Námsstyrkur í Finnlandi

Opintotuki Suomessa
Photographer
Mathieu Stern on Unsplash
Á þessari síðu segir frá fjárhagslegum stuðningi við námsfólk í Finnlandi, þ.e. námsstyrk og námsláni auk annars stuðnings við nema. Hér eru einnig upplýsingar um stuðning sem þú getur fengið ef þú veikist eða eignast barn á námstíma.

Tilgangur fjárhagslegs stuðnings við námsfólk er að tryggja framfærslu þess á námstímanum. Að vissum skilyrðum uppfylltum er einnig hægt að fá fjárhagsstuðning námsfólks greiddan frá Finnlandi til annarra landa. Umsjón með fjárhagsstuðningi námsfólks hefur finnska almannatryggingastofnunin (Kansaneläkelaitos eða Kela). Auk almenns fjárhagsstuðnings getur námsfólk átt rétt á annars konar stuðningi, svo sem almennum húsnæðisstyrk auk máltíðastyrks eða skólaferðastyrks.

Ef þú ert fullorðinn námsmaður skaltu kynna þér bætur og styrki fyrir fullorðna námsmenn á síðunni Nám á fullorðinsaldri í Finnlandi.

Ef þú stundar nám á Álandseyjum skaltu kynna þér síðuna Námsstyrkur á Álandseyjum.

Hvað felst í fjárhagslegum stuðningi við námsmenn og hversu mikið er hægt að fá?

Í Finnlandi er hægt að fá fjárhagslegan stuðning til að fjármagna nám. Þessi stuðningur samanstendur af námsstyrk, námsláni með ríkisábyrgð og einnig húsnæðisuppbót í vissum tilvikum.

Námsstyrkur

Upphæð námsstyrks fer eftir aldri þínum, því hvar þú stundar nám, búsetufyrirkomulagi þínu og hjúskaparstöðu og því hvort þú eigir börn. Nánari upplýsingar um námsstyrkinn eru á vefsvæði Kela. Þú getur líka notað reiknivél á vefnum til að finna út hvort þú eigir rétt á fjárhagsstuðningi námsmanna og hversu mikið þú getur fengið.

Námsstyrkurinn telst til skattskyldra tekna. Hafir þú ekki aðrar tekjur en námsstyrkinn þarftu þó ekki að greiða af honum skatt. Nánari upplýsingar eru á vefsvæði Kela.

Námslán

Námslán í Finnlandi eru ríkistryggð lán sem þarf að endurgreiða. Ef almannatryggingastofnun í Finnlandi (Kela) veitir þér ábyrgð fyrir láni þínu þarftu enga aðra tryggingu. Þú semur um vexti námsláns og endurgreiðslutilhögun við bankann þinn.

Nánari upplýsingar eru á vefsvæði Kela.

Húsnæðisbætur

Fólk sem býr á leigumarkaði í Finnlandi getur fengið almennan húsnæðisstyrk. Nánari upplýsingar eru á síðunni Húsnæðisstyrkir í Finnlandi.

Húsnæðisuppbót með námsstyrk er aðeins ætluð þeim sem búa utan Finnlands eða á Álandseyjum í leiguhúsnæði, auk þeirra nema við lýðháskóla, íþróttastofnanir eða menntastofnanir á landsvæði Sama sem þurfa að greiða skólagjöld og búa á heimavist viðkomandi menntastofnunar. Nánari upplýsingar eru á vefsvæði Kela.

Á ég rétt á fjárhagsstuðningi námsfólks í Finnlandi?

Þú getur fengið fjárhagslegan stuðning til náms að loknum grunnskóla. Einnig er hægt að veita fullorðnum fjárhagsstuðning til að ljúka grunnskólanámi. Þú getur fengið fjárhagsstuðning ef þú ert í fullu námi, lýkur tilskildum fjölda eininga á hverri önn og hefur þörf fyrir fjárhagslegan stuðning. Ef þú vinnur meðfram námi þarftu að athuga að tekjur þínar hafa áhrif á þann fjölda mánaða sem þú átt rétt á fjárhagsstuðningi. Nánari upplýsingar eru á vefsvæði Kela.

