Eru feður lykillinn að sjálfbærni
Hlustið á Think Nordic! hlaðvarp:
Vinsamlegast takið eftir að þetta hlaðvarp er aðeins á ensku.
Jafnrétti kynjanna hefur verið lykillinn að farsæld á Norðurlöndum. Með því að nýta hæfileika kvenna og karla í samfélaginu til fullnustu hafa Norðurlöndin komist að þeirri niðurstöðu að stöðugleiki og sjálfbærni haldast í hendur við jafnrétti, ábyrgð og tækifæri. En meira að segja á Norðurlöndum er enn nokkuð í land.
Í þessum þætti af Think Nordic! hlaðvarpsþáttaröðinni er skoðað með Sharan Burrow, framkvæmdastjóra Alþjóða verkalýðssambandsins (ITUC) og Espen Barth Eide, þingmanni á norska þinginu hvernig Norðurlöndin urðu meðal framsæknustu svæða í heimi á sviði kynjajafnréttis Hlaðvarpsþátturinn er tekinn upp með áheyrendum í norræna skálanum á COP24 í Katowice í Póllandi.
Jafnrétti kynjanna er fjárfesting sem borgar sig
Sænski „latte-pabbinn“ með barn í burðarpoka og vel snyrt skegg hefur orðið táknmynd kynjajafnréttis á Norðurlöndum. Feðraorlof er einn af lyklunum að kynjajafnrétti sem gagnast bæði fjölskyldum og samfélaginu öllu.
„Full vinna er undirstaða nútímasamfélags. Ef við fjárfestum í barnagæslu, heilbrigðisþjónustu og öðrum þáttum sem áður voru hluti af óformlegu hagkerfi sjáum við gríðarlegan ávinning fyrir samfélagið vegna þess að við nýtum hæfileika mun betur,“ segir Sharan Burrow.
Norðurlöndin hafa unnið að kynjajafnrétti á öllum sviðum samfélagsins í meira en fjóra áratugi. Nú er komið í ljós að þessi fjárfesting stuðlar að atvinnuþátttöku, velferð fjölskyldna og hagvexti.
„Í byrjun var andstreymi. Við háðum margar smærri og stærri orustur á Norðurlöndum; rétturinn til þungunarrofs, atvinnuöryggi mæðra o.s.frv. En nú lítum við á jafnrétti og ábyrgð sem undirstöðu samfélags okkar og atvinnurekendur sjá að það er slæmt ef karlar annast ekki börnin sín,“ segir Espen Barth Eide.
Það þarf ekki að valdefla konur, þær eru þegar sterkar
„Við lifum ekki lengur í heimi þar sem karlar geta veitt konum allt,“ segir Sharan Burrow sem fellst ekki á hugmyndina um að valdefla konur þegar grundvallaröryggi og jafnrétti er fyrir hendi. Hún heldur áfram: „Við ættum frekar að ræða um skort á jafnrétti og stuld á tækifærum fyrir fjölskylduna. Þetta er afar ólík nálgun og getur ýtt undir breytingar.
En er hægt að nota norræna líkanið fyrir jafnrétti kynjanna annars staðar í heiminum þar sem menningarleg og samfélagsleg uppbygging er öðruvísi.
„Fyrir 40 árum var staðan á Norðurlöndum sú sama og víða annars staðar í heiminum. Ég kaupi ekki þau rök að menning geti komið í veg fyrir að hægt sé að ná fram jafnrétti kynjanna. Menning getur breyst og það hefur gerst á Norðurlöndum,“ segir Espen Barth Eide og bætir því við að jöfn tækifæri verði áfram að vera áherslumál. „Á Norðurlöndum verða líka að eiga sér stað frekari breytingar.“
Hlustaðu á allt hlaðvarpið til þess að fræðast nánar um norrænu jafnréttisáhrifin, the Nordic gender effect. Þú finnur Think Nordic! hlaðvarpið alls staðar þar sem hægt er að hlusta á hlaðvarp og efst á þessari síðu.