Atvinnuleysissjóðir og stéttarfélög í Finnlandi

Ammattiliitot Suomessa
Hér er sagt frá atvinnuleysissjóðum sem falla undir stuðning við atvinnulausa í Finnlandi, auk stéttarfélaga sem gæta hagsmuna launafólks.

Til að geta fengið atvinnuleysisbætur eftir að hafa orðið atvinnulaus í Finnlandi þarft þú að eiga aðild að atvinnuleysissjóði. Þú getur valið um að fá aðild að atvinnuleysissjóði gegnum stéttarfélag eða að atvinnuleysissjóði sem er óháður stéttarfélögum.

Finnska atvinnuleysisbótakerfið

Í Finnlandi eru atvinnuleysisbætur greiddar samkvæmt tveimur mismunandi kerfum. Verði einstaklingur atvinnulaus getur hann fengið tekjutengdar atvinnuleysisbætur úr sínum atvinnuleysissjóði, að því gefnu að hann greiði í slíkan sjóð. Eigi viðkomandi ekki réttindi í neinum atvinnuleysisjóði á hann rétt á grunnbótum frá finnsku almannatryggingastofnuninni (Kansaneläkelaitos eða Kela).

Nánari upplýsingar um atvinnuleysisbætur og réttindi til þeirra eru á síðunni Atvinnuleysisbætur í Finnlandi.

Atvinnuleysissjóðir

Ef þú vilt eiga rétt á tekjutengdum atvinnuleysisbótum skaltu sækja um aðild að atvinnuleysisjóði. Sótt er um aðild að atvinnuleysissjóði með því að hafa samband beint við sjóðinn. Tengiliðaupplýsingar atvinnuleysissjóða má finna á heimasíðu Sambands finnskra atvinnuleysissjóða.

Þú skalt almennt sækja um aðild að atvinnuleysissjóði í því landi sem þú starfar í, eða í landinu hvers lög gilda um þitt tilvik. Ólíkt mörgum öðrum sambærilegum stofnunum í Finnlandi getur atvinnulaust fólk einnig fengið aðild að atvinnuleysissjóði, að því gefnu að það hafi nýverið flutt til Finnlands frá öðru norrænu landi og sæki um aðild innan tveggja vikna frá flutningi. Þá þarf að senda með umsókninni eyðublað U1 frá fyrri atvinnuleysissjóði, eða því landi sem umsækjandi var áður almannatryggður í, þar sem fyrri tímabil atvinnuleysistryggingar í ESB- og EES-löndum eru skráð. Um leið og umsækjandi óskar eftir þessu eyðublaði lýkur aðild hans að fyrri atvinnuleysissjóði. Nánari upplýsingar veitir atvinnuleysissjóður í þínum geira eða Samband finnskra atvinnuleysissjóða.

Stéttarfélög

Stéttarfélög standa vörð um hagsmuni félagsmanna sinna og eru málsvarar launafólks, t.d. í málum sem varða launakjör og starfsskilyrði.

Langflest stéttarfélög í Finnlandi tilheyra einu af þremur stórum landssamböndum stéttarfélaga í landinu. Þú finnur þitt stéttarfélag gegnum viðeigandi samband stéttarfélaga.

  • SAK, Landssamband finnskra stéttarfélaga (starfsfólk í iðnaði, byggingar- og flutningageira, þjónustustörfum, störfum á velferðarsviði og í opinberum geira)
  • STTK, Landssamband stéttarfélaga fagfólks í Finnlandi (yfirmenn í iðnaði og þjónustustörfum, embættismenn hjá ríki og sveitarfélögum, starfsfólk í heilbrigðisgeira og hjá kirkjulegum söfnuðum)
  • AKAVA, Vinnumarkaðssamband háskólamenntaðra í Finnlandi (kennarar, læknar, hagfræðingar, lögfræðingar, verkfræðingar)
Spurning til Info Norden

Ef þú ert með spurningu skaltu fylla út eyðublaðið hérna:

ATH: Ef spurningin þín varðar afgreiðslu tiltekins máls eða umsóknar eða annarra persónulegra mála skaltu hafa samband við viðkomandi yfirvald.

Info Norden er upplýsingaþjónusta Norrænu ráðherranefndarinnar. Við gefum upplýsingar til fólks sem vill flytja, vinna, stunda nám, leita styrkjum eða hefja rekstur í öðru norrænu landi.
Leitaðu að skrifstofu Info Norden hérna