Aðgangur að háskólamenntun á Íslandi

Aðgangur að háskólamenntun á Íslandi
Hér er að finna upplýsingar um aðgang að háskólamenntun á Íslandi.

Þeir sem hyggja á nám í háskóla skulu hafa lokið stúdentsprófi eða jafngildu prófi. Leyfilegt er að ákveða sérstök inntökuskilyrði í háskóla og láta nemendur gangast undir inntökupróf eða stöðupróf. Norrænir ríkisborgarar eiga sama rétt til að sækja um nám og íslenskir ríkisborgarar.

Háskólar á Íslandi

Á Íslandi eru starfandi sjö háskólar ásamt nokkrum háskólasetrum á landsbyggðinni. Þar af eru fimm þeirra ríkisháskólar. Allar nánari upplýsingar um inntökuskilyrði og inntökureglur háskóladeilda ásamt kennslu- og námskrám, umsóknareyðublöðum og upplýsingum um skráningar- og skólagjöld er að finna á vefjum háskólanna.

Skólagjöld

Í einkareknum háskólum eru greidd skólagjöld en í ríkisreknum háskólum er greitt skráningargjald.

Tungumálakunnátta

Meginreglan er sú að nám í íslenskum menntastofnunum fer fram á íslensku. Undantekningar eru þó á þessu bæði í grunn- og framhaldsnámi. Nám í erlendum tungumálum fer þannig að mestu leyti fram á viðkomandi tungumáli og eins eru í boði örfáar námsleiðir á grunnstigi sem kenndar eru alfarið á ensku.

Margir háskólar bjóða upp á einstök námskeið eða heilar námsleiðir á ensku. Flestir háskólar og margar deildir innan þeirra eru einnig með alþjóðafulltrúa sem aðstoðar erlenda nema. Námsefni í flestum fögum er á ensku, hins vegar er námsefni í staðbundnum fögum eins og lögfræði á íslensku. Í vissum fögum er hluti námsefnis á norðurlandatungumálum.

Fjarnám

Boðið er upp á fjarnám í nokkrum háskólanna. Samstarf er við sveitarfélög, háskóla- og þekkingasetur og símenntunar- og fræðslumiðstöðvar víðs vegar um land. Allar nánari upplýsingar er að finna á vefjum námsdeilda sem bjóða upp á fjarnám.

Spurning til Info Norden

Ef þú ert með spurningu skaltu fylla út eyðublaðið hérna:

ATH: Ef spurningin þín varðar afgreiðslu tiltekins máls eða umsóknar eða annarra persónulegra mála skaltu hafa samband við viðkomandi yfirvald.

Info Norden er upplýsingaþjónusta Norrænu ráðherranefndarinnar. Við gefum upplýsingar til fólks sem vill flytja, vinna, stunda nám, leita styrkjum eða hefja rekstur í öðru norrænu landi.
Leitaðu að skrifstofu Info Norden hérna