Fólk sem býr í Finnlandi og sækir vinnu yfir landamæri

Hér er sagt frá ýmsu varðandi skattlagningu og almannatryggingar sem hafa ber í huga þegar íbúar Finnlands sækja vinnu yfir landamæri.

Fólk sem sækir vinnu yfir landamæri

Með vinnu yfir landamæri er átt við það þegar fólk starfar í öðru landi en það býr í og ferðast aftur til búsetulandsins minnst einu sinni í viku. Fólk sem sækir vinnu yfir landamæri heyrir undir almannatryggingar þess lands sem það starfar í, óháð því hvaða land eða svæði er um að ræða.

Dæmi: Maire býr í Oulu í Finnlandi og starfar í Luleå í Svíþjóð.  Hún vinnur í Luleå á virkum dögum og hefur húsnæði þar en ver öllum helgum hjá fjölskyldu sinni í Oulu. Maire sækir vinnu yfir landamæri.

Aðrir sem sækja vinnu yfir landamæri

Margir sækja vinnu yfir landamæri en snúa aftur til heimalands síns sjaldnar en einu sinni í viku. Þeir tilheyra ekki þeim hópi sem hér er til umfjöllunar.

Dæmi: Kalle býr í Rovaniemi í Finnlandi, starfar í Gautaborg í Svíþjóð og ferðast heim til Rovaniemi einu sinni í mánuði.

Almannatryggingar

Ferðast þú reglulega milli norrænna landa? Starfar þú í öðru landi en þú býrð í? Áttu þér fleiri en einn vinnuveitanda í fleiri en einu landi? Ýmis atriði hafa áhrif á það hvar þú átt aðild að almannatryggingum og í hvaða landi þú átt réttindi. Ýmsir þættir hafa áhrif á það hvort þú telst vera launamaður, embættismaður, atvinnulaus í atvinnuleit, fjölskyldumeðlimur einhvers sem sækir vinnu yfir landamæri eða lífeyrisþegi. Finnskar almannatryggingar lúta reglum sem kveðið er á um í tilskipunum Evrópusambandsins um almannatryggingar.

 

Almannatryggingar þeirra sem starfa innan ESB og EES:

Þegar starfað er í ESB- og EES-landi

Ferðist þú milli landa vegna vinnu þinnar sem launþegi eða verktaki eru almannatryggingagjöld aðeins greidd í einu landi. Yfirleitt eru slík gjöld greidd í landinu sem starfað er í. Þú átt rétt á almannatryggingum í starfslandinu ef þú hefur unnið þar í tilskilinn lágmarkstíma og ef launin uppfylla lágmarksskilyrði.

Þú átt rétt á heilbrigðisþjónustu bæði í búsetu- og starfslandinu.

Dæmi: Þú starfar í Finnlandi en býrð í Svíþjóð. Þú ferð heim til Svíþjóðar daglega að vinnudegi loknum eða að minnsta kosti einu sinni í viku. Vinnuveitandi þinn greiðir í almannatryggingasjóð í Finnlandi fyrir þína hönd. Þú átt aðild að finnskum almannatryggingum og nýtur þar réttinda. 

Dæmi: Þú býrð í Finnlandi en starfar í Svíþjóð. Lögbundin almannatryggingagjöld eru greidd til Svíþjóðar. Bætur og annað sem þú átt rétt á er sömuleiðis greitt af Svíþjóð. Hugsanlegt er að þú eigir jafnframt rétt á einhverjum greiðslum frá finnsku almannatryggingastofnuninni. Þar getur til dæmis verið um að ræða endurgreiðslu frá sjúkratryggingum vegna lyfjakaupa, húsnæðisstyrk eða fæðingarstyrk frá finnska ríkinu. Finnska almannatryggingastofnunin getur líka greitt barnabætur og aðrar skyldar greiðslur vegna barna sem búa með þér í Finnlandi.

 

Að vinna í fleiri en einu landi innan ESB/EES

Þótt þú starfir í fleiri löndum greiðir þú aðeins almannatryggingagjöld í einu landi. Yfirleitt er það landið sem þú býrð í. Þá þarft þú að sækja um A1-vottorð, en á því kemur fram í hvaða landi almannatryggingagjöld þín eru greidd. Vottorðið sækir þú um í búsetulandinu. Í Finnlandi hefur finnska lífeyristryggingamiðstöðin (Eläketurvakeskus) umsjón með þessum málum.

