Einkunnaskalar í Finnlandi

Arvosteluasteikot Suomessa
Hér finnur þú upplýsingar um mismunandi einkunnaskala sem notaðir eru í Finnlandi, samsvörun ólíkra einkunnaskala og mat á fyrri einkunnum ef sótt er um nám í öðru norrænu landi.

Í grunnskólum, menntaskólum, iðnskólum, háskólum og iðnháskólum Finnlands er notast við mismunandi einkunnaskala. Á þessari síðu er sjónum fyrst og fremst beint að því hvernig fyrra nám þitt er metið ef þú sækir um nám á háskólastigi í Finnlandi.

Einkunnagjöf á mismunandi skólastigum

Í finnskum grunnskólum og menntaskólum er notast við skala á bilinu 4–10 en í iðnnámi og háskólum við skala á bilinu 0–5.

Þeir einkunnaskalar sem notaðir eru í Finnlandi eru ekki hlutfallslegir og samsvara því ekki fyllilega hinu evrópska ECTS-einkunnakerfi. Finnskir einkunnaskalar byggjast með öðrum orðum ekki á dreifingu mismunandi einkunna, eins og ECTS-skalinn, heldur byggist einkunn hvers nemanda á persónulegri frammistöðu hans.

Grunnskóli og menntaskóli

Í finnskum grunnskólum og menntaskólum er notast við einkunnaskalann 4–10. Skalinn samanstendur af eftirfarandi einkunnum:

  • 10 og 9, næst því að jafngilda A á ECTS-skalanum (ágætt)
  • 8, næst því að jafngilda B á ECTS-skalanum (mjög gott)
  • 7, næst því að jafngilda C á ECTS-skalanum (gott)
  • 6, næst því að jafngilda D á ECTS-skalanum (fullnægjandi)
  • 5, næst því að jafngilda E á ECTS-skalanum (viðunandi)
  • 4, næst því að jafngilda FX / F á ECTS-skalanum (fall)

Í 1.–3. bekk grunnskóla í Finnlandi má gefa nemendum ýmist skriflegan vitnisburð eða tölulegar einkunnir og er það ákveðið af umsjónaraðila kennslunnar. Í 4.–8. bekk eru tölulegar einkunnir gefnar í lok skólaárs og, í sumum tilvikum, á miðju skólaári. Tölulegar einkunnir eru einnig gefnar við útskrift úr grunnskóla að loknum 9. bekk. Nánari upplýsingar um námsmat í finnskum grunnskólum eru á vefsvæði fræðsluráðs í Finnlandi (Opetushallitus).

Í menntaskóla eru ýmist gefnar tölulegar einkunnir eða frammistöðueinkunnirnar S = staðist (suoritettu) eða H = fallið (hylätty). Vilji nemandi sitja námskeið í annarri menntastofnun og fá árangurinn metin inn í menntaskólanámið eru þær einkunnir yfirfærðar yfir á einkunnaskala menntaskólans. Tafla sem sýnir samsvörun einkunna og nánari upplýsingar um námsmat eru á vefsvæði fræðsluráðs í Finnlandi.

Fyrir stúdentspróf í Finnlandi eru gefnar einkunnirnar L, E, M, C, B, A og I. Þar af tákna L–A að nemandi hafi staðist en I táknar fall. Nánari upplýsingar um einkunnagjöf í Finnlandi eru á vefsvæði stúdentsprófanefndarinnar.

Iðnnám og háskólanám

Í finnskum iðnskólum, iðnháskólum og háskólum er notast við einkunnaskalann 0–5. Skalinn samanstendur af eftirfarandi einkunnum:

  • 5, næst því að jafngilda A á ECTS-skalanum (ágætt)
  • 4, næst því að jafngilda B á ECTS-skalanum (mjög gott)
  • 3, næst því að jafngilda C á ECTS-skalanum (gott)
  • 2, næst því að jafngilda D á ECTS-skalanum (viðunandi)
  • 1, næst því að jafngilda E á ECTS-skalanum (fullnægjandi)
  • 0, næst því að jafngilda FX / F á ECTS-skalanum (fall)

Í iðnnámi er námsmatið tengt atvinnulífinu og byggist einnig á viðmiðum um tiltekna kunnáttu. Einnig er hægt að gefa frammistöðueinkunnir á forminu S = staðist (suoritettu) eða H = fallið (hylätty). Nánari upplýsingar eru á vefsvæði Fræðsluráðs í Finnlandi (Opetushallitus).

Einnig er hægt að notast við staðist/fallið-skala í námi á háskólastigi, hafi það verið ákveðið fyrirfram í kennsluáætlun. Nánari upplýsingar veita nemendaþjónustur háskólanna.

Yfirfærsla einkunna frá öðrum löndum yfir í finnska einkunnakerfið

Ef þú hefur lokið framhaldsskólanámi í öðru landi en Finnlandi og hefur ekki European Baccalaureate-gráðu (EB) eða International Baccalaureate-gráðu (IB) getur þú ekki fengið inngöngu í nám á háskólastigi í Finnlandi út á stúdentsskírteini eitt og sér. Þá er aðeins í boði að þreyta inntökupróf og óþarfi að umreikna fyrri einkunnir. Nánari upplýsingar eru á síðunni Nám á háskólastigi í Finnlandi.

Ef þú hefur European Baccalaureate-gráðu (EB) eða International Baccalaureate-gráðu (IB) getur þú fundið upplýsingar um mat á fyrri námsgráðum á vefnum Yliopistovalinnat.fi vegna umsóknar um háskólanám og á vefnum Yrkeshogskolestudier.fi vegna umsóknar um iðnháskólanám.

Ef þú hefur lokið hluta af námi þínu utan Finnlands og vilt fá það metið inn í finnska námsgráðu skaltu leita til viðkomandi menntastofnunar.

Ætlir þú að sækja um nám á framhaldsskólastigi á grundvelli prófskírteinis frá öðru landi skaltu skoða síðuna Framhaldsskólanám í Finnlandi.

Yfirfærsla finnskra einkunna milli landa

Ef þú sækir um nám í öðru landi á grundvelli náms sem þú laukst í Finnlandi þarft þú ekki sjálf(t)(ur) að sjá um að yfirfæra einkunnir þínar samkvæmt kerfi viðkomandi lands.

Upplýsingar um yfirfærslu einkunna milli landa eru á eftirfarandi síðum:

  • á Antagning.se fyrir Svíþjóð
  • á Samordna opptak fyrir Noreg
  • og Eksamenshåndbogen fyrir Danmörku. Veldu fyrst land úr fellilistanum og veldu síðan orðið „Karakterer“ í gráu línunni fyrir neðan fellilistann.
  • Á Íslandi eru einkunnir frá öðru landi metnar af þeim háskóla sem sótt er um nám í. Nánari upplýsingar um háskólanám eru á síðunni Nám á háskólastigi á Íslandi.

Nánari upplýsingar um háskólanám í norrænu löndunum eru á síðunum hér fyrir neðan.

Nánari upplýsingar

Spurning til Info Norden

Ef þú ert með spurningu eða ef þú hefur rekist á hindrun í norrænu landi skaltu fylla út eyðublað okkar.

ATH: Ef spurningin þín varðar afgreiðslu tiltekins máls eða umsóknar eða annarra persónulegra mála skaltu hafa samband við viðkomandi yfirvald.

Info Norden er upplýsingaþjónusta Norrænu ráðherranefndarinnar. Við gefum upplýsingar til fólks sem vill flytja, vinna, stunda nám, leita styrkjum eða hefja rekstur í öðru norrænu landi.
Leitaðu að skrifstofu Info Norden hérna