Færeyska menntakerfið

Det færøske uddannelsessystem
Í Færeyjum eru grunnskólar, bóklegir framhaldsskólar, iðnskólar og ýmisskonar framhaldsnám. Hér er er að finna yfirlit yfir menntakerfið og það nám sem stendur til boða í Færeyjum.

Stjórnsýsla allra skóla og menntastofnana í Færeyjum heyrir undir mennta- og menningarmálaráðuneytið í Færeyjum, (Mentamálaráðið). Kennslutungumálið er færeyska.

Grunnskóli

Börn hefja skólagöngu á því ári sem þau verða sjö ára. Skólaskyldan er níu ár. Börnin læra dönsku frá 3. bekk og ensku frá 5. bekk. Þegar börnin eru komin í 8. bekk eru bæði valgreinar og skyldugreinar á stundatöflunni. Þýska er valgrein frá 8. bekk. Lokapróf er tekið upp úr 9. bekk og má nota það til að sækja um nám í bóklegum framhaldsskólum. Margir nemendur velja að bæta við sig vetri í grunnskóla og ljúka 10. bekk með auknu lokaprófi.

Bóklegir framhaldsskólar

Fimm mismunandi leiðir standa til boða í bóklegu framhaldsskólanámi og samsvara allar leiðum sem standa til boða í Danmörku.

Menntaskóli (studentaskúlin) er þriggja ára nám og lýkur með stúdentsprófi sem veitir aðgang að æðri menntun. Í Færeyjum eru þrír menntaskólar, í Þórshöfn, í Kambsdal á Austurey og á Suðurey. 

Æðra undirbúningspróf (HF) tekur tvö ár og er sérstaklega ætlað fullorðnu fólki sem vill fara í nám. HF-próf veitir, eins og stúdentspróf, aðgang að æðri menntun. Hægt er að taka HF-próf á þremur stöðum í Færeyjum, í Þórshöfn, Kambsdal og Klakksvík.

Verslunarskóli (handilsskúli) er eitt ár í grunnnámi og eftir það getur nemandinn annað hvort haldið áfram námi í skólanum í tvö ár til viðbótar eða fengið nemastöðu í verslun eða á skrifstofu. Haldi nemandinn náminu áfram í skólanum veitir lokaprófið aðgang að æðri menntun.

Tækniskóli (tekniske skúlin) er eitt ár í grunnnámi og eftir það getur nemandinn annað hvort haldið áfram námi í skólanum í tvö ár í viðbót eða farið í meistaranám á vinnustað. Bóklegi hluti meistaranámsins er kenndur í skólanum. Próf að loknum þremur árum í tækniskóla getur veitt aðgang að æðri menntun. Þú getur stundað nám í Tækniskólanum í Þórshöfn og í Tækniskólanum í Klakksvík.

Fiskvinnsluskólinn (Fiskivinnuskúlin) tekur eitt ár og er lokið með prófi. Að því loknu getur nemandinn fengið vinnu við sjávarútveg eða haldið námi áfram við skólann og lokið prófi sem samsvarar öðru bóklegu framhaldsskólanámi.

Iðn- og starfsnámsskólar

Auk fimm leiða í bóklegu framhaldsskólanámi sem hægt er að taka að loknum grunnskóla stendur til boða starfstengdara nám sem hægt er að hefja án þess að hafa áður tekið bóklegt framhaldsskólanám en þá er einhver reynsla af vinnumarkaði nauðsynleg.

Félags- og heilbrigðisskólanum (heilsuskúlin) má ljúka að eftir fyrsta grunnnámsárið eða bæta við sig námi í 20 mánuði í viðbót. Námsleiðirnar eru bæði fræðilegar og hagnýtar. Hagnýti hlutinn er kenndur innan félagsmála- og heilbrigðisstofnana.

Sjómennskunám (sjónám) gerir ekki lokapróf úr grunnskóla að inngönguskilyrði. Skólinn býður nemendum upp á fimm mánaða nám sem undirbýr þá undir störf um borð í fiski- eða kaupskipum. Sjómannaskólanám er fyrir hendi í Klakksvík.

Framhaldsmenntun

Vélvirkjaskólinn og Sjómannaskólinn í Þórshöfn eru undir sömu stjórn og kallast skólinn Vinnuháskúlin. Námsleiðirnar taka þrjú ár. Nánari upplýsingar um aðgangskröfur og námsleiðir má fá á Vinnuháskúlin.

