Leiðbeiningar: flutt til Noregs

Menn flytter
Photographer
Yadid Levy / Norden.org
Hér er gefið yfirlit yfir það sem hafa þarf í huga þegar flutt er til Noregs frá Íslandi, Danmörku, Finnlandi, Færeyjum, Svíþjóð eða Álandseyjum. Meðal annars er fjallað um tolla, skatta, skráningu í þjóðskrá, félagsleg réttindi, skóla og húsnæði í Noregi.

Atvinnu- og dvalarleyfi

Ef þú ert ríkisborgari annars norræns lands hefur þú rétt til að flytja til Noregs til að búa þar, starfa eða stunda nám. Þú þarft ekki að sækja um dvalarleyfi eða annað álíka.

Ríkisborgurum annarra landa innan ESB/EES er frjálst að ferðast til Noregs og dveljast þar í allt að þrjá mánuði. Ef þú hyggst dveljast í Noregi lengur en í þrjá mánuði þarftu að skrá þig inn í landið.

Þeir sem flytja til Noregs frá landi utan ESB/EES þurfa að sækja um dvalarleyfi. Meginreglan er sú að sótt er um leyfið og það fengið áður en flutt er til Noregs.

Tollar og búslóð

Ef þú hefur búið erlendis samfleytt í eitt ár eða lengur er þér heimilt að flytja inn búslóð þína að mestu leyti án þess að greiða tolla eða gjöld. Um suma innanstokksmuni gildir að þú þarft að fylla út yfirlýsingu um innflutning á búslóð sem þú skilar til tollstjóra.

Bifreiðar og ökuskírteini

Þú getur sótt um tímabundið akstursleyfi fyrir ökutæki með erlendu skráningarnúmeri í allt að fjórtán daga við flutning til eða frá Noregi. Þú þarft að votta flutningana með flutningsvottorði, ráðningarsamningi eða öðrum viðeigandi gögnum.

Þegar flutt er til Noregs með ökutæki sem er skráð erlendis þarf að flytja inn ökutækið og borga tolla og gjöld. Engu máli skiptir hvert ríkisfang þitt er og hvaðan þú flytur. Í sumum löndum er hægt að fá hluta skráningargjalds endurgreitt þegar bifreið er skráð í öðru landi.

Skráning í þjóðskrá, kennitala, D-númer

Ef þú hyggst dveljast í Noregi lengur en í sex mánuði þarftu að tilkynna um flutninginn til Noregs. Þú þarft að panta tíma hjá skattstofu og mæta í eigin persónu í athugun á persónuskilríkjum. Ef þú flytur til Noregs með fjölskyldunni er mikilvægt að allir í fjölskyldunni mæti í eigin persónu á skattstofuna. Þú þarft að taka með þér gögn á borð við persónuskilríki, ráðningarsamning/námssamning eða annað álíka, eftir því sem við á. Við skráningu í þjóðskrá í Noregi færðu norska kennitölu. Í sumum löndum þarftu að tilkynna þjóðskrá um að þú hafir flutt til annars norræns lands.

Min ID og BankID

MinID er persónulegur auðkennislykill að opinberi þjónustu í Noregi. MinID veitir þér til að mynda aðgang að ýmissi þjónustu NAV (almannatrygginga), til að sækja um háskólanám, að sækja um lán og styrki hjá Lånekassen og til að skila skattskýrslunni rafrænt. Þú þarft norska kennitölu eða D-númer til að geta fengið MinID.

BankID eru rafræn persónuskilríki sem veita þér aðgang að opinberri þjónustu á efsta öryggisstigi. BankID færðu hjá viðskiptabankanum þínum.

Breyting á póstfangi

Þú þarft að hafa samband við póstþjónustu landsins sem þú flytur úr til að biðja um endursendingu á pósti á nýja heimilisfangið þegar þú flytur til Noregs.

Húsnæði

Í Noregi eru ýmsar tegundir íbúðarhúsnæðis. Erlendum ríkisborgurum og einstaklingum sem búsettir eru erlendis er heimilt að kaupa eða leigja íbúðarhúsnæði í Noregi. Hins hvílir búsetuskylda á tilteknum gerðum fasteigna.