Nánari upplýsingar um að starfa í fleiri en einu landi og þar að lútandi reglur finnur þú á vefsvæði finnsku lífeyristryggingamiðstöðvarinnar, sem veitir einnig upplýsingar um almannatryggingagreiðslur í Finnlandi.

Nánari upplýsingar um almannatryggingar starfsfólks á landamærasvæðum með búsetu í Finnlandi eru á vefsvæði finnsku almannatryggingastofnunarinnar. Þar má einnig lesa um almannatryggingar starfsfólks á landamærasvæðum sem starfar í Finnlandi en býr í öðru landi.

Nánari upplýsingar um heilbrigðisþjónustu yfir landamæri eru á upplýsingasíðum um heilbrigðiþjónustu innan ESB.

Skattlagning

Kveðið er á um skattlagningu þeirra sem sækja vinnu yfir landamæri Finnlands, Svíþjóðar og Noregs í Norræna tvísköttunarsamningnum. Viss skilyrði þurfa að vera uppfyllt til að fólk teljist sækja vinnu yfir landamæri í þeim skilningi sem lagður er í hugtakið í norræna tvísköttunarsamningnum.  

Eitt slíkt skilyrði er að viðkomandi búi í sveitarfélagi sem liggur á landamærum Finnlands og Svíþjóðar eða Finnlands og Noregs og starfi í sama sveitarfélagi handan landamæranna, og dvelji á heimili sínu í því sveitarfélagi þar sem hann hefur fasta búsetu minnst einu sinni í viku.

Sveitarfélög á landamærum Finnlands og Svíþjóðar:

 • Enontekiö, Kolari, Muonio, Pello, Tornio, Ylitornio
 • Haparanda, Kiruna, Pajala, Övertorneå

Sveitarfélög á landamærum Finnlands og Noregs:

 • Enontekiö, Inari, Utsjoki
 • Karasjok, Kautokeino, Kåfjord, Nesseby,Nordreisa, Storfjord, Sör-Varanger, Tana

Dæmi: Finnska sveitarfélagið Enontekiö liggur að landamærum Svíþjóðar og Noregs. Þar af leiðandi getur íbúi í Enontekiö sótt vinnu yfir landamæri bæði í Svíþjóð og Noregi. Íbúi í Tornio getur hins vegar aðeins sótt vinnu yfir landamæri til Svíþjóðar.

Að öllum skilyrðum uppfylltum eru laun fólks sem sækir vinnu yfir landamæri aðeins skattskyld í búsetulandinu. Fólk sem sækir vinnu yfir landamæri greiðir starfslandinu aðeins gjöld tengd sjúkra- og lífeyristryggingum. Lagasetning um fólk sem sækir vinnu yfir landamæri nær aðeins til launamála. Fái fólk sem sækir vinnu yfir landamæri aðrar tekjur en hefðbundnar launatekjur eiga lög um vinnu yfir landamæri ekki við.

Búsetusveitarfélag í Finnlandi er það sveitarfélag sem viðkomandi var skráður til heimilis í á síðasta degi síðastliðins árs. Stuðst hefur verið við þá túlkun frá árinu 2017. Áður var sú regla höfð til hliðsjónar við skattlagningu að fólk sem sækti vinnu yfir landamæri væri, að öðrum skilyrðum uppfylltum, fólk sem byggi í landamærasveitarfélagi það starfstímabil sem tilgreint er í lögum um fólk sem sækir vinnu yfir landamæri.

Í Svíþjóð og Noregi ákvarðast búsetusveitarfélag af því hvar viðkomandi var skráður til heimilis þann fyrsta nóvember síðastliðins árs.

Flytji starfsmaður milli landa á miðju ári geta lagaákvæði um fólk sem sækir vinnu yfir landamæri gilt frá flutningsdegi.

Starfsmaðurinn þarf að koma reglulega til dvalar á heimili sínu, minnst tvo daga og eina nótt í hverri viku. Hluti dags nægir.

Í þeim tilvikum sem lögin um fólk sem sækir vinnu yfir landamæri eiga ekki við, eru laun yfirleitt skattlögð bæði í starfslandinu og búsetulandinu. Þá þarf búsetulandið að leggja niður sína kröfu til að fyrirbyggja að tvísköttun eigi sér stað. Tekjurnar frá hinu landinu og þann skatt sem þar hefur verið greiddur þarf að tilgreina á skattframtali.

