Innflutningur á hundum og köttum til Íslands

Innflutningur á hundum og köttum til Íslands
Reglur um innflutning dýra til Íslands eru nokkuð strangar og mikilvægt er að huga snemma að undirbúningi flutnings. Hér má finna upplýsingar um að flytja dýr til Íslands.

Útvega þarf ýmis vottorð frá dýralæknum í heimalandinu og sækja um innflutning á sérstöku eyðublaði.

Dýrið þarf að vera með örmerki sem uppfyllir vissa staðla og það þarf að fara í gegnum heilbrigðisskoðun, bólusetningaferli og aðrar rannsóknir.

Best er að huga snemma að þeim kröfum, þar sem tiltekinn tími þarf að líða frá því að bólusett er og þar til dýrið má koma til landsins. Eins með sýni vegna rannsókna, en mælt er með að þau séu tekin 20-30 dögum fyrir áætlaðan innflutning svo tryggt verði að niðurstöður liggi fyrir í tíma.

Athuga skal að aðeins þau eyðublöð fyrir heilbrigðisvottorð sem útgefin eru af Matvælastofnun eru tekin gild.

Útvega þarf búr fyrir flutninginn sem þarf að uppfylla vissa staðla.

Keflavíkurflugvöllur er eini samþykkti innflutningsstaðurinn fyrir gæludýr. Við komu til landsins skoðar héraðsdýralæknir dýrið og sannreynir að það sýni ekki einkenni smitsjúkdóms, hafi innflutningsleyfi og jákvæða umsögn Matvælastofnunar og að frumrit allra tilskilinna vottorða fylgi.

Hundar og kettir þurfa því næst að vera í fjögurra vikna einangrun við komu til landsins. Greiða þarf sérstök einangrunargjöld, auk annarra gjalda fyrir innflutningseftirlit.

Hafa ber í huga að einangrunarstöðvarnar eru með fyrirfram ákveðna komudaga, eitt holl í mánuði, en ekki er hægt að senda dýr til landsins á öðrum dögum. Því þarf að bóka pláss í einangrun með góðum fyrirvara.

Nánari upplýsingar um ferlið í heild, gátlista og upplýsingar um kostnað við innflutning má nálgast á heimasíðu Matvælastofnunar.

Ferðast með gæludýr

Sömu reglur gilda varðandi ferðalög dýra til landsins og innflutning. Engu skiptir hvort um stutta dvöl eða flutning til frambúðar er að ræða. Ætlast er til þess að gæludýrin dvelji í einangrun um tíma. Reglur um innflutning gæludýra má finna á heimasíðu Matvælastofnunar og í textanum að ofan.

Hafa samband við yfirvöld
Spurning til Info Norden

Ef þú ert með spurningu skaltu fylla út eyðublaðið hérna:

ATH: Ef spurningin þín varðar afgreiðslu tiltekins máls eða umsóknar eða annarra persónulegra mála skaltu hafa samband við viðkomandi yfirvald.

Info Norden er upplýsingaþjónusta Norrænu ráðherranefndarinnar. Við gefum upplýsingar til fólks sem vill flytja, vinna, stunda nám, leita styrkjum eða hefja rekstur í öðru norrænu landi.
Leitaðu að skrifstofu Info Norden hérna