Að vinna í fleiri löndum samtímis

Nauðsynlegt er að kynna sér vel reglur um almannaskráningu í þeim löndum sem við á þar sem engin ein regla á við um þegar unnið er í fleiri en einu landi. Hafa ber í huga að aðeins er hægt að vera skráður með lögheimili á einum stað. Almenna reglan er sú að þegar starfað er samtímis í tveimur löndum innan Norðurlanda er rétturinn til almannatrygginga bundinn við búsetuland.
Tímabundið starf í öðru norrænu landi hjá íslenskum vinnuveitanda
Launþegi sem sendur er af vinnuveitenda til starfa í öðru norrrænu landi í takmarkaðan tíma á kostnað vinnuveitanda nýtur áfram almannatrygginga í heimalandinu eða landi vinnuveitandans.
Því til sönnunar skal landið sem launþegi er sendur frá gefa út eyðublaðið E-101. Þannig er komist hjá því að greiða tryggingagjöld í landinu þar sem er starfað tímabundið og vinnuveitandinn heldur áfram að greiða tryggingjagjöld atvinnurekanda í heimalandinu.
Námsmaður sem á lögheimili á Íslandi og dvelst erlendis við nám er áfram tryggður meðan á námi stendur ef hann er ekki tryggður í almannatryggingum námslandsins.
Taki námsmaður upp fasta búsetu eða launavinnu í námslandinu ber honum að tilkynna slíkt til Þjóðskrár og fellur hann þá ekki lengur undir íslenska tryggingavernd.
Við flutning
Búseta eða lögheimili á Íslandi leiðir ekki sjálfkrafa til bótarétta úr almanna- og atvinnuleysistryggingasjóði. Engu að síður geta allir öðlast rétt til greiðslna og almanna- og atvinnuleysistrygginga sem búsettir eru á Íslandi séu ákveðin skilyrði uppfyllt.
Við flutning til eða frá Íslandi ber að tilkynna flutninginn til Þjóðskrár. Tryggingastofnun ríkisins (TR) sem sér um almannatryggingar á Íslandi ásamt Sjúkratryggingum Íslands nýtir sér lögheimilisskrá Þjóðskrár til að afla upplýsinga um hvort einstaklingar eru tryggðir á Íslandi.
Við flutning til Íslands ber að senda tilkynningarblað til TR ásamt vottorðum um tryggingatímabil frá þeim erlendu tryggingastofnunum sem við á. Hægt er að nálgast tilkynningarblaðið á heimasíðu TR og finna má frekari upplýsingar á heimasíðu Sjúkratrygginga Íslands.
Skattskylda vegna vinnu í öðru norrænu landi
Einstaklingur með lögheimili á Íslandi er samkvæmt 1. gr. tekjuskattslaga með fulla skattskyldu þar.
Ef farið er til vinnu í öðru norrænu landi fyrir þarlendan aðila á vinnulandið samkvæmt ákvæði í tvísköttunarsamningi milli Norðurlanda þó rétt á að skattleggja þær tekjur sem aflað er þar. Það felur í sér að launþegi þarf yfirleitt að skila inn tveimur framtölum, framtali í vinnulandinu vegna launa sem aflað er þar og framtali á Íslandi þar sem erlendu launin koma fram.
Erlendu tekjurnar eru ekki skattlagðar aftur, en tekið er tillit til þeirra í álagningu og er íslenskur persónuafsláttur hlutfallaður miðað við hlut erlendu teknanna í heildartekjunum.
Nánari upplýsingar má finna á norræna skattavefnum Nordisk eTax.
Ef þú ert með spurningu skaltu fylla út eyðublaðið hérna:
ATH: Ef spurningin þín varðar afgreiðslu tiltekins máls eða umsóknar eða annarra persónulegra mála skaltu hafa samband við viðkomandi yfirvald.