Að starfa samtímis í Finnlandi og öðru landi

Työskentely samanaikaisesti Suomessa ja jossakin toisessa maassa
Hér er sagt frá almannatryggingum, sjúkratryggingum, atvinnuleysistryggingum og skattlagningu þegar starfað er samtímis í tveimur eða fleiri löndum.

Æ algengara er að fólk vinni hlutastörf og sé í lausamennsku og geti þar af leiðandi hafnað í aðstæðum þar sem fylgja þarf reglum mismunandi landa um almannatryggingar, skattlagningu og vinnulöggjöf.

Almannatryggingar og sjúkratryggingar þeirra sem starfa í fleiri en einu landi

Meginreglan er sú að einstaklingur sem starfar í tveimur eða fleiri löndum samtímis heyri undir almannatryggingakerfi búsetulands síns, að því gefnu að hann starfi einnig í því landi. Ef þú býrð og starfar í Finnlandi og starfar þar að auki í öðru landi innan ESB/EES ættir þú því að heyra undir finnska almannatryggingakerfið. 

Sé starfshlutfall þitt í Finnlandi lágt (25% af heildarstarfshlutfalli þínu) átt þú rétt á almannatryggingum í því landi þar sem vinnuveitandi þinn er staðsettur. Þetta er að því gefnu að vinnuveitandinn sé sá sami í Finnlandi og erlendis. Starfir þú fyrir mismunandi vinnuveitendur í Finnlandi og erlendis áttu rétt á almannatryggingum í búsetulandi þínu.

Í aðstæðum eins og þeim sem lýst er hér á undan getur þú sótt um vottorð A1 hjá finnsku lífeyristryggingamiðstöðinni (Eläketurvakeskus) og notað það til að sýna fram á rétt þinn til finnskra almannatrygginga.

Þegar fólk heyrir undir almannatryggingakerfi landsins sem það starfar í er það einnig sjúkratryggt þar. Þótt þetta eigi við um þig áttu samt sem áður rétt á að fá opinbera heilbrigðisþjónustu í Finnlandi á sömu kjörum og fólk sem tryggt er í Finnlandi. Nánari upplýsingar eru á síðunni Réttur til heilbrigðisþjónustu í Finnlandi.

Atvinnuleysistrygging

Verðir þú atvinnulaus eftir að hafa starfað samtímis í fleiri en einu landi getur þú sótt um atvinnuleysisbætur frá því landi sem þú ert almannatryggður í. Nánari upplýsingar eru á síðunni Atvinnuleysisbætur í Finnlandi.

Skattlagning einstaklinga sem starfa í fleiri en einu landi

Meginreglan varðandi skattlagningu er sú að fólk hefur almenna skattskyldu í aðalbúsetulandi sínu. Tekjur eru yfirleitt einnig skattskyldar í starfslandinu, en Norræni tvísköttunarsamningurinn kemur í veg fyrir að sömu tekjur séu skattlagðar tvisvar.

Upplýsingar um skattamál í Finnlandi eru á síðunni Skattar í Finnlandi og á norrænu skattagáttinni (Nordisk eTax).

Löggjöf hvaða lands skal gilda?

Í finnsku vinnulöggjöfinni er kveðið er á um störf sem innt eru af hendi í Finnlandi. Sé um starfssamband milli tveggja eða fleiri landa að ræða er þó hugsanlegt að löggjöf hins landsins gildi. Nánari upplýsingar eru á vefsvæði finnsku vinnuverndarstofnunarinnar.

Spurning til Info Norden

Ef þú ert með spurningu skaltu fylla út eyðublaðið hérna:

ATH: Ef spurningin þín varðar afgreiðslu tiltekins máls eða umsóknar eða annarra persónulegra mála skaltu hafa samband við viðkomandi yfirvald.

Info Norden er upplýsingaþjónusta Norrænu ráðherranefndarinnar. Við gefum upplýsingar til fólks sem vill flytja, vinna, stunda nám, leita styrkjum eða hefja rekstur í öðru norrænu landi.
Leitaðu að skrifstofu Info Norden hérna