Norræni menningarsjóðurinn: Verkefnastyrkir, Opstart og Globus

26.07.18 | Fjármögnunarmöguleiki
Norrænu menningarsjóðurinn styður við listir og menningu á Norðurlöndum. Sjóðurinn styrkir fjölbreytileg samstarfsverkefni og tvinnar Norðurlöndin saman svo allir geti séð hinn norræna hluta heimsins frá nýju sjónarhorni.

Norræni menningarsjóðurinn starfar í þágu endurnýjaðs og lifandi menningarstarfs á Norðurlöndum þar sem fjölbreytileiki, aðgengi og gæði eru í fyrirrúmi. Þannig vill sjóðurinn ýta undur þróun norræns lista- og menningarlífs, jafnt heima fyrir sem á heimsvísu.

Allt frá stofnun sjóðsins árið 1966 hafa styrkveitingar verið hans helsta hlutverk. Á undanförnum árum hefur sjóðurinn unnið að því að gera aðgengi að styrkjum skýrara og markvissara. Í dag hefur sjóðurinn úr 36,9 milljónum danskra króna að spila en stærstum hluta fjárins er veitt til menningarverkefna á Norðurlöndum, sem og utan þeirra.

Með verkefnastyrkjum, Opstart og þemabundnum verkefnum ýtir sjóðurinn með alveg nýjum hætti undir samstarf innan lista- og menningarlífsins á Norðurlöndum auk þess að stuðla að auknum fjölbreytileika og fanga nýjustu strauma og stefnur.

Styrkjakerfi

  • Verkefnastyrkir eru veittir þrisvar sinnum á ári til norrænna lista- og menningarverkefna. Umsækjendur þurfa hvorki að vera búsettir á Norðurlöndum né vera norrænir ríkisborgarar en gerð er krafa um gæði verkefnisins og tengingu við Norðurlönd.
  • Opstart styrkir þróun efnilegra hugmynda og upphafsvinnu við ný norræn verkefni sem hafa skýra stefnu um þróun. Hægt er að sækja um allt að 25.000 danskar krónur og svar er veitt innan 20 virkra daga.
  • Globus er nýtt styrkjakerfi hjá Norræna menningarsjóðnum sem ýtt verður úr vör árið 2021. Globus mun beina sjónum sínum að hnattrænu sjónarhorni og tækifærum til að efla hið norræna utan Norðurlanda.