Að ferðast með hund eða kött til Grænlands

En liten hund i Ilulissat
Photographer
Silje Bergum Kinsten/norden.org
Að mörgu er að huga ef fólk vill flytja gæludýr með sér til Grænlands. Hér eru upplýsingar um að hafa með sér hund eða kött.

Innflutningur gæludýra til Grænlands er óheimill nema að fengnu innflutningsleyfi Skrifstofu Grænlands í Kaupmannahöfn. Þegar flytja á inn hund eða kött þarf fyrst að senda umsókn til sveitarfélagsins sem þú hyggst flytja til. Hvert sveitarfélag hefur eigin reglur um hunda og ketti og því þarftu að hafa skriflegt leyfi frá sveitarfélaginu. Flytjir þú á milli sveitarfélaga þarftu að sækja aftur um skriflegt leyfi þess sveitarfélags sem þú hyggst flytja til.

Þegar sveitarfélagið hefur staðfest umsóknina sendirðu staðfestinguna með viðeigandi vottorðum á Skrifstofu Grænlands í Kaupmannahöfn en hún veitir innflutningsleyfið.

Sama ferli á við um heimflutning hundar eða kattar sem dvalist hefur erlendis.

Umsókn þinni skulu fylgja viðeigandi vottorð, sem hægt er að nálgast á heimasíðu dönsku matvælastofnunarinnar (Fødevarestyrelsen).

Ef dýrið þitt fær evrópska gæludýravegabréfið áður en þú flytur til Grænlands auðveldar það þér að fá hundinn eða köttinn með þér aftur til Danmerkur, t.d. í frí.

Reglur um hundahald á Grænlandi

Óheimilt er að flytja inn hunda norður fyrir heimskautsbaug, það er fyrir norðan byggðina Kangaamiut og á Austur-Grænlandi. Ástæðan fyrir banninu eru sleðahundalið sem notuð eru í atvinnuskyni. Þó er hægt að sækja um undanþágu hjá grænlenskum yfirvöldum, Grønlands Selvstyres Veterinær- og Fødevaremyndighed, ef um er að ræða sleðahund, lögregluhund eða aðstoðarhund.

Heimilt er að flytja inn hunda á sunnanverðu Vestur-Grænlandi, það er Nanortalik til Kanaamiut.

Athugið

  • Á stöðum þar sem stunduð er sauðfjárrækt er eingöngu heimilt að flytja inn hundategundirnar Border Collie, Kelpie eða blendinga þeirra.
  • Bannað er að flytja inn bardagahunda og vöðvastælta hunda til Grænlands.

Skjöl

Sendu eftirfarandi skjöl til sveitarfélagsins sem þú flytur til. Þegar sveitarfélagið hefur staðfest umsóknina sendirðu öll skjölin á Skrifstofu Grænlands:

  • Umsóknir
  • Vottorð um bólusetningu gegn hundaæði – hvolpar yngri en 3 mánaða þurfa ekki bólusetningu ef móðirin var bólusett gegn hundaæði þegar hvolparnir fæddust
  • Bólusetningarvottorð
  • Heilbrigðisvottorð og yfirlýsingu eiganda

Ef um tík er að ræða

  • Skrifleg staðfesting þess að tíkin sé geld Hægt er að sækja um undanþágu hjá grænlenskum yfirvöldum, Grønlands Veterinær- og Fødevaremyndighed, ef hundurinn mun dveljast skemur en þrjá mánuði á Grænlandi.

Engar formlegar kröfur eru gerðar til umsóknarinnar. Þér nægir að senda bréf eða tölvuskeyti með viðeigandi vottorðum en þau er hægt að sækja á heimasíðu Fødevarestyrelsen:

Reglur um kattahald á Grænlandi

Sendu eftirfarandi skjöl til sveitarfélagsins sem þú flytur til. Þegar sveitarfélagið hefur staðfest umsóknina sendirðu öll skjölin á Skrifstofu Grænlands í Kaupmannahöfn:

  • Umsóknir
  • Vottorð um bólusetningu gegn hundaæði – kettlingar yngri en þriggja mánaða þurfa ekki bólusetningu ef móðirin var bólusett gegn hundaæði þegar kettlingarnir fæddust.
  • Heilbrigðisvottorð
  • Yfirlýsingu eiganda
  • Skriflega staðfestingu þess að búið sé að gelda köttinn eða taka hann úr sambandi

Engar formlegar kröfur eru gerðar til umsóknarinnar. Þér nægir að senda bréf eða tölvuskeyti með viðeigandi vottorðum en þau er hægt að sækja á heimasíðu Fødevarestyrelsen:

Innflutningur annarra dýra

Vegna innflutnings annarra dýra en katta og hunda skal hafa samband við Fødevarestyrelsen og Skrifstofu Grænlands í Danmörku.

 

Ferðalagið til Grænlands

Hafðu samband við Air Greenland í tæka tíð fyrir brottför til að bóka pláss fyrir gæludýrið. Gefið skal upp um hvaða dýr er að ræða sem og nákvæm mál og þyngd búrsins, að dýrinu meðtöldu. Mundu að hafa innflutningsleyfið frá Skrifstofu Grænlands við höndina fyrir flug. Að öðrum kosti er hætt við að gæludýrinu verði ekki hleypt um borð. Þú verður einnig beðin/n um að fylla út eyðublað Air Greenland fyrir flutning á dýri.

Gjald fyrir flutning á gæludýrum samsvarar gjaldi vegna yfirvigtar, fyrir dýrið að búrinu meðtöldu. Þyngdina er ekki hægt að reikna inn í leyfilega þyngd á farangri.

Nánari reglur um flutninginn er að finna á heimasíðu Air Greenland en þar er einnig að finna eyðublaðið fyrir flutninginn.

Dýralæknar á Grænlandi

Þegar gæludýr er tekið með til Grænlands ber að hafa í huga að ekki eru dýralæknar í öllum bæjum/byggðarlögum. Upplýsingar um dýralækna á Grænlandi má nálgast hjá grænlenskum yfirvöldum, Veterinær- og Fødevaremyndigheden.

Nánari upplýsingar

Spurning til Info Norden

Ef þú ert með spurningu eða ef þú hefur rekist á hindrun í norrænu landi skaltu fylla út eyðublað okkar.

ATH: Ef spurningin þín varðar afgreiðslu tiltekins máls eða umsóknar eða annarra persónulegra mála skaltu hafa samband við viðkomandi yfirvald.

Info Norden er upplýsingaþjónusta Norrænu ráðherranefndarinnar. Við gefum upplýsingar til fólks sem vill flytja, vinna, stunda nám, leita styrkjum eða hefja rekstur í öðru norrænu landi.
Leitaðu að skrifstofu Info Norden hérna