Grænlenska menntakerfið

Foto: Rastvakt, Qinngorput, Nuuk, Grönland
Ljósmyndari
Mats Bjerde
Hér er er að finna yfirlit yfir grænlenska menntakerfið og það nám sem stendur til boða í landinu.

Á Grænlandi eru grunnskólar, menntaskólar, iðnskólar og ýmiss konar framhaldsnám.

Grunnskóli

Á Grænlandi er  tíu  ára fræðsluskylda. Í því felst að öll börn á aldrinum 6–16 ára eiga að fá kennslu í tíu ár. Þá kennslu veitir grænlenski grunnskólinn öllum börnum án endurgjalds.

Grunnskólanum er skipt í þrjú  stig:

  • Yngsta stig: Þriggja ára stig fyrir yngstu börnin, 1–3. bekk
  • Miðstig: Fjögra ára stig fyrir miðbörnin, 4.–7. bekk
  • Elsta stig: Þriggja ára stig fyrir elstu börnin, 8.–10. bekk

Eftir bæði yngsta stig og miðstig fara öll börn í próf til að ganga úr skugga um að þau hafi lært það sem þau eiga að hafa lært, og til þess að kennarinn geti aðlagað kennsluna. Við lok elsta stigsins eru lokapróf og stöðumat. Að þeim loknum fær nemandinn útskriftarskírteini.

Einnig er hægt að klára 10. bekk í heimavistarskóla, annað hvort á Grænlandi eða í Danmörku.

Menntaskólanám – GUX

Á Grænlandi stendur til boða bóklega menntaskólanámið GUX í Aasiaat, Sisimiut, Nuuk og Qaqortoq. Stúdentspróf er hægt að taka á 2, 3 eða 4 árum.

Einnig býður menntaskólinn í Sisimiut upp á eins árs viðbótarnám til stúdentsprófs þar sem hægt er að bæta einkunnir stúdentsprófsins eða bæta við sig hærra stigi gerist þess þörf, til dæmis til að uppfylla aðgangskröfur hjá æðri menntastofnun.

Iðnnám – EUD

Iðnnám er nám sem fer bæði fram bóklega og í verknámi. Iðnnámsleiðir eru mislangar, en yfirleitt eitt til fimm ár. Sumar iðnnámsleiðir eru aðeins kenndar á Grænlandi, en í öðrum er gert ráð fyrir námstímabilum í Danmörku. Til þess að byrja í iðnnámi þarf að hefja nám í iðnskóla og finna starfsþjálfunarstöðu.

Æðri menntun

Æðri menntun er samheiti yfir námsleiðir sem hægt er að sækja um að loknu framhaldsnámi á borð við GUX. Á Grænlandi er greint á milli þriggja æðri menntaleiða: stuttrar, meðallangrar og langrar æðri menntunar.

Stutt æðri menntun, 2–3 ár

Flestar af hinum styttri æðri námsleiðum á Grænlandi eru námsleiðir til svonefndar AP-gráðu („Academy Profession degree“ á ensku, „akademiuddannelser (AU)“ á dönsku). Námsferlið er yfirleitt 2–3 ár og námið miðar að ákveðnum starfsvettvangi. Í þessum styttri námsleiðum fer námið fram bæði í skóla og verknámi.

Meðallöng æðri menntun, 3–4,5 ár

Sú meðallanga æðri menntun sem stendur til boða á Grænlandi er metin sem bakkalárnám („bachelor“). Þessar námsleiðir sameina bókleg fræði og verkmiðað nám og gera ráð fyrir verknámi í námsferlinu. Bakklárnámsleiðirnar miða að ákveðnum starfsgreinum, til dæmis kennslu, hjúkrunarfræði, blaðamennsku o.s.frv. Ýmsar menntastofnanir á Grænlandi bjóða upp á bakkalárnám í ákveðinni starfsgrein.

Löng æðri menntun, 5–6 ár

Bakkalárnám er almennt bóklegt nám í háskóla og margir velja að fara einnig í meistaranám í framhaldi af því. Meistaranám er bóklegt og nemendur sérhæfa sig innan ákveðins sviðs á grundvelli bakkalárnámsins. Bakkalárnám stendur til boða víðsvegar um Grænland en meistaranám er aðeins í boði hjá Ilisimatusarfik, Háskóla Grænlands í Nuuk.

Doktorsnám á rannsóknasviði

Ilisimatusarfik, Háskóli Grænlands, býður upp á þriggja ára rannsóknarnám sem lýkur með doktorsgráðu. Doktorsnemastöður eru auglýstar reglulega og geta nemendur þá sótt um.

Lýðháskóladvöl á Grænlandi

Á Grænlandi eru tveir viðurkenndir lýðháskólar sem taka inn nemendur sem vilja kynna sér betur sitt áhugasvið: Knud Rasmussen-lýðháskólinn í Sisimiut og Sulisartut-lýðháskólinn í Qaqortoq.

Norrænir ríkisborgarar sem vilja stunda nám í Grænlandi

Norrænir ríkisborgarar geta stundað nám á Grænlandi til jafns við grænlenska námsmenn. Þú getur sótt um skólavist hjá grænlenskri menntastofnun og stundað þar nám án endurgjalds.

Ákveðin skilyrði gilda fyrir veitingu námsstyrks á Grænlandi, þar sem viðkomandi þarf að vera danskur ríkisborgari eða geta sýnt fram á sérstaka tengingu við Grænland. Í sumum tilfellum er í staðinn hægt að fá námsstyrk frá heimalandi sínu.

Ilisimatusarfik, Háskóli Grænlands, býður einnig námspláss fyrir skiptinema sem vilja taka eina önn í Nuuk. Í boði eru námskeið á dönsku, grænlensku og ensku.

Spurning til Info Norden

Ef þú ert með spurningu eða ef þú hefur rekist á hindrun í norrænu landi skaltu fylla út eyðublað okkar.

ATH: Ef spurningin þín varðar afgreiðslu tiltekins máls eða umsóknar eða annarra persónulegra mála skaltu hafa samband við viðkomandi yfirvald.

Info Norden er upplýsingaþjónusta Norrænu ráðherranefndarinnar. Við gefum upplýsingar til fólks sem vill flytja, vinna, stunda nám, leita styrkjum eða hefja rekstur í öðru norrænu landi.
Leitaðu að skrifstofu Info Norden hérna