Leiðbeiningar: starfað í Norður-Svíþjóð

People hiking on Kebnekaise
Photographer
Karl Hedin/Unsplash
Skapaðu þér starfsferil á sviði umhverfismála, tækni eða þjónustu og fáðu alþjóðlega reynslu í Norður-Svíþjóð. Í þessari grein eru gefnar upplýsingar um atvinnu, skóla, húsnæði, atvinnuleysistryggingasjóði, skattkort, banka, bíla, sjúkratryggingar og allt annað sem þú þarft að hafa í huga í upphafi nýja ævintýrisins í norðri.

Dreymir þig um að búa og starfa í Norður-Svíþjóð, þar sem ótamin náttúran er aðeins steinsnar frá bakgarðinum, þar sem norðurljósin dansa á vetrarnóttum og miðnætursólin lýsir upp sumarnætur, þar sem fólki líður vel, laust við áhyggjur borgarlífsins? Lestu þá hér hvernig þú kemur þér af stað.

Norður-Svíþjóð samanstendur af fimm landshlutum: Gävleborg, Västernorrland, Jämtland, Västerbotten og Norrbotten. Þar lifir menning Svía, Sama og Tornedals hlið við hlið.

Í norðurhluta Svíþjóðar er lítil samkeppni um störf og sömuleiðis lítið atvinnuleysi. Þar hafa orðið til margir nýir vinnustaðir með aukinni starfsemi hrávinnslufyrirtækja sem hafa þar djúpar rætur samhliða nýrri tækni sem skapar ný tækifæri.

Á svæðinu má finna störf af öllum gerðum, svo sem kennara, lögregluþjóna, verkfræðinga, hugbúnaðarverkfræðinga, rafvirkja, rútubílstjóra, málara, embættismenn og verkefnastjóra, störf á heilbrigðissviði á borð við lækna, hjúkrunarfræðinga og félagsliða, störf við samgöngur og sérfræðistörf á sviði upplýsingatækni, umhverfisins og íðefna.

Ef þú vilt prófa að starfa í nýrri atvinnugrein eru tækifærin mikil. Það getur verið ógnvekjandi tilhugsun að taka stökkið og skapa sér frama í nýrri atvinnugrein, en kannski er það einmitt það sem þú þarft að gera til að finna draumastarfið!

Hvað er að gerast í Norður-Svíþjóð?

Margar atvinnugreinar hafa á undanförnum árum fjárfest mikið í Norrbotten og Västerbotten, nyrstu landshlutum Svíþjóðar. Í Svíþjóð er talað um nýja iðnbyltingu, þar sem þörf er á 100.000 starfsmönnum í nærri 200 mismunandi atvinnugreinum bæði á vegum hins opinbera og í einkageiranum.

Boden, Gällivare, Kiruna, Luleå og Skellefteå eru sumar af þeim borgum í Norður-Svíþjóð sem vert er að hafa auga með ef þig dreymir um að starfa í norðrinu og vilt taka þátt í að breyta heiminum með þeim umskiptum sem nú er unnið að innan margra atvinnugreina nyrst í Svíþjóð.

Mikill vöxtur er í Norður-Svíþjóð og honum fylgja að sjálfsögðu áskoranir, en fyrst og fremst skapar hann mikinn samstarfsvilja, sköpunarkraft og trú á framtíðina. Norður-Svíþjóð er rétt handan við hornið og það sem þar fer fram fyllir íbúa og fyrirtæki svæðisins stolti.

Þessar leiðbeiningar ættu að hjálpa þér að taka skrefið og flytja til Norður-Svíþjóðar.

Hvers vegna flytja til Norður-Svíþjóðar?

Það nýtur aukinna vinsælda að líta til norðurs því í Norður-Svíþjóð eru mörg atvinnutækifæri og lífsgæðin þar heilla marga. Þar er auðveldara að finna atvinnu og húsnæði og húsnæðiskostnaður er lægri en á stórborgarsvæðunum.

Það er engin ástæða til þess að bíða til eftirlaunaaldurs með að njóta lífsins í öðru landi. Dvöl erlendis, með reynslu sem bætist á ferilskrána, gerir þig að áhugaverðari kosti fyrir atvinnurekendur og gagnast starfsferli þínum til langframa.

