Búseta í Finnlandi

Asuminen Suomessa
Á þessari síðu er fjallað um búsetu í Finnlandi og hvernig finna má húsnæði þar. Mest framboð er af húsnæði til leigu eða kaups. Einnig er sagt frá því hvernig hægt er að kaupa eða leigja lóð og sumarbústað.

Algengustu búsetuform í Finnlandi eru að búa í eigin húsnæði, að búa í húsnæði með búseturétti og að búa í leiguhúsnæði sem ýmist er leigt út af einkaaðilum eða á vegum ríkisins.

Ýmiss konar styrkir og bætur vegna húsnæðis eru í boði í Finnlandi. Þetta getur til dæmis verið beinn húsnæðisstyrkur eða styrkur á formi skattaniðurfellingar. Vert er að kynna sér styrki, bætur og skilyrði fyrir þeim vel og vandlega áður en ákvörðun um búsetu er tekin. Nánari upplýsingar eru á síðunni Húsnæðisstyrkir í Finnlandi. 

Námsfólki standa til boða sérstakar stúdentaíbúðir sem lesa má nánar um á síðunni Stúdentaíbúðir í Finnlandi.

Upplýsingar um algengustu búsetuform á Álandseyjum eru í greininni Búseta á Álandseyjum. 

Sérstakar íbúðir eru í boði fyrir stúdenta á vegum ýmissa stofnana og samtaka. Sagt er frá þeim í greininni Stúdentaíbúðir í Finnlandi.

Ýmiss konar húsnæðisstyrkir og -bætur eru í boði í Finnlandi. Þeir sem heyra undir finnska almannatryggingakerfið geta til dæmis fengið mánaðarlegan húsnæðisstyrk eða styrk á formi skattaniðurfellingar. Vert er að kynna sér styrki, bætur og skilyrði fyrir þeim vel og vandlega áður en tekin er ákvörðun um búsetu. Nánari upplýsingar eru á síðunni Húsnæðisstyrkir í Finnlandi.

Húsnæðisleit

Í dag má finna flestar húsnæðisauglýsingar á netinu. Vinsælustu leitarþjónusturnar eru Oikotie, Vuokraovi.com og Etuovi.com.

Einnig má finna slíkar auglýsingar á síðum dagblaða, á samfélagsmiðlum og tilkynningatöflum. Jafnframt má leita til húsnæðismiðlunarskrifstofu eða óska eftir íbúð með eigin húsnæðisauglýsingu.

Mismunandi búsetuform

Algengustu búsetuform í Finnlandi eru annars vegar leiguhúsnæði og hins vegar eigin húsnæði. Hér er einnig sagt frá búseturétti, sumarbústöðum og öðrum búsetuformum.

Leiguhúsnæði

Í Finnlandi er hægt að leigja húsnæði á almennum markaði eða sækja um leiguhúsnæði á vegum ríkisins, þar sem leiga er niðurgreidd og íbúðum er úthlutað á grundvelli þarfar. Það borgar sig að kynna sér húsnæðisframboð og mismunandi búsetuform vel áður en flutt er til Finnlands. Einkum á höfuðborgarsvæðinu er viðvarandi skortur á leiguhúsnæði.

Framboð á leiguhúsnæði og leiguverð er afar mismunandi eftir landshlutum. Þú getur leitað að leiguhúsnæði á leitarsíðum á netinu. Þær stærstu eru Oikotie og Vuokraovi.com. Þau sem flytja til Finnlands starfs síns vegna ættu að athuga möguleika á að vinnuveitandinn útvegi þeim leiguíbúð.

Leiga í húsnæði á vegum ríkisins er yfirleitt lægri en á almennum markaði. Íbúðir sem leigðar eru út á vegum ríkisins eru ýmist í eigu sveitarfélaga eða íbúðafélaga sem ekki eru rekin í hagnaðarskyni. Sótt er um slíkar íbúðir hjá viðkomandi sveitarfélagi eða íbúðafélagi og þær eru leigðar út á grundvelli húsnæðisþarfar umsækjenda, tekna þeirra og eigna. Nánari upplýsingar eru á vefsvæði finnska umhverfisráðuneytisins.

Bæði námsfólki og ungu fólki á vinnumarkaði bjóðast leiguíbúðir á verði sem reynt er að stilla í hóf. Nánari upplýsingar eru á síðunni Stúdentaíbúðir í Finnlandi og á vefsvæði Húsnæðissambands ungs fólks (Nuorisoasuntoliitto).

Leigjendasamtökin Vuokralaisten keskusliitto standa vörð um réttindi leigutaka og hægt er að leita aðstoðar hjá þeim ef vandamál koma upp.

Búseta í eigin húsnæði

Í Finnlandi búa flestir í eigin húsnæði. Þú getur leitað að fasteignum til sölu á leitarsíðum á netinu. Þær stærstu eru Oikotie og Etuovi.com.

Hægt er að eiga íbúðir í Finnlandi með beinum hætti, eða óbeint gegnum húsnæðissamvinnufélag. Hluthafar í húsnæðissamvinnufélögum greiða mánaðarlegt gjald í hússjóð. Starfsemi húsnæðissamvinnufélaga byggist á lögum um húsnæðissamvinnufélög sem og samþykktum húsfélagsins. Kynntu þér gildandi lög um húsnæðissamvinnufélög á vefsvæði Finlex. 

