Almannatryggingar í Finnlandi

Fólk með fasta búsetu í Finnlandi á almennt rétt á ýmiss konar bótum og styrkjum. Í vissum tilvikum getur það einnig átt rétt á atvinnutengdum bótum.

Styrkir og bætur finnska almannatryggingakerfisins greiðast ýmist á grundvelli búsetu eða atvinnu.

Styrkir og bætur á grundvelli búsetu

Umsjón með styrkjum á grundvelli búsetu hefur finnska almannatryggingastofnunin (Kansanleläkelaitos eða Kela). Kela greiðir meðal annars styrki og bætur í eftirfarandi tilvikum:

  • ef börn eru í fjölskyldunni eða barn á leiðinni
  • ef veikindi eða slys verða 
  • ef þú ert lífeyrisþegi (lífeyrir úr almannatryggingasjóði)
  • ef starfsgeta er skert
  • við fráfall maka eða forráðamanns
  • ef þú verður atvinnulaus eða
  • ef þú þarft húsnæðisstyrk.

Styrkir og bætur á grundvelli atvinnu

Íbúar í Finnlandi eru yfirleitt almannatryggðir á grundvelli atvinnu sinnar. Styrkir og bætur vegna atvinnu eru til dæmis starfstengdur lífeyrir, starfsendurhæfing, endurgreiðslur vegna vinnuslysa og atvinnusjúkdóma og tekjutengdar atvinnuleysisbætur, en forsenda fyrir því síðastnefnda er að eiga aðild að atvinnuleysissjóði. Umsjón með starfstengdum lífeyri hefur finnska lífeyristryggingamiðstöðin, Eläketurvakeskus (ETK).

Réttur til styrkja og bóta

Föst búseta eða starf í Finnlandi veitir ekki sjálfkrafa rétt á bótum eða styrkjum á grundvelli húsnæðis eða atvinnu. Slíkar bætur eða styrkir greiðast eingöngu ef öllum öðrum skilyrðum er fullnægt. Greiðsla bóta og styrkja frá Finnlandi til annarra landa er einnig háð vissum skilyrðum.

Þegar flutt er til Finnlands

Hyggist þú flytja til Finnlands til frambúðar má líta svo á að þú hafir þar varanlega búsetu frá og með flutningsdegi.

Tímabundin búseta í Finnlandi veitir að jafnaði ekki rétt til greiðslna úr finnskum almannatryggingum. Í einhverjum tilvikum kanntu þó að eiga rétt á greiðslum vegna atvinnu í landinu þótt búseta þar sé tímabundin.

Starfað í Finnlandi

Flutningar til Finnlands vegna vinnu veita að jafnaði rétt til finnskra almannatrygginga frá upphafi vinnutímabils.

Vinnuveitendum er skylt að sjá launþegum sínum fyrir starfstengdri lífeyristryggingu. Sjálfstætt starfandi einstaklingar og bændur þurfa sjálfir að útvega sér slíka tryggingu. Hún veitir starfstengd lífeyrisréttindi.

Við flutning frá Finnlandi

Hafir þú fasta búsetu í Finnlandi og dveljir í öðru landi skemur en 6 mánuði áttu að jafnaði rétt á bótum og styrkjum Kela á meðan, en sumar bætur er aðeins hægt að fá ef dvölin erlendis er 3 mánuðir að hámarki.  Skylt er að tilkynna Kela um vinnu í öðru ESB-/EES-landi eða Sviss, einnig þótt dvölin sé styttri en 6 mánuðir.

Vissir hópar geta átt rétt á bótum og styrkjum frá Kela þó að dvöl erlendis vari lengur en 6 mánuði. Þessir hópar eru útsendir starfsmenn og námsmenn.

Hafir þú flutt frá Finnlandi en stundir þar áfram vinnu er mögulegt að þú eigir áfram hlutaaðild að almannatryggingakerfinu.

Lisätietoja

Spurning til Info Norden

Ef þú ert með spurningu skaltu fylla út eyðublaðið hérna:

ATH: Ef spurningin þín varðar afgreiðslu tiltekins máls eða umsóknar eða annarra persónulegra mála skaltu hafa samband við viðkomandi yfirvald.

Info Norden er upplýsingaþjónusta Norrænu ráðherranefndarinnar. Við gefum upplýsingar til fólks sem vill flytja, vinna, stunda nám, leita styrkjum eða hefja rekstur í öðru norrænu landi.
Leitaðu að skrifstofu Info Norden hérna