Fáðu alþjóðlega reynslu á ferilskrána í Norður-Svíþjóð

Áður en haldið er af stað er erfitt að ímynda sér hvaða áhrif það að búa og starfa í Norður-Svíþjóð hefur á það hver þú ert og hvernig þú upplifir heiminn. Að dvelja í öðru landi til langs tíma, eða flytja til útlanda, getur þroskað þig og breytt þér á marga mismunandi vegu.

Í Norður-Svíþjóð muntu upplifa nýja hluti og áskoranir sem þú munt minnast með gleði síðar á lífsleiðinni. Það mun reyna á þig og þú munt lenda í nýjum og óvæntum aðstæðum sem krefjast þess að þú hafir opinn huga, aðlagist og sýnir vilja til að prófa nýja hluti. Þú munt fá nýja sýn á heiminn og heimaland þitt og eignast nýja vini.

Dvöl í Norður-Svíþjóð og starf hjá alþjóðlegu fyrirtæki getur verið stökkpallurinn fyrir alþjóðlegan starfsframa. Hún getur mótað framtíðarmöguleika þína og opnað fyrir möguleikann á að næsta starf þitt verði ekki endilega í heimalandinu, heldur ef til vill í Kanada, Kína eða Króatíu, og getur þannig haft heilmikil áhrif á framtíð þína og tækifæri.

Upplifðu menningu Norður-Svíþjóðar

Menningin í Norður-Svíþjóð getur verið frábrugðin því sem þú átt að venjast í heimalandi þínu. Með því að sýna sveigjanleika og hafa opinn huga muntu þó eiga auðveldara með að aðlagast, verða sjálfstæðari og venjast því að takast á við nýjar áskoranir. Sumt á þér eftir að finnast skringilegt og óhentugt en annað mun varpa nýju ljósi á menningu heimalands þíns.

Þú átt eftir að kynnast nýju landi og nýrri menningu og fara í frábær ferðalög. Í Norður-Svíþjóð er stærsta fjall Svíþjóðar, Kebnekaise, og dýpsta stöðuvatn landsins, Hornavan. Þú munt búa við sífrera á fjallasvæðunum en getur baðað þig á ströndum Helsingjabotns yfir sumarið.

Þú getur bókað þig í snjósleðaferð, ekið hundasleða og farið á skauta eða skíði. Þú færð algjörlega einstaka ferðaupplifun í litlum landshlutum og bæjum sem þú myndir aldrei annars heimsækja og færð að smakka marga mismunandi rétti, svo sem elg, hreindýr og fisk, Västerbotten-böku, kartöfluhveitibollur (palt) og sumarköku (pitekaka). Og þau hugrökku smakka að sjálfsögðu súrsíldina, „surströmming“.

Þú lærir nýtt tungumál og gætir jafnvel bætt þig í ensku ef þú starfar hjá alþjóðlegu stórfyrirtæki og vinnumálið er enska, sem mun koma þér til góða í lífi og starfi síðar meir.

Hvenær í lífinu er best að flytja til Norður-Svíþjóðar?

Miklar rannsóknir hafa verið gerðar á hreyfanleika fólks – hvert, hvenær og hvers vegna fólk flytur. Rannsóknir sýna að við flytjum helst til annarra svæða á vissum tímapunktum í lífinu – til dæmis vegna náms og fyrsta starfs. Aftur á móti er fólk ragara við að flytja til annars lands þegar það hefur fest sér rætur.

Ungmenni í Norður-Svíþjóð

Að loknu löngu námi eða í upphafi starfsferilsins getur verið yfirþyrmandi að hugsa til þess að vera á vinnumarkaði heimalandsins næstu 40 til 50 ár. En sem betur fer getur þú mótað starfsferilinn þinn eins og þú vilt.

Mörg fyrirtæki hvetja ungt starfsfólk sitt til að ferðast til útlanda og snúa til baka með nýja þekkingu og reynslu. Ef til vill er fyrirtækið sem þú starfar hjá nú þegar með útibú í Norður-Svíþjóð sem þú getur starfað tímabundið hjá. Ef ekki eru til ýmsar starfagáttir og leitarvélar sem sérhæfa sig í að koma fyrirtækjum í samband við hæfa umsækjendur frá öðrum löndum.