Skilyrði fyrir veitingu fjárhagsstuðnings eru mismunandi fyrir nám á háskólastigi og nám á framhaldsskólastigi. Þú getur líka fengið fjárhagsstuðning til náms erlendis ef námið samsvarar þeim námsleiðum sem hægt er að fá stuðning til í Finnlandi, eða ef námið verður metið inn í nám sem þú stundar í Finnlandi. Nánari upplýsingar eru á vefsvæði Kela.

Nemar sem koma til Finnlands frá öðrum norrænum löndum fá yfirleitt fjárhagsstuðning frá heimalandi sínu. Ef þú ert ekki finnskur ríkisborgari áttu aðeins rétt á fjárhagsstuðningi námsmanna ef þú hefur fasta búsetu í Finnlandi og dvelur þar af öðrum ástæðum en vegna námsins, til dæmis vegna vinnu, fjölskyldutengsla eða ert að flytja aftur til Finnlands á grundvelli fjölskyldutengsla eða annarra náinna tengsla. Hafir þú fengið inngöngu í finnska menntastofnun áður en þú varst skráð(ur) í þjóðskrá Finnlands, og ef þú hefur ekki aðra ástæðu en námið til að dvelja í Finnlandi, þá getur þú ekki fengið fjárhagslegan námsstuðning frá finnska ríkinu.

Nánari upplýsingar eru á vefsvæði Kela. Ef þú getur ekki fengið fjárhagslegan stuðning í Finnlandi skaltu kynna þér reglurnar í þínu heimalandi.

Hvernig sæki ég um námsstyrk?

Þú getur sótt um fjárhagsstuðning námsmanna þegar skólavist þín er staðfest. Sendu rafræna umsókn á OmaKela eða prentaðu út og sendu Kela útfyllta umsókn ásamt viðhengjum. Nánari upplýsingar eru á vefsvæði Kela.

Í hve langan tíma er hægt að fá fjárhagsstuðning til náms?

Tímamörk námsstuðnings eru mismunandi í háskólanámi og framhaldsskólanámi. Ef þú ert í háskólanámi fara tímamörkin eftir því hversu langt námið er og því hvenær þú byrjaðir fyrst í háskólanámi. Hægt er að fá stuðning til framhaldsskólanáms eins lengi og námið varir, svo lengi sem um fullt nám er að ræða. Nánari upplýsingar eru á vefsvæði Kela.

Sá fjöldi mánaða sem hægt er að fá fjárstuðning veltur líka á því hvar námið er stundað. Hægt er að fá stuðning til háskólanáms í 9 mánuði á skólaári og til menntaskólanáms í 10 mánuði á skólaári. Þeir mánuðir sem hægt er að fá stuðning fyrir eru ágúst/september–maí. Þú getur þó sótt um stuðning til skemmri tíma en það, eða til lengri tíma ef þú stundar námið líka á sumrin. Nánari upplýsingar eru á vefsvæði Kela.

Hvenær eru námslán í Finnlandi endurgreidd?

Endurgreiðsla námslána hefst vanalega um 1,5–2 árum eftir að greiðslu fjárhagsstuðnings í námi hefur verið hætt. Hægt er að hefja endurgreiðsluna fyrr ef þess er óskað.

Lántaki semur um fyrirkomulag endurgreiðslu námsláns við bankann.

Ríkisábyrgð námslána gildir í 30 ár frá upphafi lántöku. Nánari upplýsingar eru á vefsvæði Kela.

Aðrir styrkir fyrir nema

Háskólanemar eiga rétt á máltíðastyrk, nemendaafsláttum, skattaívilnun vegna námslána og vinnulífeyri fyrir gráðu sem lokið er. Framhaldsskólanemar geta fengið styrk vegna ferða í og úr skóla. Nánari upplýsingar eru hér fyrir neðan.

Aðrir styrkir fyrir háskólanema

Háskólanemar fá afslátt af máltíðum í matsölum háskólanna. Nánari upplýsingar eru á vefsvæði Kela.

Upplýsingar um aðra afslætti sem fást gegn framvísun stúdentakorts og ýmsa styrki sem hægt er að fá til náms finnur þú í leiðarvísinum Nám í Finnlandi.

Háskólanemar geta líka fengið skattaívilnun vegna námslána ef námi er lokið á tilsettum tíma. Nánari upplýsingar eru á vefsvæði Kela.

Að auki safna nemendur starfstengdum lífeyri fyrir nám sem lýkur með gráðu. Nánari upplýsingar eru á vefsvæðinu Työeläke.fi.

