Leiðbeiningar: flutt til Svíþjóðar

Tjekliste når du flytter til Sverige
Hér er að finna upplýsingar um það mikilvægasta sem hafa þarf í huga þegar flutt er til Svíþjóðar.

Ert þú að flytja til Svíþjóðar vegna vinnu eða náms eða hyggst þú setjast í helgan stein í Svíþjóð? Það eru mörg atriði sem gott er að fá á hreint áður en lagt er af stað.

Það er ávallt að mörgu að huga þegar flutt er. En ef flutningurinn er á milli landa, er að enn fleiru að huga, þar sem þú þarft að ekki bara að kynna þér stofnanapláss, almenningssamgöngur og verslanir.

Þegar þú flytur til Svíþjóðar þarftu að kynna þér reglur um skatta, skráningu í þjóðskrá, atvinnuleysistryggingasjóð, atvinnuleit, almannatryggingar, skóla og húsnæði í Svíþjóð. Þessi minnislisti fer yfir það sem þarf að hafa í huga við flutninga til Svíþjóðar frá Danmörku, Finnlandi, Færeyjum, Grænlandi, Íslandi Noregi eða Álandseyjum.

Skráning í þjóðskrá og kennitala í Svíþjóð

Ef þú flytur til Svíþjóðar og hyggst dvelja þar lengur en í eitt ár þarftu að skrá þig í þjóðskrá þar í landi. Þú skráir þig í þjóðskrá í Svíþjóð með því að fara á skattskrifstofu (Skatteverket) í sveitarfélaginu sem þú flytur til. Hafa skal meðferðis vegabréf, vottorð um hjúskaparstöðu og fæðingarvottorð barna ef einhver eru.

Einstaklingar sem hafa skráð sig í þjóðskrá í Svíþjóð fá sænska kennitölu. Sænsk kennitala kemur ekki í stað kennitölunnar frá heimalandi þínu.

Í sumum löndum þarftu einnig að tilkynna um flutning ef þú ert að flytja frá landinu.

Norrænir ríkisborgarar þurfa ekki að hafa dvalarrétt (uppehållsrätt) eða dvalarleyfi (uppehållstillstånd) til að skrá sig í þjóðskrá í Svíþjóð.

Ríkisborgarar landa innan ESB/EES þurfa sjálfir að hafa dvalarrétt eða hafa dvalarrétt sem fjölskyldumeðlimir til að skrá sig í þjóðskrá í Svíþjóð.

Ríkisborgarar landa utan ESB/EES þurfa að hafa dvalarleyfi í Svíþjóð og það skal vera líklegt að þeir skuli búa í Svíþjóð í meira en ár til að þeir geti skráð sig í þjóðskrá í Svíþjóð.

Áframsending pósts til Svíþjóðar

Þú þarft að hafa samband við póstþjónustuna í því landi sem þú ert að flytja frá til að fá frekari upplýsingar um möguleikann á að láta áframsenda póstinn þinn á nýja heimilisfangið þitt í Svíþjóð.

Nafnskírteini og rafræn skilríki í Svíþjóð

Í Svíþjóð er nafnskírteini (identitetskort) almennt notað til að sýna fram á aldur og hver maður er í lyfjaverslunum, bönkum eða verslunum. Rafræn skilríki eru notuð til auðkenningar á internetinu.

Sótt er um nafnskírteini hjá Skatteverket. Þegar sótt er um nafnskírteini hjá Skatteverket færðu um leið rafræn skilríki sem hægt er að nota til að skrá sig inn á þjónustu ýmissa stofnanna.

Bankar í Svíþjóð

Eitt af því fyrsta sem þarf að ganga frá þegar flutt er til Svíþjóðar eru fjármálin frá degi til dags. Gott er að finna banka í nýja landinu til að opna bankareikning með greiðslukorti til að vinnuveitandi geti greitt laun og til að geta sent og tekið við greiðslum.

Ef dvöl þín í Svíþjóð er tímabundin getur þú haldið reikningnum í heimalandinu en takmarkanir geta verið á því hvaða ráðleggingar þú getur fengið og hvaða vörur þú getur notað.

Hafðu í huga að sem nýr íbúi í Svíþjóð er lánshæfiseinkunn þín ekki alltaf sú sama og í heimalandinu. Upplýsandi bréf frá bankanum þínum í heimalandinu getur í sumum tilfellum hjálpað til.

BankID og Swish í Svíþjóð

Hafðu samband við bankann þinn í Svíþjóð til að fá BankID. BankID eru rafræn skilríki sem bankar gefa út. BankID gefur aðgang að opinberri þjónustu í Svíþjóð. BankID getur til dæmis gefið aðgang að ýmissi þjónustu stofnanna.

Þú þarft að hafa sænska kennitölu til að nota BankID. Ekki er krafa um að vera sænskur ríkisborgari en þú þarft að hafa sænska kennitölu til að fá BankID. Útlendingar sem flytja til Svíþjóðar geta fengið sænskt BankID fyrir farsíma og þar með Swish ef þeir skrá sig í þjóðskrá í Svíþjóð og fá sænska kennitölu.

Swish er vinsæl og einföld leið til að millifæra peninga frá bankareikningnum þínum yfir á bankareikning einhvers annars. Með Swish getur þú notað farsímann þinn til að millifæra á bankareikninga annarra einstaklinga. Peningarnir eru dregnir af bankareikningnum þínum og lagðir inn á reikning móttakandans innan nokkurra sekúndna.

Skattur í Svíþjóð

Skattareglur og skatthlutfall í Svíþjóð geta verið frábrugðin reglum í þínu heimalandi og því skaltu kynna þér reglurnar fyrir fram. Þegar þú flytur getur skattskylda þín í heimalandinu haldið áfram að öllu leyti eða að hluta til eða fallið niður að öllu leyti.