Taktu fjölskylduna með til Norður-Svíþjóðar

Eftir mörg ár á vinnumarkaði er ekki óalgengt að fólk hafi komið sér upp fastri daglegri rútínu með maka og ungum börnum. Hún getur aftrað mörgum frá því að upplifa drauminn um að búa og starfa í öðru landi. En það er vel gerlegt að láta ferðadrauminn verða að veruleika með fjölskyldunni. Óháð því á hvaða aldri börnin mun það gagnast þeim að vera hluti af ævintýrinu.

Ef börnin eru mjög ung gætuð þið valið að annað ykkar hætti að vinna á meðan þið eruð erlendis. Fyrir eldri börn er upplagt að skrá þau hjá stofnun eða skóla á nýja staðnum þar sem þau læra nýja menningu og tungumál.

Undirbúningur flutnings til Norður-Svíþjóðar

Það er stór ákvörðun að flytja til útlanda, en það er gerlegt. Flestir sem taka skrefið segja reynsluna og þekkinguna sem þú tekur með þér heim vera vel þess virði. Og aðrir koma aldrei aftur heim því þeir festa rætur með fjölskyldu og vinum í nýja landinu.

Það er mikilvægt að undirbúa vel flutning til útlanda eða lengri dvöl erlendis. Mundu þó að stór hluti af ferðinni til útlanda er að vita ekki hvað framtíðin ber í skauti sér eða hvers konar menningu þú munt kynnast á nýja vinnustaðnum.

Hér færðu yfirlit yfir það sem er mikilvægt að vita áður en flutt er til Svíþjóðar.

Mismunandi störf í Norður-Svíþjóð

Mörg mismunandi störf eru í boði í Norður-Svíþjóð. Stór hluti þeirra eru svonefnd „græn störf“, þar sem margir nýir vinnustaðir eru að verða til í framleiðslu á grænu stáli og á sviði umhverfismála, en einnig er mikil þörf á starfsfólki í byggingariðnaði og þjónustu.

Ýmis stórfyrirtæki sem starfa á sviði loftlagsbreytinga hafa starfsemi í Norður-Svíþjóð vegna hrávara, málma, vinda, skóga og vatns á svæðinu. Því er áætlað að eftirspurn eftir starfsfólki í Norður-Svíþjóð haldi áfram að aukast í langan tíma.

Nýir vinnustaðir í Norður-Svíþjóð eru ekki afmarkaðir við stórfyrirtæki. Þjónustugeirinn er einnig í vexti og eftirspurn eftir starfsfólki er að aukast í viðskiptum, þjónustu, skólum og barnagæslu, umönnun og félagsþjónustu, þjónustu við aldraða og tæknistörfum. Þetta á bæði við um föst störf og árstíðabundin störf.

Í ferðaþjónustu eru árstíðabundnir vinnustaðir í Åre, Östersund og fleiri borgum. Þar er þörf á starfkröftum í mörg störf, svo sem skíðakennurum, stjórnendum lyftara og beltavéla, leiðsögufólki, meðal annars á hjólum og snjósleða, ráðstefnustjórum, starfsfólki á upplýsingamiðstöð ferðaþjónustu, riturum, heimilishjálp, ræstitæknum, kokkum, starfsfólki á kaffihúsum, þjónum, kaffibarþjónum, barþjónum, vínsérfræðingum, leigubílstjórum, rútubílstjórum og starfsfólki í verslunum.

Gættu þess að ferilskráin þín sé góð og sýni hæfni þína og vertu reiðubúin(n) til að ferðast til Norður-Svíþjóðar til að hitta mögulega vinnuveitendur þína ef þú kemst áfram í ráðningarferlinu. Stundum er fyrsta skrefið viðtal með fjarfundi.

Hvar í Norður-Svíþjóð viltu starfa?

Norður-Svíþjóð er stórt landsvæði og því þarftu að huga að því hvar þú vilt starfa. Í mörgum borgum í Norður-Svíþjóð er lögð áhersla á grænan iðnað með spennandi atvinnutækifærum, en vinnumarkaðurinn er í vexti á flestum þessum svæðum.

