Aðgangur að háskólamenntun á Íslandi

Þeir sem hyggja á nám í háskóla skulu hafa lokið stúdentsprófi eða jafngildu prófi. Leyfilegt er að ákveða sérstök inntökuskilyrði í háskóla og láta nemendur gangast undir inntökupróf eða stöðupróf. Norrænir ríkisborgarar eiga sama rétt til að sækja um nám og íslenskir ríkisborgarar.
Háskólar á Íslandi
Á Íslandi eru starfandi sjö háskólar ásamt nokkrum háskólasetrum á landsbyggðinni. Þar af eru fimm þeirra ríkisháskólar. Allar nánari upplýsingar um inntökuskilyrði og inntökureglur háskóladeilda ásamt kennslu- og námskrám, umsóknareyðublöðum og upplýsingum um skráningar- og skólagjöld er að finna á vefjum háskólanna.
Skólagjöld
Í einkareknum háskólum eru greidd skólagjöld en í ríkisreknum háskólum er greitt skráningargjald.
Tungumálakunnátta
Meginreglan er sú að nám í íslenskum menntastofnunum fer fram á íslensku. Undantekningar eru þó á þessu bæði í grunn- og framhaldsnámi. Nám í erlendum tungumálum fer þannig að mestu leyti fram á viðkomandi tungumáli og eins eru í boði örfáar námsleiðir á grunnstigi sem kenndar eru alfarið á ensku.
Margir háskólar bjóða upp á einstök námskeið eða heilar námsleiðir á ensku. Flestir háskólar og margar deildir innan þeirra eru einnig með alþjóðafulltrúa sem aðstoðar erlenda nema. Námsefni í flestum fögum er á ensku, hins vegar er námsefni í staðbundnum fögum eins og lögfræði á íslensku. Í vissum fögum er hluti námsefnis á norðurlandatungumálum.
Fjarnám
Boðið er upp á fjarnám í nokkrum háskólanna. Samstarf er við sveitarfélög, háskóla- og þekkingasetur og símenntunar- og fræðslumiðstöðvar víðs vegar um land. Allar nánari upplýsingar er að finna á vefjum námsdeilda sem bjóða upp á fjarnám.
Ef þú ert með spurningu skaltu fylla út eyðublaðið hérna:
ATH: Ef spurningin þín varðar afgreiðslu tiltekins máls eða umsóknar eða annarra persónulegra mála skaltu hafa samband við viðkomandi yfirvald.