Viðurkenning á starfshæfni og erlendum prófgráðum í Finnlandi

Ulkomailla suoritettujen tutkintojen  ammatillinen tunnustaminen Suomessa
Á þessari síðu er fjallað um þær starfsgreinar í Finnlandi sem krefjast formlegs úrskurðar um starfshæfni eða viðurkenningar á prófgráðum, og um það hvernig óska má eftir slíkum úrskurði. Einnig segir frá sérstökum reglum sem gilda um tilteknar starfsgreinar og dæmi eru gefin um slíkar reglur.

Ef þú vilt starfa í Finnlandi og hefur lokið námi í öðru landi er það yfirleitt vinnuveitandi sem sér um að leggja mat á þá færni og getu sem námið hefur veitt þér. Í tilteknum starfsgreinum þarf þó úrskurð frá hinu opinbera til að viðurkenna starfshæfni eða nám frá öðru landi í Finnlandi. Þetta á við um lögverndaðar starfsgreinar, auk starfa þar sem krafist er tiltekinnar háskólagráðu.

Ef þú hefur vilt vita meira um akademíska viðurkenningu á prófgráðum, þau skilyrði sem þarf að uppfylla til að stunda framhaldsnám í norrænu landi að lokinni grunngráðu frá öðru landi eða það hvernig hægt er að meta nám þitt frá öðru landi inn í nám í Finnlandi, skaltu skoða síðuna Nám á háskólastigi í Finnlandi.

Viðurkenning á erlendum prófgráðum í Finnlandi

Vinnuveitandi leggur yfirleitt mat á það hvaða færni og getu menntun frá öðru landi hefur veitt þér. Í sumum starfsgreinum þarftu þó að fá formlega viðurkenningu á prófgráðu eða starfsréttindum.

Lögverndaðar starfsgreinar í Finnlandi

Með lögverndaðri starfsgrein er átt við að þess sé krafist samkvæmt lögum að fólk hafi lokið tilteknu námi eða námsgráðu eða hafi tiltekin starfsréttindi. Ef þú hefur gráðu í slíkri starfsgrein frá öðru landi og vilt vinna innan greinarinnar í Finnlandi þurfa yfirvöld þar að viðurkenna starfshæfni þína með formlegum úrskurði. Þú finnur lista yfir allar lögverndaðar starfsgreinar í Finnlandi á heimasíðu fræðsluráðs (Opetushallitus).

Ákvörðun um viðurkenningu á starfshæfni er tekin af yfirvaldi á viðkomandi sviði. Nánari upplýsingar um starfsgreinar í Finnlandi og leiðbeiningar um það að sækja um starfsréttindi færðu hjá yfirvaldi á viðkomandi sviði. Nánari upplýsingar eru á þjónustuvefnum Suomi.fi.

Viðurkenning á námsgráðum

Ef þú hyggst sækja um starf sem þarf háskólagráðu til að sinna samkvæmt finnskum lögum skaltu sækja um viðurkenningu á prófgráðu þinni hjá fræðsluráði Finnlands. Yfirleitt er sótt um viðurkenningu á prófgráðu með rafrænu eyðublaði á þjónustuvefnum Opintopolku. Nánari upplýsingar um viðurkenningarferli fyrir prófgráður er á vefsvæði fræðsluráðs í Finnlandi.

Reglur sem gilda um tilteknar starfsgreinar

Í vissum starfsgreinum, einkum í byggingar- og flutningagreinum, gilda sérstakar reglur. Þessar reglur geta tengst kröfum um nám, löggildingu og öryggismál. Vinnustaðaöryggiskortið, hreinlætisvegabréfið og vínveitingavegabréfið eru dæmi um kröfur sem gerðar eru innan tiltekinna starfsgreina í Finnlandi.

Upplýsingasíður Info Norden gefa ekki fullkomna heildarmynd af þeim reglum sem gilda um hinar ýmsu starfsgreinar. Því hvetjum við fyrirtæki, starfsfólk og stofnanir til að hafa samband við Info Norden svo að við fáum sem bestar upplýsingar um reglur og þær hindranir sem þær geta skapað.

Vinnustaðaöryggiskortið

Þarf ég að hafa finnskt vinnustaðaöryggiskort ef ég vil starfa í Finnlandi?

Það er misjafnt eftir fyrirtækjum. Mörg finnsk fyrirtæki, einkum í tæknigeiranum, gera kröfu um að starfsfólk þeirra og undirverktaka þeirra hafi finnskt vinnustaðaöryggiskort.