Fólk sem býr í Finnlandi og sækir vinnu yfir landamæri

Fólk sem býr í Finnlandi og sækir vinnu yfir landamæri hjá erlendum vinnuveitanda þarf sjálft að gæta að því að skattar séu greiddir. Ástæðan er að erlend fyrirtæki hafa almennt ekki sömu skyldum að gegna og innlendir vinnuveitendur í Finnlandi. Skatturinn er greiddur fyrirfram gegnum þjónustuna OmaVero („Minn skattur“). Til að greiða skatt fyrirfram þarf að áætla launaupphæð. Finnsk skattyfirvöld reikna út skattinn sem greiða þarf og senda upplýsingar um endurgreiðslur í pósti. Hægt er að breyta fyrirfram áætluðum skattgreiðslum á miðju ári ef útlit er fyrir að heildartekjur verði hærri eða lægri en talið var.

Fólk sem býr í Finnlandi og sækir vinnu yfir landamæri þarf að telja fram tekjur frá vinnuveitanda í öðru landi á fyrirfram útfylltri skattskýrslu. Tekjurnar eru þá taldar fram sem tekjur erlendis frá á vefsvæði skattsins eða á eyðublaði númer 16 („Statement on foreign income“). Á eyðublaðinu þarf að merkja við eftirfarandi lið: „Income is income earned in Sweden or Norway as a cross-border worker“.

Starfsfólk á landamærasvæði sem býr í Finnlandi og fær laun frá öðru landi má greiða af þeim launum lægri lífeyris- og atvinnuleysistryggingagjöld og dagpeningagjöld sjúkratrygginga en almennt er krafist. Slíkar greiðslur eru færðar inn við lið 3.2 á fyrirfram útfylltu skattframtali, – ”Pakolliset eläke- ja työttömyysvakuutusmaksut” („Skyldubundin lífeyris- og atvinnuleysistryggingagjöld“).

Fólk sem sækir vinnu yfir landamæri til Finnlands en býr í öðru landi

Fólk sem sækir vinnu yfir landamæri til Finnlands en býr í öðru landi þarf að hafa finnskt skattkort. Hafi starfsmaðurinn takmarkaða skattskyldu þarf hann staðgreiðsluskattkort. Fólk með takmarkaða skattskyldu er fólk sem ekki býr í Finnlandi og dvelur þar skemur en í sex mánuði. Á skattkortið eða staðgreiðsluskattkortið er skráð sú skattprósenta sem viðkomandi greiðir Finnlandi í formi sjúkratryggingagreiðslna vegna heilsugæsluþjónustu og sjúkradagpeninga. Skattkort er hægt að panta með því að hringja í alþjóðlegt þjónustunúmeri finnsku skattstofunnar eða mæta í útibú skattstofunnar. Hér eru nánari upplýsingar um hvernig hafa má samband við finnsk skattyfirvöld.

Til minnis fyrir þau sem fengið hafa vinnu í Svíþjóð

Búsetuland – Finnland

 1. Hafðu samband við þitt stéttarfélag og atvinnuleysissjóð og láttu vita af störfum þínum í Svíþjóð.                      
 2. Hafðu samband við skattinn og fáðu svör við því hvað störf þín í Svíþjóð þýða fyrir skattframtalið þitt.
 3. Tilkynntu finnsku almannatryggingastofnuninni (Kela) að þú hafir hafið störf í öðru landi og fáðu svör við því hvað það merkir fyrir almannatryggingar þínar.
 4. Tilkynntu TE-skrifstofunni að þú hafir fengið vinnu.

Starfsland – Svíþjóð

 1. Sæktu um aðild að atvinnuleysissjóði. Upplýsingar um sænska atvinnuleysissjóði eru á heimasíðu sambands sænskra atvinnuleysissjóða („Arbetslöshetskassornas samorganisation“).
 2. Hafðu samband við sænsk skattyfirvöld, Skatteverket, til að fá sænska kennitölu og komast að því hvort laun þín verði skattlögð í Svíþjóð. Hafðu meðferðis starfssamning og opinber persónuskilríki, þ.e. vegabréf eða nafnskírteini vottað af Evrópusambandinu.  
 3. Láttu sænsk almannatryggingayfirvöld (sæ. „Försäkringskassan“) vita að þú hafir hafið störf í Svíþjóð og fáðu svör við því hvað það merkir fyrir þínar almannatryggingar.
 4. Þegar þú hefur fengið sænska kennitölu, annað hvort „personnummer“ eða „samordningsnummer“, getur þú opnað bankareikning til að fá laun greidd.                                              