Háskóli Færeyja (Fróðskaparsetur Føroya) er mennta- og rannsóknastofnun. Fróðskaparsetrið er einn minnsti háskólinn í hinum vestræna heimshluta. Hér stendur til boða nám sem hefur sérstakt gildi í færeysku samfélagi og er ekki í boði annars staðar. Í háskólanum eru þrjú fagsvið.   

Á sviði færeyskrar tungu má taka BA-próf í færeyskri tungu og bókmenntum og kandídatspróf í norrænu með áherslu á færeysku.

Á sviði náttúruvísinda er hægt að taka BS-próf í eðlisfræði/jarðeðlisfræði, orkuverkfræði, líffræði, rafmagnsverkfræði og tölvunarfræði.

Á sviði sögu og félagsfræði er hægt að taka bæði BA-próf og kandídatspróf í sögu og sögu siðmenningar. Auk þess er hægt að taka BS-próf í stjórnmálafræði. 

Námsframboðið í háskólanum er örlítið breytilegt frá ári til árs. Spyrjist fyrir á Fróðskaparsetri. 

Hjúkrunarskólinn, kennaraskólinn og leikskóla- og frístundakennarskólinn hafa auk þess starfað undir stjórn Fróðskaparseturs síðan námið þar komst á háskólastig.

Hjúkrunarnámið (sjúkrarøktarfrøðiskúli Føroya) kallast á ensku Bachelor of Science (BSc) in Nursing og veitir nemum fræðilega og hagnýta þekkingu um hjúkrun bæði á sjúkrahúsum og öðrum stofnunum innan heilbrigðiskerfisins. Námið tekur fjögur ár.

Kennaraháskólinn (Føroya Læraraskúli) menntar kennara til að kenna í grunnskólum í Færeyjum og Danmörku. Kennaranámið tekur fjögur ár. Þriðja árinu lýkur með B.Ed.-verkefni en fjórða árið er helgað sérhæfingu.  

Leikskóla- og frístundakennaraskólinn (Føroya Læraraskúli) menntar leikskólakennara og kennara fyrir frístundastarf og aðrar félagsþjónustustofnanir. Námið tekur þrjú ár. Þriðja árinu lýkur með B.Ed.-verkefni en fjórða árið er helgað sérhæfingu.

Aðrir skólar

Lýðháskólinn (fólkaháskulin) býður upp á námskeið sem taka fimm mánuði og taka fyrir mörg mismunandi viðfangsefni að mestu menningartengd. Lýðháskólinn stendur einnig fyrir styttri námsekiðum, eins eða tveggja vikna, þar sem einstök viðfangsefni eru tekin fyrir. Engin próf eru haldin í skólanum. Lýðháskólinn er í Þórshöfn.

Kokkaskólinn (kokkaskúlin) menntar kokka fyrir fiskiskip. Námskeiðin taka fimm mánuði og eiga að veita nemendunum grunnþekkingu á mat og matargerð. Kokkaskólinn er í Klakksvík.

Hússtjórnarskólinn (húsarhaldsskúlin) býður upp á fimm mánaða námskeið. Nemendur öðlast grunnfærni á sviði heimilishalds. Hússtjórnarskólinn er í Klakksvík.

Tónlistarskólinn (musikkskúlin) veitir öllum sem áhuga hafa tækifæri til að læra að spila á hljóðfæri eða syngja í kór. Boðið er upp á nám á byrjendastigi í tónlistarskólum víðsvegar um Færeyjar og í Þórshöfn er einnig boðið upp á tónlistarskólanám á framhaldsskólastigi og er það sambærilegt MGH-menntun í Danmörku (MGH stendur fyrir musisisk grundkursus).

Kvöldskólar (kvøldskúlin) starfa yfir vetrartímann. Hér eiga nemendur þess kost að taka einstök námskeið eftir áhugasviði hvers og eins. Sumum námskeiðum lýkur með prófi. Útlendingar eiga þess kost að læra færeysku í kvöldskólum eða í háskólanum. Kvöldskóla er að finna víðs vegar um Færeyjar.

Samband við yfirvöld
Spurning til Info Norden

Ef þú ert með spurningu skaltu fylla út eyðublaðið hérna:

ATH: Ef spurningin þín varðar afgreiðslu tiltekins máls eða umsóknar eða annarra persónulegra mála skaltu hafa samband við viðkomandi yfirvald.

Info Norden er upplýsingaþjónusta Norrænu ráðherranefndarinnar. Við gefum upplýsingar til fólks sem vill flytja, vinna, stunda nám, leita styrkjum eða hefja rekstur í öðru norrænu landi.
Leitaðu að skrifstofu Info Norden hérna