Barnsmeðlag á Grænlandi

Father and daughter in Nuuk
Photographer
Mads Schmidt Rasmussen / norden.org
Hér geturðu lesið um þær grænlensku reglur sem gilda varðandi það að greiða og þiggja barnsmeðlag.

Foreldrum ber almennt skylda til að sjá börnum sínum farborða að 18 ára aldri. Búi foreldrarnir ekki saman og geti ekki komið sér saman um framfærsluna geta þeir blandað sveitarfélaginu í málið. Sama á við ef meðlagsskylt foreldri getur ekki greitt meðlag.

Hvað er barnsmeðlag?

Barnsmeðlag er mánaðarlegur styrkur til framfærslu barnsins, sem greiddur er því foreldri sem barnið á lögheimili hjá eða dvelur mest hjá. Meðlag er greitt uns barnið nær 18 ára aldri. Í undantekningartilvikum geta greiðslur haldið áfram eftir að 18 ára aldri er náð eða fram að 24 ára aldri, að því gefnu að barnið stundi nám.

Almennt er það svo að foreldrar skulu sjálfir ná samkomulagi um meðlagsupphæðina og greiðslumátann. Greiði hið meðlagsskylda foreldri ekki meðlagið samkvæmt gerðu samkomulagi getur foreldrið sem á rétt á meðlagsgreiðslunum sótt um að sveitarfélagið greiði meðlagið og rukki svo hið meðlagsskylda foreldri um upphæðina. Þetta er nefnt framfærslumeðlag og því er ætlað að tryggja framfærslu barnsins.

Upphæð barnsmeðlags er ákveðin með hliðsjón af tekjum hins meðlagsskylda foreldris. Það getur þó ekki verið lægra en sem nemur tiltekinni lágmarksupphæð. Lágmarksupphæðin er mismunandi eftir því hvort barnið býr á Grænlandi eða í Danmörku.

Barnsmeðlag fyrir þig sem býrð með barninu

Til að geta sótt um að fá framfærslumeðlag á Grænlandi þarf að uppfylla eftirfarandi skilyrði:

  • Barnið verður að vera búsett á Grænlandi
  • Barnið (eða hið meðlagsskylda foreldri) verður að vera danskur ríkisborgari eða heyra undir Norræna sáttmálann um almannatryggingar
  • Barnið má ekki vera á framfærslu hins opinbera
  • Barnið má ekki vera í fóstri með ættleiðingu fyrir augum
  • Foreldrar barnsins mega ekki búa saman
  • Hið meðlagsskylda foreldri hefur ekki greitt meðlagið

Það hvort sækja á um framfærslumeðlag frá sveitarfélagi ræðst af félagslegri stöðu umsækjanda.

Ef foreldrarnir eru fráskildir er meðlag ákvarðað í tengslum við skilnaðinn.

Séu foreldrarnir enn giftir, en skildir að borði og sæng, þarf að fylla út umsóknareyðublað frá Ríkisumboðsmanni. Búir þú í Nuuk skaltu senda eða afhenda Ríkisumboðsmanni útfyllt umsóknareyðublaðið ásamt nauðsynlegum fylgigögnum. Búir þú annars staðar en í Nuuk skaltu koma gögnunum til lögreglunnar.

Hafi foreldrarnir hvorki verið giftir né í sambúð skulu þeir snúa sér til héraðsdómstóls (da. „kredsret“).

Barnsmeðlag vegna sérstakra tilvika

Í sérstökum tilvikum er hægt að sækja um aukaeingreiðslu vegna barns. Það getur verið í tengslum við fæðingu barnsins, skírn, fermingu eða aðra mikilvæga viðburði.

Hvert er hægt að snúa sér með spurningar?

Hafir þú einhverjar spurningar skaltu leita til sveitarfélagsskrifstofu þar sem þú býrð.

Viljir þú kvarta yfir úrskurði í tengslum við framfærslumeðlag skaltu leita til áfrýjunarnefndar félagsmála (Det Sociale Ankenævn).

Spurning til Info Norden

Ef þú ert með spurningu eða ef þú hefur rekist á hindrun í norrænu landi skaltu fylla út eyðublað okkar.

ATH: Ef spurningin þín varðar afgreiðslu tiltekins máls eða umsóknar eða annarra persónulegra mála skaltu hafa samband við viðkomandi yfirvald.

Info Norden er upplýsingaþjónusta Norrænu ráðherranefndarinnar. Við gefum upplýsingar til fólks sem vill flytja, vinna, stunda nám, leita styrkjum eða hefja rekstur í öðru norrænu landi.
Leitaðu að skrifstofu Info Norden hérna