Að flytja frá Finnlandi til annars lands

Muutto Suomesta ulkomaille
Hér er sagt frá þeim ráðstöfunum sem gera þarf í Finnlandi áður en flutt er þaðan til annars lands. Ráðstafanir hverju sinni velta meðal annars á því hvort flutt er til skemmri eða lengri tíma.

Þegar flutt er frá Finnlandi til annars lands er að mörgu að huga. Hér að neðan eru upplýsingar um hvernig á að tilkynna flutninga, breyta skráningu í þjóðskrá, skráningu almannatrygginga, aðild að atvinnuleysissjóði og hvað hafa þarf í huga varðandi búslóð og farangur.

Að tilkynna flutninga í Finnlandi

Sé flutt til skemmri tíma, en þó lengur en til þriggja mánaða, þarf ávallt að tilkynna flutninga til finnsku stofnunarinnar um stafræna væðingu og lýðfræðigögn (Digi- ja väestötietovirasto) og finnsku almannatryggingastofnunarinnar (Kela). Að sjálfsögðu þarf einnig að tilkynna flutninga sem hugsaðir eru til lengri tíma.

Skráning í þjóðskrá í nýju búsetulandi

Samkvæmt Norðurlandasamningnum um almannaskráningu getur hver íbúi á Norðurlöndum aðeins verið skráður í þjóðskrá eins norræns lands í einu. Tilhögun skráningar er ávallt í samræmi við reglur þess lands sem flutt er til.

Í nýja landinu þarf að skrá sig í þjóðskrá ef:

  • dvalið er á Grænlandi lengur en þrjá mánuði
  • dvalið er í Noregi, Danmörku, á Íslandi eða í Færeyjum lengur en sex mánuði
  • dvalið er í Svíþjóð lengur en tólf mánuði

Búir þú samtímis í tveimur mismunandi löndum ber þér að skrá þig í þjóðskrá þess lands sem þú verð mestum tíma í (minnst 183 daga á ári).

Nánari upplýsingar um skráningu í þjóðskrá í norrænu löndunum eru á upplýsingasíðum um skráningu í þjóðskrá í Svíþjóð, Noregi, Danmörku, á Íslandi, í Færeyjum og á Grænlandi.

Almannatryggingar

Sé flutt til annars lands frá Finnlandi á ávallt að tilkynna finnsku almannatryggingastofnuninni (Kela) það sérstaklega. Kela ákvarðar á grundvelli tilkynningar þinnar hvort að þú getur áfram átt aðild að finnskum almannatryggingum meðan á dvöl í öðru landi stendur.

Næst er fjallað um reglur sem snerta mismunandi hópa:

Almannatryggingar launafólks

Farir þú til annars norræns lands vegna vinnu átt þú yfirleitt aðild að almannatryggingum í landinu sem unnið er í, frá og með upphafi vinnutímabils. Ávallt þarf að sækja sérstaklega um aðild að almannatryggingum hjá viðeigandi stofnun.

Ríkisstofnanir almannatrygginga í norrænu löndunum eru Försäkringskassan í Svíþjóð, NAV í Noregi, Tryggingastofnun á Íslandi, Almannaverkið í Færeyjum, og í Danmörku og á Grænlandi eru það félagsmálayfirvöld í hverju sveitarfélagi fyrir sig.

Atvinnuleysissjóður launafólks

Almenna reglan er sú að launafólk á aðild að atvinnuleysissjóði í því landi sem starfað er í. Það þýðir að ekki er hægt að eiga áfram aðild að finnskum atvinnuleysissjóði, hafir þú flutt til annars lands vegna vinnu.

Þegar þú flytur skaltu strax hafa samband við atvinnuleysissjóð í þínum geira í nýja búsetulandinu. Í Svíþjóð og Danmörku þarf að fá aðild að þarlendum atvinnuleysissjóði til að öðlast rétt til atvinnuleysisbóta. Í Noregi, á Íslandi og í Færeyjum eru ekki sérstakir atvinnuleysissjóðir, þess í stað eiga allir rétt á atvinnuleysisbótum sem uppfylla tiltekin skilyrði.

