Lýðháskólar í Finnlandi

Lýðháskólar eru menntastofnanir ætlaðar fullorðnum nemendum. Námi við þær lýkur yfirleitt ekki með prófgráðu. Alla jafna er innheimt gjald fyrir nám í lýðháskólum.
Námsframboð lýðháskóla er breytilegt og er námskeiðaúrvalið auglýst árlega. Vinsælustu námskeiðin eru tungumála- og listnámskeið, auk ýmissa námsleiða á sviðum hug- og félagsvísinda. Í flestum lýðháskólum er einnig hægt að taka námskeið á vegum opna háskólans.
Nám við lýðháskóla er stundað á finnsku eða sænsku og í einhverjum mæli á ensku.
Nánari upplýsingar um starfsemi lýðháskólanna eru hér.
Umsóknir
Umsóknartímabil fer eftir menntastofnun og námsbraut. Yfirleitt er sótt um nám við lýðháskóla að vori og sumri en stundum er einnig hægt að sækja um að hausti. Þreyta þarf inntökupróf inn á einhverjar námsbrautir.
Nánari upplýsingar um umsóknir eru á heimasíðu hvers skóla.
Húsnæðismál
Í flestum lýðháskólum er heimavist. Þá geta þeir nemendur sem það kjósa búið á stúdentagarði, borðað í mötuneyti skólans og varið frítíma sínum á háskólasvæðinu. Búseta á stúdentagarði er yfirleitt innifalin í skólagjöldum.
Fjármögnun námsins
Flestir nemendur lýðháskóla fjármagna námið með námsstyrk finnska ríkisins. Ríkisborgarar annarra Norðurlanda, sem koma til náms í Finnlandi, fá yfirleitt námsstyrk frá heimalandi sínu. Eigi umsækjandi rétt á finnskum námsstyrk getur hann fengið styrk frá Kela. Nánari upplýsingar á síðunni Finnskur námsstyrkur.
Umsækjendur sem þurfa aðstoð við að greiða skólagjöldin geta í einhverjum tilfellum fengið hluta gjaldanna niðurfelldan, eða fengið gjöldin niðurfelld að fullu með svonefndum námsseðli (fi. opintoseteli). Námsseðlarnir eru fjármagnaðir af finnska menntamálaráðuneytinu og eru meðal annars ætlaðir innflytjendum, atvinnulausum eða einstaklingum sem eiga við námsörðugleika að stríða eða eiga litla fyrri skólagöngu að baki. Nánari upplýsingar veita lýðháskólarnir.
Grunnskóla-, menntaskóla- eða iðnskólanám í lýðháskóla
Við suma lýðháskóla er hægt að ljúka grunnskóla-, menntaskóla- eða iðnskólanámi. Á slíkum námsbrautum miðar námið í heild að því að ljúka tilteknu prófi og veitir sömu réttindi til áframhaldandi náms og samsvarandi próf frá grunn-, mennta- eða iðnskóla. Einnig er hægt að bæta einstakar einkunnir.
Ekki eru innheimt skólagjöld fyrir það að ljúka grunnskóla-, menntaskóla- eða iðnskólanámi við lýðháskóla. Þó kunna gjöld að vera innheimt fyrir stök námskeið. Einnig eru í einhverjum tilvikum innheimt gjöld fyrir efniskostnaði í iðnnámi.
Ef þú ert með spurningu skaltu fylla út eyðublaðið hérna:
ATH: Ef spurningin þín varðar afgreiðslu tiltekins máls eða umsóknar eða annarra persónulegra mála skaltu hafa samband við viðkomandi yfirvald.