Þarf ég að sitja námskeið ef ég hef samsvarandi skírteini frá öðru norrænu landi?

Það er misjafnt eftir fyrirtækjum. Samsvarandi námskeið eru í boði annars staðar á Norðurlöndum, en efni námskeiðanna getur verið mismunandi þar sem að löggjöf um vinnustaðaöryggi er ekki eins í öllum löndunum.

Hvað þarf til að ljúka svona námskeiði?

Hægt er að taka námskeiðið á netinu frá heimalandi sínu áður en komið er til Finnlands. Það tekur um átta klukkustundir og kostar yfirleitt u.þ.b. 69–100 evrur.

Get ég setið námskeiðið á móðurmáli mínu?

Námskeiðið er í boði á ýmsum tungumálum, þar með töldum norrænum tungumálum.

Hvar fæ ég nánari upplýsingar?

Kynntu þér málið betur á vefsvæði finnsku miðstöðvarinnar um vinnustaðaöryggi.

Hreinlætisvegabréfið

Fólk sem vinnur í matvælageiranum í Finnlandi þarf að kunna að meðhöndla matvæli á öruggan hátt og svo að hreinlæti sé tryggt. Því þarf fólk að hafa svokallað hreinlætisvegabréf ef það starfar í matvælafyrirtæki og/eða meðhöndlar óinnpökkuð, viðkvæm matvæli í vinnunni. Nánari upplýsingar eru á vefsvæði finnsku matvælastofnunarinnar (Ruokavirasto).

Vínveitingavegabréfið

Þú þarft vínveitingavegabréf ef þú starfar sem ábyrgðaraðili á vínveitingastað. Nánari upplýsingar eru á vefsvæði Valvira, leyfis- og eftirlitsstofnun finnsku félags- og heilbrigðisþjónustunnar.

Störf sem aðeins má skipa finnska ríkisborgara í

Í þriðju grein finnskra laga um embættismenn er kveðið á um þau opinberu störf sem aðeins má skipa finnska ríkisborgara í. Dæmi um slík störf eru lögreglumenn, dómarar og embætti innan finnska varnarliðsins. Nánari upplýsingar eru á vefsvæði Finlex.

Viðurkenning á finnskum prófgráðum erlendis

Við atvinnuleit í öðrum löndum borgar sig að athuga það fyrirfram hvernig viðurkenningarferli náms er þar háttað og hvaða fylgiskjala er krafist. Kynntu þér þetta frekar á síðunni um viðkomandi land.

Þegar sótt er um viðurkenningu á námi í öðru landi má nýta skjöl Evrópska starfsmenntavegabréfsins, sérstaklega þau viðhengi prófskírteina sem ætluð eru til alþjóðlegrar notkunar. Nánari upplýsingar eru á vefsvæði Evrópusambandsins.

Það er alþjóðlegt verklag við viðurkenningu prófgráða að sú stofnun sem tekur á móti námsfólki sér um að meta prófgráðu erlendis frá og þá hæfni sem hún veitir. Yfirvöld í upprunalandi geta ekki haft bein áhrif haft á ákvarðanatöku erlendra yfirvalda í þessum efnum. Þó að vissar almennar reglur finnist í tilskipunum Evrópusambandsins eða alþjóðasamningum heldur hvert land fyrir sig ákvörðunarrétti um framkvæmd reglnanna og hvernig þeim skuli beitt í einstökum tilvikum.

Fræðsluráð Finnlands veitir, gegn gjaldi, faglegan vitnisburð til alþjóðlegrar notkunar um námsgráður frá Finnlandi. Hægt er að veita vitnisburð fyrir nám sem lokið hefur verið í fagi sem fellur undir stjórnsýslusvið fræðslu- og menningarmálaráðuneytisins í Finnlandi. Nánari upplýsingar eru á vefsvæði Fræðsluráðs í Finnlandi (Opetushallitus).

Nánari upplýsingar

Spurning til Info Norden

Ef þú ert með spurningu eða ef þú hefur rekist á hindrun í norrænu landi skaltu fylla út eyðublað okkar.

ATH: Ef spurningin þín varðar afgreiðslu tiltekins máls eða umsóknar eða annarra persónulegra mála skaltu hafa samband við viðkomandi yfirvald.

Info Norden er upplýsingaþjónusta Norrænu ráðherranefndarinnar. Við gefum upplýsingar til fólks sem vill flytja, vinna, stunda nám, leita styrkjum eða hefja rekstur í öðru norrænu landi.
Leitaðu að skrifstofu Info Norden hérna