Flytjir þú frá Finnlandi til annars lands vegna atvinnu getur þú líka flutt áunnin réttindi til atvinnuleysisbóta með þér til nýja landsins. Nánari upplýsingar um að flytja rétt til atvinnuleysisbóta frá Finnlandi eru á síðunni Að flytja rétt til atvinnuleysisbóta frá Finnlandi.

Atvinnulaust fólk í atvinnuleit

Atvinnulaust fólk í atvinnuleit getur, að vissum skilyrðum uppfylltum, fengið finnskar atvinnuleysisbætur greiddar til atvinnuleitar í öðru ESB- eða EES-landi. Nánari upplýsingar eru á síðunni Atvinnuleit annars staðar en í Finnlandi á finnskum atvinnuleysisbótum.

Útsendir starfsmenn

Ef finnskur vinnuveitandi sendir starfsfólk til annars norræns lands heldur það rétti sínum til finnskra almannatrygginga meðan á starfstímanum stendur. Sért þú útsendur starfsmaður skaltu hafa samband við finnsku lífeyristryggingamiðstöðina (Eläketurvakeskus).

Ef fjölskyldumeðlimir útsends starfsmanns fylgja honum frá Finnlandi til annars lands þurfa þeir að tilkynna Kela um flutningana. Fjölskyldumeðlimir sem fylgja útsendum starfsmanni og hyggjast dvelja lengur en í eitt ár þurfa að sækja um það innan árs frá brottför að halda rétti sínum til finnskra almannatrygginga. Sótt er um það hjá finnsku almannatryggingastofnuninni (Kela). Nánari upplýsingar um sérstakar reglur varðandi fjölskyldumeðlimi og útsenda starfsmenn eru einnig á vefsvæði Kela.

Námsmenn

Sé flutt frá Finnlandi til námsdvalar í öðru norrænu landi er meginreglan sú að almannatryggingar verði áfram í Finnlandi, en þó þarf að tilkynna Kela um flutningana. Vari dvölin erlendis lengur en í eitt ár þarf námsmaðurinn að sækja um að halda rétti sínum til finnskra almannatrygginga. Ef þú sækir um námsstyrk frá Kela vegna náms erlendis getur þú sótt um áframhaldandi aðild að finnskum almannatryggingum á sama eyðublaði. Flutningar til annars lands hafa ekki áhrif á rétt til námsstyrks; þeir námsmenn sem eiga rétt á námsstyrk frá Finnlandi fá hann áfram greiddan þótt þeir flytji til annars norræns lands.

Stundi námsmaðurinn hins vegar vinnu meðfram náminu flyst hann allajafna undir almannatryggingar þess lands sem unnið er í, að því gefnu að lágmarksskilyrði viðkomandi lands um starfshlutfall séu uppfyllt. Einnig þarf ávallt að tilkynna Kela um vinnu sem innt er af hendi meðan á tímabundinni dvöl í öðru landi stendur. Fræðimenn sem þiggja starfslaun auk hefðbundinna launa frá vinnuveitanda heyra almennt undir almannatryggingar þess lands sem þeir starfa í.

Tímabundin dvöl erlendis

Einstaklingar sem flytja frá Finnlandi til annars lands til tímabundinnar dvalar án atvinnu eiga áfram rétt til finnskra almannatrygginga og geta fengið Evrópska sjúkratryggingakortið frá Kela. Kortið veitir rétt til heilbrigðisþjónustu á Norðurlöndum, í öllum löndum ESB og EES og í Sviss á sömu kjörum og á sama verði og fyrir íbúa landanna. Nánari upplýsingar um Evrópska sjúkratryggingakortið á vefsvæði Kela.

