Eldra fólk í Finnlandi

Ikäihmisille Suomessa
Hér eru upplýsingar um heimaþjónustu, umönnunarstyrk fyrir aðstandendur, húsnæðisþjónustu og umönnun á stofnun, auk afslátta sem bjóðast öldruðum í Finnlandi.

Einstaklingur sem flytur til Finnlands frá öðru norrænu landi á rétt á eftirfarandi þjónustu, hafi hann skráð fasta búsetu í Finnlandi samkvæmt þjóðskrá. Frekari upplýsingar um skráningu í þjóðskrá eru á síðunni Að tilkynna flutninga og skrá sig í þjóðskrá í Finnlandi.

Á síðum Info Norden eru einnig nánari upplýsingar um lyf og niðurgreiðslu lyfjakostnaðar, veikindi og heilbrigðisþjónustu og lífeyri í Finnlandi.

Heimaþjónusta

Eldra fólk getur fengið heimaþjónustu sem gerir því kleift að búa áfram á eigin heimili. Samkvæmt lögum um félagslega þjónustu í Finnlandi eiga allir 75 ára og eldri rétt á mati varðandi þörf þeirra fyrir slíka þjónustu innan ákveðinna tímamarka. Aðrar reglur gilda þó um bráðatilvik. Nánari upplýsingar eru á vefsvæði finnska sveitarfélagasambandsins (Kuntaliitto).

Eftirtalin þjónusta er í boði:

  • Heimaþjónusta (aðstoð við dagleg störf)
  • Heimahjúkrun (hjúkrun og endurhæfing inni á heimilinu eftir tilvísun frá lækni)
  • Stuðningsþjónusta (til dæmis aðstoð í tengslum við máltíðir, þrif, innkaup, öryggismál og flutninga)

Umönnunarstyrkur

Með umönnunarstyrk er átt við að aðstandandi aldraðs einstaklings sinni heimaþjónustu við hann samkvæmt þjónustusamningi sem gerður er við sveitarfélagið. Nánari upplýsingar um umönnunarstyrk eru á vefsvæði finnska sveitarfélagasambandsins (Kuntaliitto).

Hægt er að fá styrk til þjónustunnar frá félagsþjónustuskrifstofu búsetusveitarfélagsins. Umönnunarstyrkurinn tekur til umönnunarlauna, nauðsynlegrar aðstoðar við þjónustuþegann og stuðnings við umönnunaraðilann. Greiða þarf skatt af umönnunarstyrknum. 

Nánari upplýsingar um umönnunarstyrkinn veitir Samband aðstandenda sem sinna umönnun (Omaishoitajaliitto).

Húsnæðisþjónusta og umönnun á stofnun

Húsnæðisþjónusta er ætluð einstaklingum sem af einhverjum ástæðum þurfa styrk og stuðning til að útvega sér húsnæði. Nánari upplýsingar um húsnæðisþjónustu og umönnun á stofnun eru á vefsvæði finnska sveitarfélagasambandsins (Kuntaliitto).

Búseta með stuðningi og þjónustu

Búseta með stuðningi og þjónustu er í boði fyrir fólk sem þarf á meiri aðstoð að halda en unnt er að veita í venjulegu húsnæði. Einstaklingar sem þurfa mikla aðstoð og eftirlit geta fengið húsnæði með sérstökum stuðningi. Þá býr fólk í eigin herbergi eða íbúð og deilir auk þess sameiginlegum rýmum búsetukjarnans með öðrum íbúum. Í búsetukjörnum með stuðningi er starfsfólk á vakt allan sólarhringinn.

Í búsetu með stuðningi og þjónustu greiða íbúar sjálfir kostnað við heilbrigðisþjónustu, lyf, fatnað, samgöngur og önnur persónuleg útgjöld, auk húsaleigu. Upphæðir eru breytilegar eftir eðli þjónustu og greiðslugetu.

Umönnun á stofnun

Þurfi aldraður einstaklingur á umönnun að halda til lengri tíma getur hann fengið innlögn á legudeild umönnunarstofnunar, gefi heilsufar ástæðu til og teljist það öruggt með tilliti til aðstæðna. Fyrir langtímainnlögn á umönnunarstofnun er innheimt mánaðarlegt umönnunargjald í samræmi við greiðslugetu. Upphæðin er reiknuð með tilliti til upphæðar lífeyris og annarra tekna.

Tímabundin innlögn á umönnunarstofnun getur auðveldað öldruðum að búa áfram heima hjá sér og léttir undir með aðstandendum sem annast viðkomandi. Þannig má fyrirbyggja að fólk þurfi að leggjast varanlega inn á stofnun. Skammtímainnlögn getur átt sér stað með reglulegu millibili á milli þess sem dvalið er heima, eða óreglulega eftir þörfum. Á legudeildum umönnunarstofnana er sjúklingum séð fyrir fæði, lyfjum, fatnaði og öðrum nauðsynjum, auk umönnunar.

Ástandsmat er forsenda fyrir innlögn á legudeild umönnunarstofnunar. Fyrsta skrefið er að hafa samband við heimilislækni. Í sumum sveitarfélögum getur verið bið eftir plássi.

Afslættir og eldriborgarakort

Ýmsir afslættir eru í boði fyrir ellilífeyrisþega, til dæmis af fargjöldum í lestir, rútur og strætisvagna, auk afsláttar í líkamsræktarstöðvar og á menningarviðburði. Afslátturinn fæst gegn framvísun persónuskilríkja eða eldriborgarakorts. 

Nánari upplýsingar

Hafið samband við yfirvöld
Spurning til Info Norden

Ef þú ert með spurningu eða ef þú hefur rekist á hindrun í norrænu landi skaltu fylla út eyðublað okkar.

ATH: Ef spurningin þín varðar afgreiðslu tiltekins máls eða umsóknar eða annarra persónulegra mála skaltu hafa samband við viðkomandi yfirvald.

Info Norden er upplýsingaþjónusta Norrænu ráðherranefndarinnar. Við gefum upplýsingar til fólks sem vill flytja, vinna, stunda nám, leita styrkjum eða hefja rekstur í öðru norrænu landi.
Leitaðu að skrifstofu Info Norden hérna