi á Norðurlöndum. Þetta er gert með því að safna upplýsingum um hvað hefur áhrif og hvað ekki þegar kemur að innleiðingu verkefna, að fylgja eftir og meta með því að miðla dæmum og aðferðum milli norrænu landanna. Niðurstöðurnar verða notaðar til þess að þróa almennar leiðbeiningar fyrir vel heppnaða innleiðingu náttúrulegra lausna þvert Norðurlönd í öðrum verkefnum áætlunarinnar.

Æskilegur árangur

Niðurstöður tilraunaverkefnanna skulu vera eitthvað af þessu:

  • Hagnýt reynsla af aðferðum við að koma á fót náttúrulegum lausunum - til að miðla milli norrænu landanna.
  • Prófun náttúrulegra lausna sem eru þekktar í einu norrænu landi en minna þekktar í öðru norrænu landi.
  • Ný þekking um skipulag, innleiðingu, hindranir og drifkraft, eftirfylgni, aukningu umfangs, félagshagfræðilegt mat eða aðrar niðurstöður náttúrulegra lausna á Norðurlöndum.

Verkefnin skulu leiða til bóta á líffræðilegri fjölbreytni og um leið takmarka loftslagsbreytingar, draga úr mengun eða örva loftslagsaðlögun, fæðuframboð eða aðrar samfélagslegar áskoranir. Verkefnin má tengja vinnu landanna að bláum og grænum innviðum en þess er ekki krafist. Þau mega vera í alls konar vistkerfum, í borgum og á landsbyggðinni, við sjávarsíðuna og inn til landsins. Æskilegt er að verkefnin standist IUCN's Global Standard for Nature-based Solutions til þess að tryggja að tekið sé tillit til bæði líffræðilegrar fjölbreytni og loftslags/loftslagsaðlögunar.

Væntingar til tilraunaverkefnanna

Ætlast er til að ábyrgðaraðilar verkefnanna skili stuttri ársskýrslu og lokaskýrslu með niðurstöðum einstakra verkefna. Ítarlegri upplýsingar er að finna hér: Um styrki frá Norrænu ráðherranefndinni | Norrænt samstarf (norden.org).

Í verkefnun skal einnig vinna með eftirlitsaðilanum sem mun leggja fram spurningar meðan á verkinu stendur með það fyrir augum að sameina niðurstöður verkefnanna í eina skýrslu. Ábyrgðaraðilar verkefnanna verða beðnir um að senda myndir, myndbönd og annað efni (til dæmis kort og skýringarmyndir) sem nota má í kynningarefni (til dæmis gögn, myndir, vefsíður eða staðreyndablöð) til þess að miðla reynslu og niðurstöðum. Þetta skal senda verkefnastjóra áætlunarinnar.  

Ætlast er til að ábyrgðaraðilar verkefnanna taki þátt í að minnsta kosti einni stafrænni málstofu/fundi til þess að miðla reynslu með öðrum tilraunaverkefnum áætlunarinnar.

Mat á umsóknum

Stýrihópur náttúrulegra lausna á Norðurlöndum mun tryggja breidd verkefnanna, bæði á sviði vistkerfa og landfræðilegrar staðsetningar þeirra. Auk strand-, og hafsvæða og norðlægra slóða er einnig óskað eftir verkefnum sem snerta skóga, landbúnað, votlendi og fjalllendi. Markmiðið er að þetta undirverkefni taki til allra norrænu landanna og nokkurra flokka náttúrulegra lausna og mun forgangsröðunin byggja á þeim grunni. Stýrihópurinn áskilur sér rétt til þess að hafna umsóknum sem ekki eru taldar uppfylla grundvallarviðmið eða ef nauðsyn krefur að velja á milli verkefna til að ná meginmarkmiðinu um breidd verkefna bæði með tilliti til landfræðilegrar legu og vistkerfa. Markmiðið er að koma á fót verkefnum í öllum norrænu löndunum, þar með talið á eyjunum.

Umsækjendur með eigin fjármögnun eða aðra utanaðkomandi fjármögnun hafa forskot á aðra.