Lífeyrisþegar

Flutningar frá Finnlandi hafa ekki áhrif á finnskar lífeyrisgreiðslur, en geta haft áhrif á rétt til almannatrygginga og heilbrigðisþjónustu og á skattlagningu. Finnskan grunnlífeyri er áfram hægt að greiða, án takmarkana, finnskum lífeyrisþegum sem flytja til annars ESB-eða EES-lands eða lands sem Finnland hefur samið við um almannatryggingar. Til annarra landa er aðeins hægt að greiða grunnlífeyri í eitt ár.

Skattlagning

Ef þú ert í vinnu á meðan þú dvelur erlendis færðu skattkort frá útibúi skattyfirvalda í því sveitarfélagi sem þú flytur í. Námsmenn sem ekki eru í vinnu þurfa ekki skattkort.

Til að geta fengið skattkort þarf að hafa kennitölu í landinu. Sé um tímabundna dvöl að ræða (til dæmis vegna sumarstarfs) færðu tímabundna kennitölu um leið og sótt er um skattkort.

Hafir þú fasta búsetu í Finnlandi skaltu muna að tilkynna þarlendum skattyfirvöldum einnig um tekjur erlendis frá. Finnsk skattyfirvöld veita allar upplýsingar varðandi flutninga og skattframtöl.

Á vefsvæði finnskra skattyfirvalda er einnig mikið af upplýsingum um skattlagningu í Finnlandi. Einnig er hægt að hafa samband við nærliggjandi útibú skattyfirvalda eða hringja í alþjóðlegt þjónustunúmer finnska skattsins vegna skatta einstaklinga, 00358-29-497-024.

Á norrænu skattagáttinni eru líka gagnlegar upplýsingar um skattlagningu í norrænu löndunum á öllum fimm tungumálum norrænu ríkjanna, auk ensku. Á skattagáttinni er fjallað um millilandaflutninga við mismunandi aðstæður og þar má finna upplýsingar ætlaðar námsmönnum, launafólki og lífeyrisþegum, auk þeirra sem eiga eignir í öðru norrænu landi. Á undirsvæðinu „Spurt og svarað“ á skattagáttinni er einnig hægt að senda inn fyrirspurnir til sérfræðinga skattyfirvalda í norrænu löndunum.

Annað sem hafa þarf í huga

Flutt með farangur eða búslóð

Upplýsingar um farangur eða búslóð þegar flutt er til norrænu landanna eru hér fyrir neðan. Þar má einnig finna upplýsingar varðandi ökutæki og gæludýr. Litið er á flutninga til Álandseyja sem flutninga innan Finnlands.

Flytjir þú frá Finnlandi til norræns lands eða sjálfstjórnarsvæðis sem ekki er í Evrópusambandinu (Noregs, Íslands, Færeyja eða Grænlands) þarftu að senda tollinum innflutningstilkynningu vegna farangurs þíns og/eða búslóðar. Frjálst er að flytja með farangur og búslóð milli Evrópusambandslanda og óþarfi að tilkynna tollinum sérstaklega um slíkt.

Ökuskírteini

Finnskt ökuskírteini veitir ökuréttindi alls staðar á Norðurlöndum í þeim ökutækjaflokki sem merktur er á kortið. Sama gildir um íslenskt ökuskírteini.

Gátlisti vegna flutninga

Flytjir þú til Svíþjóðar, Noregs eða Danmerkur gætir þú haft gagn af upplýsingasíðunum hér fyrir neðan.

Spurning til Info Norden

Ef þú ert með spurningu skaltu fylla út eyðublaðið hérna:

ATH: Ef spurningin þín varðar afgreiðslu tiltekins máls eða umsóknar eða annarra persónulegra mála skaltu hafa samband við viðkomandi yfirvald.

Info Norden er upplýsingaþjónusta Norrænu ráðherranefndarinnar. Við gefum upplýsingar til fólks sem vill flytja, vinna, stunda nám, leita styrkjum eða hefja rekstur í öðru norrænu landi.
Leitaðu að skrifstofu Info Norden hérna