Aðrir styrkir fyrir framhaldsskólanema

Þú getur einnig fengið styrk fyrir ferðum til og frá framhaldsskóla ef leiðin er 10 kílómetrar eða lengri. Nánari upplýsingar eru á vefsvæði Kela.

Að auki safna nemendur starfstengdum lífeyri fyrir iðnnám á framhaldsskólastigi sem lýkur með gráðu. Nánari upplýsingar eru á vefsvæðinu Työeläke.fi.

Hvað ef ég veikist eða eignast barn?

Ef þú veikist getur þú farið í veikindaleyfi. Ef þú gengur með barn eða eignast barn getur þú átt rétt á fæðingarorlofsgreiðslum og hækkun námsstyrks vegna framfærslu barns. Nánari upplýsingar eru hér fyrir neðan.

Veikindaleyfi á námstíma

Ef þú veikist og getur ekki stundað námið getur þú farið í veikindaleyfi. Þá getur þú fengið sjúkradagpeninga í stað fjárhagslegs námsstuðnings. Þú getur ekki þegið námsstyrk og sjúkradagpeninga á sama tíma og því hættir styrkurinn sjálfkrafa að berast þegar Kela samþykkir að veita þér sjúkradagpeninga. Sjúkradagpeningar sem greiddir eru vinnuveitanda koma þó ekki í veg fyrir að þú fáir námsstyrk greiddan.

Þegar veikindaleyfi þínu lýkur og þú heldur áfram í fullu námi skaltu gera Kela viðvart um það. Þú þarft að sækja um námsstyrkinn upp á nýtt ef greiðslurnar féllu alveg niður meðan á veikindaleyfinu stóð.

Ef þú þiggur sjúkradagpeninga geturðu samt stundað nám upp að vissu marki. Þá geturðu stundað nám sem nemur um 40% af venjubundnu fullu námi. Nánari upplýsingar eru á vefsvæði Kela.

Meðganga og barneignir á námstíma

Ef þú gengur með barn meðan þú ert í námi getur þú fengið meðgöngustyrk. Meðgöngustyrkur er greiddur fyrir 40 virka daga. Þú getur líka fengið fæðingarstyrk, sem er annað hvort pakki með barnadóti eða 170 evrur í peningum.

Ef þú ert í fullu námi geturðu fengið meðgöngustyrk til viðbótar við námsstyrk. Í slíkum tilvikum nemur meðgöngustyrkurinn lágmarksupphæð. Ef þú færð ekki námsstyrk geturðu fengið fulla upphæð meðgöngustyrks.

Ef þú þiggur húsnæðisstyrk og eignast barn gæti borgað sig fyrir þig að athuga forsendurnar fyrir útreikningi styrksins. Húsnæðisstyrkur er veittur á grundvelli heimilishalds og því getur styrkupphæð breyst ef heimilisfólki fjölgar.

Þiggir þú námsstyrk getur þú fengið hærri styrk ef þú ert forsjáraðili barns undir 18 ára. Lögheimili barns eða fjöldi barna hefur eki áhrif á hækkun námsstyrks. Ekki er hægt að sækja um hækkun námsstyrks. Styrkurinn hækkar sjálfkrafa þegar upplýsingar um forsjá barns eru komnar inn í þjóðskrá Finnlands.

Þótt þú þiggir námsstyrk hefur það ekki áhrif á möguleika þína til að þiggja styrk til að vera heima með barn eða styrk vegna dagvistunar hjá einkaaðila.

Nánari upplýsingar um styrki og stuðning vegna meðgöngu og barneigna eru hér fyrir neðan.

Nánari upplýsingar

Spurning til Info Norden

Ef þú ert með spurningu eða ef þú hefur rekist á hindrun í norrænu landi skaltu fylla út eyðublað okkar.

ATH: Ef spurningin þín varðar afgreiðslu tiltekins máls eða umsóknar eða annarra persónulegra mála skaltu hafa samband við viðkomandi yfirvald.

Info Norden er upplýsingaþjónusta Norrænu ráðherranefndarinnar. Við gefum upplýsingar til fólks sem vill flytja, vinna, stunda nám, leita styrkjum eða hefja rekstur í öðru norrænu landi.
Leitaðu að skrifstofu Info Norden hérna