Í Boden og Gällivare fer fram framleiðsla án alls jarðefnaeldsneytis en auk þess eru í Boden störf sem tengjast sænskum varnarmálum og í Skellefteå er gert ráð fyrir að fleiri en þrjú þúsund störf verði til í rafhlöðuiðnaðinum innan fárra ára. Í Umeå er markmiðið að taka við 200.000 nýjum íbúum fyrir árið 2050.

Í Kiruna er heimsins stærsta og nútímalegasta neðanjarðarnámuvinnsla jarðmálma í heimi. Þar fara fram rannsóknir og þróun til að aðlaga námuvinnslu að nýjum kröfum og reglum um námuvinnslu og umhverfið.

Þegar í dag eru mörg störf í boði í norðurhluta Svíþjóðar. Óháð því hver menntun eða bakgrunnur þinn er getur þú fundið störf við hæfi í Norður-Svíþjóð.

Notaðu starfagáttir til að finna starf í Norður-Svíþjóð

Á vef sænsku vinnumiðlunarinnar, Arbetsförmedlingen, er hægt að afmarka störf í Norður-Svíþjóð við starfstitil, fyrirtæki, borg, menntun eða leitarorð. Óháð því hvort þú sækir um fullt starf, hlutastarf eða árstíðabundið starf finnur þú margar tillögur að störfum til að sækja um.

Mörg fyrirtæki og stofnanir standa að baki gáttinni MindDig, þar sem þú getur skráð þig til að leita að atvinnu í Norður-Svíþjóð. Þar fá fyrirtæki og stofnanir aðgang að upplýsingum um hæfni þína.

Finna húsnæði í Norður-Svíþjóð

Sveitarfélögin eru almennt hjálpleg og bjóða upp á ýmis tækifæri fyrir innflytjendur til að aðlagast. Þau bjóða til dæmis upp á húsnæði með góðu aðgengi og á hagstæðu verði óháð því hvort þú viljir leigja, kaupa eða byggja.

Í mörgum borgum Norður-Svíþjóðar er hægt að sækja sér háskólamenntun, sem stuðlar að góðri þróun í innflytjendamálum og nýjum störfum í kjölfarið. Háskólarnir í Luleå og Umeå eru í miklum vexti og bjóða upp á vinsælar námsleiðir og eru einnig með háskólasvæði í Skellefteå.

Umeå er stærsta borg Norður-Svíþjóðar og liggur í Västerbotten. Borgin er nefnd borg birkisins þar sem þúsundir birkitrjáa vaxa í miðbæ Umeå. Kiruna er stærsta sveitarfélag Svíþjóðar, jafnstórt Skåne, Blekinge og Halland til samans.

Kannaðu vefsíður sveitarfélaganna til að fá nánari upplýsingar um lífið í norðri og hvernig þú getur keypt eða leigt íbúð eða byggt þitt eigið hús.

Þú getur einnig kynnt þér húsnæðisleit á síðunni „Húsnæði í Svíþjóð“ og leitað að húsnæði hvar sem er í Svíþjóð á Blocket.se.

Alþjóðlegt sakavottorð í Svíþjóð

Ef væntanlegur vinnuveitandi þinn í Svíþjóð fer fram hreint sakavottorð getur þú pantað alþjóðlegt sakavottorð áður en þú ferð af stað frá heimalandi þínu.

Tilkynnt um flutning til Svíþjóðar

Allir sem ráðgera að búa í Svíþjóð í meira en ár þurfa að skrá búsetu sína í sænska þjóðskrá. Tilkynnt er um flutning til Svíþjóðar með því að mæta í eigin persónu til Skatteverket. Mundu að taka vegabréfið þitt með.

Norrænir ríkisborgarar eiga rétt á að búa og starfa alls staðar á Norðurlöndum án dvalar- eða búsetuleyfis. Norrænir ríkisborgarar þurfa ekki að sýna fram á dvalarrétt eða dvalarleyfi til að skrá búsetu sína í sænska þjóðskrá.