Félagsleg réttindi og lífeyrir

Landið þar sem þú nýtur félagslegra réttinda hefur áhrif á lífeyri, atvinnuleysisbætur, sjúkradagpeninga, fjölskyldubætur og fæðingarorlofsgreiðslur. Meginreglan er að þú þarft að vera aðili að almannatryggingakerfinu í landinu þar sem þú starfar. Ef þú ert ekki í vinnu er meginreglan sú að þú þarft að vera aðili í landinu þar sem þú býrð. Hins vegar eru mörg sértilfelli til. Ef þú hefur einhverjar spurningar skaltu því hafa samband við yfirvöld í landinu þar sem þú býrð, stafar eða stundar nám.

Ef þú þiggur lífeyri frá öðru norrænu landi þarftu að hafa samband við lífeyrisyfirvöld til að fá upplýsingar um hvaða lífeyrisgreiðslum þú átt rétt á ef þú flytur til Noregs. Auk þess ættir þú að kynna þér reglur um skattlagningu lífeyris bæði í landinu sem þú flytur frá og í Noregi.

Ef þú átt lífeyrissparnað í öðru landi þarftu að hafa samband við lífeyrissjóðinn til að fá nánari upplýsingar um hvað gerist þegar þú flytur til Noregs.

Í Noregi vinnur þú þér inn rétt til lífeyris á meðan þú ert aðili að norska almannatryggingakerfinu.

Skattar

Meginreglan er sú að ef þú starfar í Noregi greiðir þú tekjuskatt í Noregi. Ef þú ert með lögheimili í Noregi getur atvinnurekandi nálgast skattkort þitt rafrænt hjá Skatteetaten. Ef þú ert ekki með lögheimili í Noregi og ekki með norska kennitölu þarftu að sækja um skattkort hjá næstu skattstofu.

Læknar og heilbrigðisþjónusta

Þegar þú hefur flutt lögheimili þitt til Noregs hefurðu rétt á að fá heimilislækni. Ef þú verður veik(ur) eða þarft á læknisaðstoð að halda skaltu leita til heimilislæknisins. Ef þú þarft á bráðri læknisaðstoð að halda utan opnunartíma heimilislæknisins getur þú leitað á læknavakt.

Gæludýr og önnur dýr

Ef þú ætlar að taka gæludýrið þitt með þegar þú flytur til Noregs þarftu að kynna þér reglur um innflutning dýra.

Skólar og leikskólar

Sveitarfélög bera ábyrgð á grunnskólum og leikskólum í Noregi. en framhaldsskólar eru á borði fylkissveitarfélaga. Til að fá upplýsingar um skóla þarftu því að hafa samband við sveitarfélagið og fylkið sem þú flytur til.

Kosningaréttur

Einstaklingar sem flytja til Noregs öðlast kosningarétt í sveitarstjórnarkosningum og fylkisþingkosningum. Aðeins norskir ríkisborgarar hafa kosningarétt þegar kosið er á norska Stórþingið. Rétt til að kjósa á Samaþingið eiga þeir sem eru á kjörskrá Samaþingsins.

Flutt til Svalbarða

Ef þú hyggst flytja eða ferðast til Svalbarða þarftu að kynna þér reglurnar.

Flutt til Noregs frá öðru norrænu ríki

Hér má finna viðeigandi upplýsingar

Spurning til Info Norden

Ef þú ert með spurningu eða ef þú hefur rekist á hindrun í norrænu landi skaltu fylla út eyðublað okkar.

ATH: Ef spurningin þín varðar afgreiðslu tiltekins máls eða umsóknar eða annarra persónulegra mála skaltu hafa samband við viðkomandi yfirvald.

Info Norden er upplýsingaþjónusta Norrænu ráðherranefndarinnar. Við gefum upplýsingar til fólks sem vill flytja, vinna, stunda nám, leita styrkjum eða hefja rekstur í öðru norrænu landi.
Leitaðu að skrifstofu Info Norden hérna