Að tilkynna flutninga og skrá sig í þjóðskrá í Finnlandi

Muuton ilmoittaminen ja väestörekisteröinti Suomessa
Hér eru upplýsingar um það að skrá sig í þjóðskrá í Finnlandi og tilkynna flutninga, og um búsetusveitarfélag þegar flutt er til Finnlands. Þær reglur sem hér er greint frá gilda einnig á Álandseyjum.

Samkvæmt Norðurlandasamningnum um almannaskráningu getur hver íbúi á Norðurlöndum aðeins verið skráður í þjóðskrá eins norræns lands í einu. Með samningnum er aftur á móti tryggt að einstaklingar sem flytja milli landanna séu alltaf skráðir einhvers staðar. Í Finnlandi sér Digi- ja väestötietovirasto (stofnunin um stafræna væðingu og lýðfræðigögn) um skráningu í þjóðskrá. Skráning í þjóðskrá á Álandseyjum er á höndum skrifstofu finnska ríkisvaldsins á Álandseyjum.

Borgarar norrænna landa þurfa ekki sérstakt dvalar- eða atvinnuleyfi til að dvelja í Finnlandi.

Að tilkynna flutninga

Flytji einstaklingur fasta búsetu sína til Finnlands frá öðru norrænu landi þarf hann að tilkynna það í þjónustuútibúi stofnunarinnar um stafræna væðingu og lýðfræðigögn (Digi- ja väestötietovirasto) í eigin persónu innan viku frá flutningunum. Sé ætlunin að dvelja í Finnlandi lengur en þrjá mánuði, en þó skemur en 12 mánuði, þarf að tilkynna um tímabundna flutninga. Nánari leiðbeiningar eru hér fyrir neðan.

Athugaðu að ekki er víst að upplýsingar um nýtt heimilisfang nái til allra þeirra aðila sem kunna að senda þér póst. Viljir þú vera viss um að fá póst frá útlöndum á nýtt heimilisfang þitt getur þú pantað tímabundna áframsendingu á pósti eða tilkynnt nýtt heimilisfang þeim aðilum sem senda þér reglulega póst.

Flutt til skemmri tíma

Erlendur ríkisborgari sem hyggst dvelja skemur en þrjá mánuði í Finnlandi þarf ekki að skrá sig inn í landið.

Sé ætlunin að dvelja í Finnlandi lengur en þrjá mánuði, en þó skemur en 12 mánuði, þarf að tilkynna um tímabundna flutninga. Flytjir þú til Finnlands frá öðru Norrænu landi þarftu að tilkynna það í þjónustuútibúi stofnunarinnar um stafræna væðingu og lýðfræðigögn (Digi- ja väestötietovirasto).

Borgarar ESB-/EES-landa, annarra en norrænu landanna, þurfa að skrá sig hjá innflytjendaþjónustunni (Maahanmuuttovirasto) vegna dvalar sem á að vara lengur en þrjá mánuði. Framvísa þarf persónuskilríkjum við skráningu. Borgarar landa utan ESB og EES þurfa að framvísa vegabréfsáritun eða dvalarleyfi.

Dvelji einstaklingur tímabundið í Finnlandi verður hann ekki skráður með fasta búsetu þar og nýtur þá ekki heldur þeirra réttinda sem fylgja fastri búsetu í landinu. Í vissum tilvikum er þó hægt að fá úthlutað tímabundinni kennitölu í slíkum tilvikum, þyki ástæða til, t.d. vegna vinnu í Finnlandi.

Flutt til lengri tíma

Sé ætlunin að dvelja í Finnlandi til frambúðar, eða til 12 mánaða eða lengur, þarf að tilkynna um varanlega flutninga. Tilkynna þarf um flutninga í eigin persónu í þjónustuútibúi stofnunarinnar um stafræna væðingu og lýðfræðigögn (Digi- ja väestötietovirasto). Borgarar norrænna landa þurfa að sanna á sér deili með því að framvísa vegabréfi, öðrum opinberum skilríkjum með mynd þar sem þjóðerni kemur fram, eða öðrum sambærilegum skjölum.

Borgarar ESB-/EES-ríkja utan Norðurlanda þurfa einnig að hafa með sér skráningarvottorð sem hægt er að fá hjá finnsku innflytjendaþjónustunni (Maahanmuuttovirasto). Borgarar ríkja utan ESB/EES þurfa að framvísa gildu dvalarleyfi í Finnlandi. Einnig er hægt að sækja um skráningu inn í landið á grundvelli fjölskyldutengsla.

Þegar persónuupplýsingar umsækjanda hafa verið skráðar í þjóðskrá fær hann finnska kennitölu og búsetusveitarfélag.

Mundu að tilkynning um flutninga merkir ekki að viðkomandi öðlist sjálfkrafa aðild að finnskum almannatryggingum eða bótarétt frá finnsku almannatryggingastofnuninni (Kela). Úrskurðað er um rétt til almannatrygginga og bóta á grundvelli til þess gerðra umsókna.

Búsetusveitarfélag

Allir sem skráðir eru með fasta búsetu í Finnlandi eiga þar sitt búsetusveitarfélag. Skattlagning, framboð á heilbrigðisþjónustu og fleira ræðst meðal annars af búsetusveitarfélagi. Þegar einstaklingur hefur skráð búsetu í sveitarfélagi í Finnlandi getur hann sótt um skattkort og nýtt sér heilbrigðisþjónustu á vegum sveitarfélagsins.

Upplýsingar um langtímaflutninga til Álandseyja og meðfylgjandi réttindi og þjónustu er að finna á síðunni Skráning í þjóðskrá á Álandseyjum.

Búseta í fleiri en einu landi samtímis

Ef einstaklingur býr eða er skráður til heimilis í tveimur norrænum ríkjum samtímis ákveður viðeigandi yfirvald í landinu sem flutt er til (í Finnlandi Digi- ja väestötietovirasto, stofnunin um stafræna væðingu og lýðfræðigögn) hvort viðkomandi skuli skrá búsetu í landinu sem flutt er til.

Almenna reglan er sú að það land sem fólk hefur föst tengsl við, vegna fjölskyldu, fasteigna, vinnu eða annars, er talið búsetuland þess. Skráningaryfirvöld landsins sem flutt er til taka ákvörðun um búsetu einstaklings þegar hann hefur mætt á þarlenda skráningarskrifstofu og skráð sig. 

Nánari upplýsingar

Spurning til Info Norden

Ef þú ert með spurningu skaltu fylla út eyðublaðið hérna:

ATH: Ef spurningin þín varðar afgreiðslu tiltekins máls eða umsóknar eða annarra persónulegra mála skaltu hafa samband við viðkomandi yfirvald.

Info Norden er upplýsingaþjónusta Norrænu ráðherranefndarinnar. Við gefum upplýsingar til fólks sem vill flytja, vinna, stunda nám, leita styrkjum eða hefja rekstur í öðru norrænu landi.
Leitaðu að skrifstofu Info Norden hérna