Til minnis fyrir þau sem fengið hafa vinnu í Noregi

Búsetuland – Finnland                    

 1. Hafðu samband við þitt stéttarfélag og atvinnuleysissjóð og láttu vita af störfum þínum í Noregi.                      
 2. Tilkynntu skattinum að þú hafir fengið vinnu í Noregi.
 3. Gakktu úr skugga um að vinnuveitandi þinn hafi sett þig á opinberu skrána yfir vinnuveitendur og starfsfólk og móttekið skattkort þitt.
 4. Tilkynntu Kela að þú heyrir undir norska almannatryggingakerfið.
 5. Tilkynntu TE-skrifstofunni að þú hafir fengið vinnu í Noregi.     

Starfsland – Noregur

 1. Athugaðu hvort stéttarfélag þitt hafi gert samstarfssamning við norskt stéttarfélag. Athugaðu hvort þú getur fengið að færa aðild þína til Noregs. Athugaðu hvaða skilyrði gilda um aðild að atvinnuleysissjóði þínum ef þú starfar erlendis. Í Noregi eru ekki atvinnuleysissjóðir eins og í sumum öðrum norrænum löndum. Norska vinnumála- og tryggingastofnunin (NAV) sér um að greiða atvinnuleysisdagpeninga.
 2. Sæktu um norskt D-númer, sem er skammtímakennitala, og skattkort frá norska skattinum með yfirskriftinni „Skatt Nord“. Fylltu út sérstakt eyðublað til að sækja um stöðu „Grensegjenger“. Eyðublaðið fæst hjá landamæraþjónustunni á Norðurkollu. Skrifaðu tölvupóst á netfangið riitta.leinonen(AT)storfjord.kommune.no eða bréfpóst til Skatt Nord, PB 6130, N-9293 Tromsö, Norge. Hafðu með þér vegabréf, starfssamning og staðfestingu norskrar þjóðskrár á búsetu þinni. Útibú skattsins í Finnmerkurfylki: Kirkenes, Vadsø, Hammerfest, Alta Útibú skattsins í Tromsfylki: Tromsø, Harstad
 3. Starfsfólk á landamærasvæðum greiðir ávallt 10 prósenta skatt af launum sínum. Í því er innifalin almannatryggingagreiðsla sem nefnist „trygdeavgift“, sem dekkar öll gjöld tengd lífeyrisgreiðslum, sjúkra- og atvinnuleysisdagpeningum og heilbrigðisþjónustu. Hætti launagreiðslur einhverra hluta vegna að berast svo að tekjur þínar verði þess í stað sjúkra- eða atvinnuleysisdagspeningar frá Nav, skaltu biðja Skatt Nord um sérstakt skattkort vegna þessara greiðslna. Útvegir þú þér ekki nýtt skattkort mun NAV halda eftir 50 prósentum af þessum greiðslum í skatt.

Nánari upplýsingar

 • Reglur um skattlagningu fólks sem sækir vinnu yfir landamæri eru skýrðar nánar í leiðbeiningum finnskra skattyfirvalda, „Rajankävijän verotus“ („Taxation of cross-border commuters“).
 • Nánari upplýsingar um skattlagningu í norrænu löndunum eru á vefsvæði Norrænu skattagáttarinnar, Nordisketax.

Landamæraþjónusta á Norðurkollu

 • Veitir upplýsingar um hreyfanleika eftir aðstæðum hverju sinni
 • Gefur viðskiptavinum nauðsynleg tól til að sinna flutningsferli upp á eigin spýtur
 • Hjálpar og leiðbeinir í öllum málum er varða för yfir landamæri
 • Bendir á það sem hafa þarf í huga og beinir þér til viðeigandi yfirvalda
 • Aðstoðar við að leysa úr landamærahindrunum
 • Samhæfir og sameinar yfirvöld og viðskiptavini
Spurning til Info Norden

Ef þú ert með spurningu skaltu fylla út eyðublaðið hérna:

ATH: Ef spurningin þín varðar afgreiðslu tiltekins máls eða umsóknar eða annarra persónulegra mála skaltu hafa samband við viðkomandi yfirvald.

Info Norden er upplýsingaþjónusta Norrænu ráðherranefndarinnar. Við gefum upplýsingar til fólks sem vill flytja, vinna, stunda nám, leita styrkjum eða hefja rekstur í öðru norrænu landi.
Leitaðu að skrifstofu Info Norden hérna