Ríkisborgarar ESB-/EES-landa eiga rétt á að starfa, stunda nám og búa í Svíþjóð án dvalarleyfis. Réttur ríkisborgara ESB-/EES-landa til að dvelja í Svíþjóð án dvalarleyfis nefnist dvalarréttur. Þú hefur dvalarrétt ef þú ert í launavinnu, starfar sjálfstætt, stundar nám eða getur séð fyrir þér. Ef þú átt rétt á að dvelja í Svíþjóð þarftu ekki að hafa samband við Migrationsverket.

Ef þú ert ríkisborgari lands utan ESB/EES og hefur ekki dvalarleyfi skaltu hafa samband við Migrationsverket til að fá upplýsingar um hvernig þú sækir um sænskt dvalarleyfi. Einstaklingur sem er með dvalarleyfi í Svíþjóð en er ekki ríkisborgari ESB-/EES-ríkis skal innan þriggja mánaða frá flutningi til Svíþjóðar sækja um dvalarkort (uppehållskort) hjá Migrationsverket.

Heimalandi tilkynnt um flutning til Svíþjóðar

Þegar flutt er til Svíþjóðar frá Danmörku eða Finnlandi þarf að tilkynna þjóðskrá í heimalandinu um flutninginn. Þegar flutt er frá Íslandi til Noregs eða Svíþjóð þarf ekki að tilkynna þjóðskrá í heimalandi um flutninginn.

Nánari upplýsingar um flutning milli Norðurlanda er á finna á leiðbeiningasíðum Info Norden um flutninga.

Kannaðu skattamál í heimalandinu

Kynntu þér hvaða reglur gilda um þínar aðstæður hjá skattyfirvöldum í heimalandi þínu. Ef þú flytur til annars lands getur það haft áhrif á skattskyldu þína. Mikilvægt er að hafa samband við skattyfirvöld til að lenda ekki í því að greiða of mikinn eða of lítinn skatt. Mundu einnig að skoða álagningarseðil ársins þegar þú flytur frá heimalandinu.

Skattkort í Svíþjóð

Ef þú ert launþegi þarftu að greiða skatt af launatekjum (A-skatt) og hafa skattkort til að vinnuveitandinn geti dregið skatt af launum þínum og greitt gjöld vinnuveitanda. Ef vinnuveitandi þinn veit ekki hvaða skattkort þú ert með verður meiri skattur dreginn af launum þínum. Þess vegna er mikilvægt að framvísa vinnuveitanda skattkorti. Ef þú þarft að nota skattkort getur þú pantað það hjá Skatteverket.

Flestir greiðendur launa, lífeyris eða annars sambærilegs fá upplýsingar beint frá sænskum skattyfirvöldum. Atvinnurekendur biðja stundum starfsfólk um að skila A-skattseðli.

A-skattseðill er fyrst og fremst nauðsynlegur ef þú ert ekki sænskur ríkisborgari og munt starfa í Svíþjóð á takmörkuðu 6-12 mánaða tímabili til að sýna fram á að þú hafir leyfi til að starfa í Svíþjóð.

Kannaðu afleiðingar flutnings til Svíþjóðar

Það er góð hugmynd að kanna hvaða afleiðingar flutningur eða dvöl í Svíþjóð getur haft á aðstæður þínar áður en þú heldur af stað. Flutningurinn hefur áhrif á réttindi þín og rétt á greiðslum á borð við fæðingarorlofsgreiðslur, barnabætur og lífeyrisgreiðslur. Það hve lengi þú ert erlendis hefur áhrif á rétt þinn á greiðslum.

Ef þú færð greiðslur frá stofnunum í heimalandi þínu þarftu í sumum tilfellum að tilkynna þeim beint um flutninginn. Kannaðu hvað á við um aðstæður þínar.

Finna stofnun og skóla í Svíþjóð fyrir börn

Í Svíþjóð eru grunnskólarnir á vegum sveitarfélaganna. Skólar í Svíþjóð eru að mestu fjármagnaðir af hinu opinbera og gjaldfrjálsir. Lítill hluti nemenda gengur í einkaskóla sem einnig eru fjármagnaðir af hinu opinbera. Öll börn í Svíþjóð eiga rétt á og eru skyldug til að hljóta kennslu í níu ár.