Í Finnlandi eru húsnæðiskaup yfirleitt fjármögnuð með sparifé og bankaláni. Algengasta fjármögnunarleiðin er að taka húsnæðislán. Lánakjör ráðast af almennu vaxtastigi, fyrirkomulagi afborgana, lánstíma, eigin fjármagni sem lagt er til kaupanna, fyrirkomulagi veða og sambandi lántaka við sinn viðskiptabanka. Athugaðu að ef ætlunin er að kaupa húsnæði í Finnlandi og taka lán í öðru norrænu landi er alla jafna ekki hægt að taka veð í húsnæði í Finnlandi vegna lánsins. Nánari upplýsingar eru á síðunni Bankareikningur í Finnlandi.

Húsnæði með búseturétti

Auk þess að kaupa eða leigja húsnæði er hægt að búa í húsnæði með búseturétti. Til þess að fá búseturéttarhúsnæði með láni eða vaxtabótum frá ríkinu þarf að uppfylla tiltekin skilyrði. Sé húsnæðið fjármagnað með öðrum hætti en aðkomu ríkisins tekur húseigandi ákvörðun um hverjir fá þar inni.

Fyrir húsnæðið er greitt búseturéttargjald í eingreiðslu og mánaðarlegt gjald í viðhaldssjóð. Íbúi í búseturéttaríbúð má ganga um hana á sama hátt og eigin fasteign, en eignast hana þó aldrei að fullu leyti. Þegar flutt er úr búseturéttarhúsnæði er búseturéttargjaldið endurgreitt að teknu tilliti til gengisbreytinga.

Búseturéttaríbúðir sem byggðar eru með styrk frá ríkinu eru í eigu sveitarfélaga, samtaka sem ekki eru rekin í hagnaðarskyni og búseturéttarsamtaka. Húsnæði sem byggt er með fjármagni annars staðar frá getur auk þess verið í eigu annarra félaga eða sjóða. Til að sækja um búseturéttarbúð á vegum ríkisins þarf að hafa samband við húsnæðisskrifstofu sveitarfélagsins og eiganda byggingarinnar sem sækja á um húsnæði í.

Sumarbústaðir

Auk heilsárshúsnæðis í Finnlandi er hægt að festa kaup á sumarbústað í dreifbýli. Flestir slíkir bústaðir eru í Suðvestur-Finnlandi, Pirkanmaa og Suður-Savo. Í flestum sveitarfélögum er fasteignaskattur af sumarbústöðum hærri en af heilsárshúsnæði.

Það að byggja nýjan bústað er ekki endilega besta eða eina leiðin. Einnig er hægt að gera upp gamlan bústað eða taka bústað í góðu ástandi á leigu.

Ef ætlunin er að búa í sumarbústað árið um kring getur þurft að fá sérstakt leyfi, sé svæðisskipulag ekki fyrir hendi eða lóðin ekki merkt til langtímabúsetu samkvæmt skipulagi. Einstaklingar sem ráðgera að flytja inn í sumarbústað til lengri tíma ættu fyrst að hafa samband við byggingareftirlit sveitarfélagsins, sem ráðleggur varðandi leyfisferli og veitir upplýsingar um breytingar sem hugsanlega þarf að gera á húsnæðinu.

Önnur búsetuform

Upplýsingar um önnur búsetuform, svo sem eignarhúsnæði að hluta, húsnæði fyrir sérstaka hópa og fyrir eldra fólk, eru á vefsvæði finnska umhverfisráðuneytisins.

Kaup og leiga á lóðum

Þegar lóð er keypt þarf að huga að svæðisskipulagi og einnig því hvað leyfilegt er að byggja á lóðinni og í hvaða tilgangi. Skoða þarf kort og kynna sér fasteignaskráningu lóðarinnar og þær kvaðir sem fylgja henni til að komast að því hvort veð hvíla á lóðinni, hvort henni fylgja réttindi til sameiginlegra land- og vatnasvæða, hvert yfirborðsflatarmál hennar er og hvar landamörkin liggja. Einnig borgar sig að spyrjast fyrir um það hjá skrifstofu landmælinga hvort vegurinn sem liggur að lóðinni er í einkaeigu. Vegi í einkaeigu má ekki fara um án sérstaks leyfis.

Af framsali lóðar er greiddur sérstakur framsalsskattur sem nemur 4% af kaupverði í fasteignaviðskiptum. Þegar kaupin fara fram fær kaupandi einnig leiðbeiningar um lagalega staðfestingu á eignarrétti og eyðublöð vegna umsóknar um byggingarleyfi.

Ákvörðun um byggingarleyfi er tekin af sveitarfélaginu, meðal annars út frá því hvort svæðið er ætlað til langtímabúsetu eða skemmri dvalar samkvæmt almennu skipulagi.

Einnig er hægt að fá lóðir á leigu. Ýmsir aðilar sjá um leigusamninga vegna lóða, svo sem sveitarfélögin og skógarmálayfirvöld (Metsähallitus).

Nánari upplýsingar

Nánari upplýsingar

Hafðu samband við yfirvöld
Spurning til Info Norden

Ef þú ert með spurningu eða ef þú hefur rekist á hindrun í norrænu landi skaltu fylla út eyðublað okkar.

ATH: Ef spurningin þín varðar afgreiðslu tiltekins máls eða umsóknar eða annarra persónulegra mála skaltu hafa samband við viðkomandi yfirvald.

Info Norden er upplýsingaþjónusta Norrænu ráðherranefndarinnar. Við gefum upplýsingar til fólks sem vill flytja, vinna, stunda nám, leita styrkjum eða hefja rekstur í öðru norrænu landi.
Leitaðu að skrifstofu Info Norden hérna