Framhaldsskólanám í Finnlandi

Umsókn um skólavist í menntaskóla eða iðnskóla
Sótt er um menntaskóla eða iðnskóla gegnum sameiginlegt umsóknakerfi á vefsvæðinu Opintopolku, en þar eru einnig nánari upplýsingar um námsframboð og umsóknarferli.
Nám sem hefst að hausti skal sækja um í sameiginlegri umsóknalotu að vori. Einhverjar iðnnámsbrautir hefjast einnig í janúar og um þær er alla jafna sótt á haustin gegnum vefsvæði Opintopolku.fi, en umsóknartími getur þó verið breytilegur eftir námsstofnun og braut.
Hver sem er getur sótt um skólavist í finnskum framhaldsskóla, óháð búsetulandi. Ekki þarf að hafa finnska kennitölu til að geta sótt um.
Hafi umsækjandi lokið grunnskólanámi í öðru landi en Finnlandi þarf hann að sjá til þess að afrit af prófskírteini berist til þeirrar stofnunar sem sótt er um nám við, áður en umsóknartíma lýkur. Hver og ein menntastofnun metur hvort taka eigi inn nemendur sem lokið hafa grunnskóla í öðru landi, þar sem ekki er alltaf um sambærilegt nám að ræða.
Hafi einstaklingur þegar lokið iðnnámi eða einhverju námi á háskólastigi getur hann ekki sótt um iðnnám í sameiginlegri umsóknalotu. Hann getur þó sótt um iðnnám í fullorðinsfræðslu, eða um nám þar sem fyrra nám hans nýtist. Í slíkum tilvikum er sótt um beint til viðkomandi menntastofnunar.
Að sækja um í iðnnám ætlað fullorðnum
Ekki er sótt um iðnnám ætlað fullorðnum í sameiginlegri umsóknalotu, heldur beint til viðkomandi menntastofnunar. Hægt er að senda inn umsóknir árið um kring. Nánari tímasetningar umsókna og inntöku velta á hverri menntastofnun fyrir sig. Nánari upplýsingar um umsóknir í iðnnám ætlað fullorðnum eru á vefsvæðinu Opintopolku.fi.
Ef þú ert með spurningu eða ef þú hefur rekist á hindrun í norrænu landi skaltu fylla út eyðublað okkar.
ATH: Ef spurningin þín varðar afgreiðslu tiltekins máls eða umsóknar eða annarra persónulegra mála skaltu hafa samband við viðkomandi yfirvald.