Í Svíþjóð er ýmiss konar barnagæsla í boði fyrir börn á aldrinum 1-5 ára. Foreldrar greiða sjálfir fyrir dagvistun barns í sænskum leikskóla. Ef þú ert í vinnu, stundar nám, ert í atvinnuleit eða heimavinnandi með yngri systkini áttu rétt á gæslu fyrir börnin þín. Í Svíþjóð er barnagæsla yfirleitt á vegum sveitarfélaganna.

Ef þú deilir forræði í heimalandinu

Ef þú flytur til Svíþjóðar með barn og hitt foreldrið býr áfram í heimalandinu þarftu að tryggja að lög leyfi að þú flytjir með barnið til Svíþjóðar. Hafið þið sameiginlegt forræði þurfið þið að vera sammála um að barnið megi flytja. Þér ber skylda til að láta hitt foreldrið vita af flutningnum.

Hafa samband við banka í heimalandi og opna bankareikning í Svíþjóð

Hafðu samband við bankann þinn í heimalandi þínu til að kanna hvaða möguleikar standa þér til boða þegar þú flytur til útlanda og hvort þú ættir að halda bankareikningnum í heimalandinu. Gefðu bankanum upp nýja heimilisfang þitt í Svíþjóð, þar sem ekki er öruggt að bankanum berist sjálfkrafa tilkynning um nýja heimilisfangið.

Vinnuveitandi þinn gæti beðið þig um að opna bankareikning í Svíþjóð til að greiða laun inn á ef vinnuveitandinn getur sýnt fram á að það muni kosta meira að greiða launin inn á reikning í öðru landi.

Ef þú ætlar að opna bankareikning í Svíþjóð er góð hugmynd að kanna möguleika í boði hjá bönkunum áður en þú flytur.

Fá rafræn skilríki í Svíþjóð

Haltu rafrænum skilríkjum heimalandsins þíns þegar þú flytur til Svíþjóðar. Þannig getur þú enn notað sjálfsafgreiðsluþjónustu í heimalandinu þegar þú þarft á að halda.

Hjá sumum sænskum stofnunum getur þú skráð þig inn á sjálfsafgreiðsluþjónustu með rafrænum skilríkjum heimalands þíns. Líttu eftir „Log in with eID“ eða „Log in with foreign eID“.

Nokkrar lausnir fyrir rafræn skilríki eru í boði í Svíþjóð en sú algengasta er BankID. Þeir sem búa og starfa í Svíþjóð geta haft samband við banka í Svíþjóð til að panta BankID.

Val á tryggingum í Svíþjóð

Hafðu samband við tryggingafélag þitt í heimalandinu til að kanna hvaða möguleikar standa þér til boða þegar þú flytur til Svíþjóðar. Segðu upp núverandi tryggingum þínum eða gerðu breytingar á þeim.

Sumar tryggingar eru lögbundnar í Svíþjóð. Þú getur kynnt þér upplýsingar um algengustu tryggingar sem sænsk tryggingafélög bjóða upp á.

Aðild að almannatryggingum í Svíþjóð

Ef þú starfar í Svíþjóð gilda reglur heimalands þíns um almannatryggingar alla jafna ekki lengur um þig. Þess í stað eru það reglurnar í vinnulandinu sem gilda. Þú þarft að skrá þig hjá almannatryggingastofnun í Svíþjóð, Försäkringskassan.

Þeir sem búa og starfa í Svíþjóð öðlast sjálfvirkt aðild að almannatryggingum í Svíþjóð. Það þýðir að þú getur leitað til læknis og fengið meðhöndlun á sjúkrahúsi og að sænskar reglur gilda um þig, svo sem um lífeyri, bætur og vinnuslys.

Ef þú flytur til Svíþjóðar en munt starfa í mörgum löndum er mikilvægt að fá á hreint í hvaða landi þú átt aðild að almannatryggingum. Þú þarft að fá ákvörðun frá stofnunum í því landi sem þú hyggst búa í.

Aðild atvinnuleysistryggingasjóði í Svíþjóð

Það kemur sér vel að eiga aðild að atvinnuleysistryggingasjóði. Ef þú átt atvinnuleysistryggingu áttu rétt á atvinnuleysisbótum ef þú verður atvinnulaus. Ef þú vilt eiga aðild að atvinnuleysistryggingasjóði í Svíþjóð þarftu að skrá þig hjá einum slíkum. 

