Æðri menntun á Grænlandi

Young people in Nuuk
Ljósmyndari
Mads Schmidt Rasmussen / norden.org
Hér er að finna yfirlit yfir þá æðri menntun, eða menntun á háskólastigi, sem stendur til boða á Grænlandi.

Á Grænlandi er hægt að sækja um æðri menntun að loknu stúdentsprófi (GUX). Á Grænlandi er greint á milli þriggja menntaleiða á háskólastigi: stuttrar, meðallangrar og langrar æðri menntunar.

Stutt æðri menntun, 2–3 ár

Hluti þeirra stuttu æðri menntunar sem stendur til boða eru svonefndar „akademiuddannelser“ (AU), sem undirbúa námsmenn til ákveðinna starfa, til dæmis innan verslunar, fjármála, stjórnsýslu, tölvutækni, flutninga/skipulags og þjónustu. Einnig er til leiðsögumannanám með sérstaka áherslu á ferðamennsku á norðurslóðum.

Þær styttri námsleiðir sem í boði eru á Grænlandi eru ýmist kenndar í skóla eða gegnum verknám. Almennt er það inntökuskilyrði að hafa lokið GUX, en hægt er að gera undantekningu frá því sé viðkomandi með tengda starfsreynslu.

Stutt æðri menntun er í boði hjá eftirfarandi stofnunum:

 • Campus Kujalleq í Qaqortoq
 • INUILI, Matvælaskólinn í Narsaq
 • Niuernermik Ilinniarfik, Viðskiptaskóli Grænlands í Nuuk
Meðallöng æðri menntun, 3–4,5 ár

Á Grænlandi er hægt að stunda bakkalárnám (B.A: eða B.Sc.) við ýmsar námsleiðir sem sameina bókleg fræði og verkmiðað nám og þar sem gert er ráð fyrir starfsnámi í námsferlinu. Bakkalárnámsleiðirnar miða að ákveðnum starfsvettvangi, til dæmis sem kennari, hjúkrunarfræðingur, blaðamaður, félagsráðgjafi, túlkur, lyfjatæknir o.fl.

Meðallöng æðri menntun stendur til boða hjá eftirtöldum stofnunum:

 • Ilisimatusarfik, Háskóli Grænlands í Nuuk
 • Niuernermik Ilinniarfik, Viðskiptaskóli Grænlands í Nuuk
 • KTI í Sisimiut
 • Kennaraháskóli félagskennslufræða í Ilulissat
Löng æðri menntun, 5–6 ár

Löng æðri menntun á Grænlandi samanstendur af bakkalár- og meistaranámi hjá Ilisimartusarfik, Háskóla Grænlands í Nuuk. Bakkalárinn (B.A./B.Sc.-próf) er breitt grunnnám í bóklegum fögum og eftir það kjósa margir að halda áfram í meistaranám til þess að sérhæfa sig á sínu sviði.

Bakkalár- og meistaranám er aðeins í boði hjá Ilisimatusarfik, Háskóla Grænlands í Nuuk.

Þar eru B.A./B.Sc.-námsleiðir í:

 • Viðskiptafræði
 • Lögfræði
 • Menningar- og samfélagssögu
 • Samfélagsfræði
 • Tungumálum, bókmenntum & miðlun
 • Guðfræði

Meistaranám er í boði í:

 • Menningar- og samfélagssögu
 • Samfélagsfræði
 • Tungumálum, bókmenntum & miðlun
 • Vestnorrænum fræðum
Doktorsnám á rannsóknasviði

Ilisimatusarfik, Háskóli Grænlands, og náttúrufræðistofnun Grænlands bjóða í sameiningu upp á 3ja ára rannsóknanám sem lýkur með doktorsgráðu. Doktorsnámsstöður eru í boði innan eftirfarandi greina: Raunvísinda, félagsvísinda og hugvísinda.

Norrænir ríkisborgarar sem vilja stunda nám á Grænlandi

Norrænir ríkisborgarar geta stundað nám á Grænlandi til jafns við grænlenska námsmenn. Hægt er að sækja um nám án endurgjalds í grænlenskum menntastofnunum.

Viljir þú taka eina önn í Nuuk býður Ilisimatusarfik, Háskóli Grænlands, upp á námspláss fyrir skiptinema. Í boði eru námskeið á dönsku, grænlensku og ensku. Skiptinemar hvarvetna að úr heiminum geta fengið námspláss en norrænir ríkisborgarar geta sótt um í gegnum Erasmus+ eða Nordplus, sem gefur forgang. Hafið samband við námsráðgjafa í eigin háskóla til þess að fá ráðgjöf.

Grænlenskur námsstyrkur

Ákveðin skilyrði gilda fyrir veitingu námsstyrks á Grænlandi. Viðkomandi á að vera:

 • Danskur ríkisborgari
 • Búsett/ur á Grænlandi
 • Skráð/ur í háskólanám og virk/t/ur í námi

Danskir og færeyskir námsmenn uppfylla kröfurnar ef þeir eru búsettir á Grænlandi og virkir í námi. Uppfylli viðkomandi ekki kröfurnar er mögulegt að sækja um undanþágu, ef hægt er að sýna fram á sérstaka tengingu við Grænland.

Í flestum tilfellum er í staðinn hægt að fá námsstyrk frá eigin heimalandi.

Stúdentagarðar á Grænlandi

Í öllum námsbæjum á Grænlandi eru stúdentagarðar. Stúdentagarðarnir eru undir umsjón hverrar menntastofnunar fyrir sig.

Í Nuuk eru flestir stúdentagarðar undir umsjón sameiginlegrar skrifstofu stúdentagarða (KAF).

Þegar þér býðst námspláss á Grænlandi getur þú fengið leiðsögn í því að sækja um á stúdentagarði hjá skrifstofu þinnar námsstofnunar.

Nánari upplýsingar

Spurning til Info Norden

Ef þú ert með spurningu eða ef þú hefur rekist á hindrun í norrænu landi skaltu fylla út eyðublað okkar.

ATH: Ef spurningin þín varðar afgreiðslu tiltekins máls eða umsóknar eða annarra persónulegra mála skaltu hafa samband við viðkomandi yfirvald.

Info Norden er upplýsingaþjónusta Norrænu ráðherranefndarinnar. Við gefum upplýsingar til fólks sem vill flytja, vinna, stunda nám, leita styrkjum eða hefja rekstur í öðru norrænu landi.
Leitaðu að skrifstofu Info Norden hérna