Umsóknir

Í umsókninni skal vera útfyllt umsóknareyðublað og skal verkefnalýsing fylgja. Með því að senda inn umsókn samþykkir þú rafræna meðferð Umhvørvisstovunnar og Norrænu ráðherranefndarinna á umsókninni og hugsanlegum persónuupplýsingum.

Umsóknir skal senda til jonao@us.fo í síðasta lagi föstudaginn 17. desember 2021.  

Látið undirritaða útgáfu af umsókninni á PDF-formi fylgja.

Hver getur sótt um?

Yfirvöld sveitarfélaga, svæða og ríkja, háskólar og rannsóknarstofnanir og önnur samtök sem ekki eru rekin í ábataskyni og félagasamtök geta sótt um styrk. Atvinnufyrirtæki geta ekki verið aðalumsækjendur og viðtakendur styrkja en þau geta til dæmis verið þátttakendur í verkefnum, tekið þátt í verkefnahópi eða unnið verkefni á vegum eigenda verkefna.

Hvaða lönd geta tekið þátt?

Tilgangurinn er að fylgja eftir innleiðingu náttúrulegra lausna á Norðurlöndum og markmiðið er að öll norrænu löndin verði þátttakendur í undirverkefninu. Ekki er gerð krafa um samstarf milli landa í einstökum verkefnum.

Styrkir eru aðgengilegur í eftirfarandi löndum: Danmörku, Finnlandi, Færeyjum, Grænlandi, Íslandi, Noregi, Svíþjóð og Álandseyjum.

Hvaða áherslur eru lagðar í meðferð umsókna?

Þegar stýrihópurinn tekur umsókn til meðferðar er lögð mikil áhersla á að verkefnið:

  • Hafi vel útfært skipulag sem er líklegt til þess að koma verkefninu í mark.
  • Tengist umhverfismarkmiðum norrænu landanna.
  • Geti bæði stuðlað að bótum á líffræðilegri fjölbreytni og um leið verið góð fyrir loftslagið eða aðrar samfélagsáskoranir.
  • Stuðli að margbreytileika í verkefnunum bæði varðandi vistkerfi og landfræðilega staðsetningu.

Verkefni til nokkurra ára

Ætlast er til að verkefnin séu unnin á einu, tveimur eða þremur árum á árunum 2022-2024 en vakin er athygli á að aðeins er greitt út fjármagn vegna eins árs í einu. Af fjárhagslegum ástæðum er kostur ef aðalgreiðslan er á árinu 2023. Ef um sérstakar aðstæður er að ræða kemur þó til greina að víkja frá þessu skilyrði og greiða út hærri fjárhæð árið 2022. Meginhugsunin er sú að verkefnin séu unnin frá árinu 2022 til 2023 en hægt er að sækja um framlengingu eða verkefnalok fram til ársins 2024.

Styrkir eru veittir til margs konar verkefna – en ekki allra

Styrki má veita til að koma á fót nýjum verkefnum eða til verkefna sem þegar eru hafin en búa yfir tækifærum til þess að skapa nýja reynslu eða þekkingu. Styrkirnir nema 200.000-900.000 dönskum krónum. Áhersla er lögð á að um frumlega hugsun sé að ræða í viðkomandi samhengi, sem sagt að í hinni frumlegu hugsun felist að eitthvað sem þegar er búið að hugsa eða prófa í einu landi eða vistkerfi sé flutt í nýtt samhengi, til dæmis í öðru landi eða öðru vistkerfi.

Umsóknirnar mega ekki bera þess merki að verið sé að sækja um rannsóknarstyrk. Slíkum umsóknum skal beina til deildar menntunar, rannsókna og vinnumarkaðar hjá Norrænu ráðherranefndinni eða senda beint til norrænu stofnunarinnar NordForsk eða Norrænu nýsköpunarmiðstöðvarinnar.

 

Lesið einnig viðmiðunareglur sem eiga við um stuðning frá samstarfi Norrænu ráðherranefndarinnar um umhverfis- og loftslagsmál: Um styrki frá Norrænu ráðherranefndinni

Og viðmið IUCN vegna náttúrulegra lausna: IUCN Global Standard for NbS | IUCN) IUCN Global Standard for Nature-based Solutions : first edition | IUCN Library System