Þegar flutt er til Svíþjóðar vegna atvinnu skaltu hafa eyðublað PD U1 meðferðis, en það er skjal sem notað er til að færa aðild að atvinnuleysistryggingasjóði yfir til erlends atvinnuleysistryggingasjóðs og staðfestir atvinnu- og tryggingatímabil í heimalandi þínu. Innan ESB/EES getur þú þannig haldið áunnum réttindum þínum í atvinnuleysistryggingasjóði.

Ef þú hefur starfað í öðru norrænu landi þarftu að skjalfesta trygginga- og starfstímabilið með eyðublaðinu PD U1 þegar þú sækir um atvinnuleysisbætur. Þegar þú kemur aftur til heimalands þíns þarftu að framvísa þessu skjali ef þú sækir um atvinnuleysisbætur.

Ef þú starfar í einu norrænu landi en býrð í öðru landi sem þú ferðast til einu sinni eða oftar í viku flokkast þú sem vinnuferðalangur. Þú þarft að eiga aðild að atvinnuleysistryggingasjóði í því landi sem þú starfar í. Sérstakar reglur gilda um vinnuferðalanga sem verða atvinnulausir. Mismunandi reglur gilda eftir því hvort þú snúir aftur til heimilis þíns einu sinni í viku eða ekki og hvort þú sért í hlutastarfi, tímabundnu starfi eða föstu starfi.

Aðild að sjúkratryggingum í Svíþjóð

Þú þarft að skrá þig fyrir sjúkratryggingum í Svíþjóð hjá Försäkringskassan. Þú nýtur sömu kjara og sænskir ríkisborgarar og átt rétt á þjónustu læknis og sérfræðilækna og niðurgreiðslu lyfjakostnaðar og tannlæknaþjónustu.

Þú þarft einnig að panta nýtt evrópskt sjúkratryggingakort í Svíþjóð þegar þú flytur til Svíþjóðar til að starfa þar. Þú skalt nota það þegar þú ferðast um heimaland þitt eða til annarra landa í ESB/EES og þarft á nauðsynlegri læknisþjónustu að halda.

Þú átt ekki lengur rétt á ráðgerðri heilbrigðisþjónustu í heimalandi þínu ef þú átt ekki lengur aðild að almannatryggingum þar.

Skráning bifreiðar og endurnýjun ökuskírteinis í Svíþjóð

Það er lítið mál að búa í Norður-Svíþjóð án þess að eiga bíl – í það minnsta í stærri borgum. Ef þú þarft að búa utan borgarmarkanna þarftu þó að eiga bíl vegna hinna löngu vegalengda.

Meginreglan er sú að bílar eiga að vera skráðir í búsetulandi eiganda. Ef einstaklingur býr í Svíþjóð þarf bíll viðkomandi því að vera skráður þar.

Þegar flutt er til Svíþjóðar frá Danmörku, Finnlandi, Færeyjum, Grænlandi, Íslandi Noregi eða Álandseyjum má áfram nota sama ökuskírteini. Ef þú glatar ökuskírteini þínu eða þarft að endurnýja það eftir að þú flytur til Svíþjóðar skaltu leita til Transportstyrelsen. Þá getur þú ekki lengur fengið nýtt ökuskírteini gefið út í gamla heimalandinu.

Hundur eða köttur fluttur til Svíþjóðar

Ef þú tekur gæludýr með þér til Svíþjóð skaltu ræða við dýralækni. Dýralæknirinn getur aðstoðað þig með skjöl og bólusetningar.

Spurning til Info Norden

Ef þú ert með spurningu eða ef þú hefur rekist á hindrun í norrænu landi skaltu fylla út eyðublað okkar.

ATH: Ef spurningin þín varðar afgreiðslu tiltekins máls eða umsóknar eða annarra persónulegra mála skaltu hafa samband við viðkomandi yfirvald.

Info Norden er upplýsingaþjónusta Norrænu ráðherranefndarinnar. Við gefum upplýsingar til fólks sem vill flytja, vinna, stunda nám, leita styrkjum eða hefja rekstur í öðru norrænu landi.
Leitaðu að skrifstofu Info Norden hérna