Svíþjóð hefur gert tvísköttunarsamninga við mörg ríki. Þeir tryggja að þú greiðir ekki skatt af sömu upphæð tvisvar sinnum og að þú greiðir ekki samanlagt meiri skatt en þú ættir að gera í öðru landanna, þar sem skatthlutfallið er hærra. Norðurlöndin hafa undirritað norrænan tvísköttunarsamning sem mælir fyrir um hvaða norræna land getur skattlagt tekjur og hvernig komið er í veg fyrir tvísköttun.

Meginreglan er sú að það er mjög góð hugmynd að leita ráða hjá skattyfirvöldum í bæði Svíþjóð og heimalandinu þegar flutt er til Svíþjóðar eða starfað er í Svíþjóð.

Þú þarft að eiga skattkort til að vinnuveitandinn geti dregið skatt af launum þínum. Ef vinnuveitandi þinn veit ekki hvaða skattkort þú ert með verður meiri skattur dreginn af launum þínum. Þess vegna er mikilvægt að framvísa vinnuveitanda skattkorti. Ef þú þarft að nota skattkort getur þú pantað það hjá Skatteverket.

Afnotagjöld í Svíþjóð

Í Svíþjóð er almennt afnotagjald fyrir útvarp og sjónvarp innheimt sem hluti af skatti.

Almannatryggingar í Svíþjóð

Almannatryggingar hafa mikið að segja um hvaða reglur eiga við um lífeyri, atvinnuleysistryggingar, sjúkradagpeninga, fjölskyldubætur, foreldraorlof og fleira.

Ef þú flytur til Svíþjóðar með börn sem eru yngri en 16 ára hefur Försäkringskassan samband við þig þegar þú hefur skráð þig í þjóðskrá í Svíþjóð til að kanna hvort þú og börnin þín eigi að eiga aðild að almannatryggingum í Svíþjóð og þar með eiga rétt á barnabótum og mögulega viðbótarframlagi vegna fleiri barna.

Ef þú flytur til Svíþjóð án barna getur þú gefið Försäkringskassan upplýsingar ef þú vilt til dæmis fá evrópskt sjúkratryggingakort eða sækja um greiðslur og þá metur Försäkringskassan hvort þú skulir eiga aðild að almannatryggingum í Svíþjóð. Ef þú átt að eiga aðild að almannatryggingum í Svíþjóð gætir þú átt rétt á greiðslum frá Försäkringskassan, til dæmis barnabótum eða húsnæðisstyrk

Ef þú ert með lögheimili í Svíþjóð áttu rétt til heilbrigðisþjónustu með sömu kjörum og aðrir íbúar landsins. Það þýðir að þú greiðir almennt sænskt komugjald þegar þú sækir þér heilbrigðisþjónustu og átt einnig rétt á niðurgreiðslu tannlækningakostnaðar.

Meginreglan er að einstaklingur á aðild að almannatryggingum í því landi sem hann starfar. Þau sem ekki eru með atvinnu eiga yfirleitt aðild að almannatryggingum í því landi sem þau búa. Þó eru ýmsar undantekningar til og því skaltu hafa samband við stofnun landsins þar sem býrð, starfar eða stundar nám til að fá upplýsingar um hvort þú sért almannatryggð/ur.

Læknar og heilbrigðiskerfið í Svíþjóð

Þegar þú hefur skráð þig í þjóðskrá í Svíþjóð þarftu að velja þér heilsugæslustöð (vårdcentral). Ef þú verður veik/ur eða þarft á læknisaðstoð að halda skaltu leita til heilsugæslustöðvarinnar. Ef þú þarft á áríðandi læknisaðstoð að halda utan opnunartíma heilsugæslustöðvarinnar þinnar skaltu hringja í síma 1177 til að fá leiðbeiningar um næstu bráðamóttöku.

Atvinnuleysistryggingasjóður í Svíþjóð

Valfrjálst er að vera aðili að atvinnuleysistryggingasjóði í Svíþjóð. Ef þú vilt ganga í atvinnuleysistryggingasjóð er meginreglan sú að þú þarft að vera meðlimur atvinnuleysistryggingasjóðs í því landi sem þú starfar.

Einstaklingar sem flytja til Svíþjóðar til að starfa þar ættu því að skipta yfir í atvinnuleysistryggingasjóð í Svíþjóð. Atvinnuleysistryggingasjóður í heimalandinu getur veitt upplýsingar um hvernig aðildin er flutt í sænskan atvinnuleysistryggingasjóð.

Finndu þér þann atvinnuleysistryggingasjóð sem hentar þér og kynntu þér reglur um aðild og hvernig þú getur sameinað tryggingatímabil ef þú hefur starfað í öðru norrænu ríki.

Lífeyrir í Svíþjóð

Þú vinnur þér inn rétt til lífeyris í Svíþjóð ef þú ert almannatryggð/ur í Svíþjóð. Ef þú hefur búið eða starfað í öðru norrænu landi átt þú rétt á að fá lífeyri greiddan þrátt fyrir að þú flytjir til annars lands.

Ef þú færð lífeyri frá öðru norrænu landi þarftu að hafa samband við þá stofnun sem sér um lífeyrisgreiðslur í því landi til að fá upplýsingar um hvað þú getur fengið greitt ef þú flytur til Svíþjóðar. Einnig þarftu að kynna þér reglur um skattlagningu lífeyris bæði í landinu sem þú flytur frá og í Svíþjóð á vefgátt norrænna skattayfirvalda, Nordisk eTax.

Ef þú ert með lífeyrissparnað í öðru norrænu landi þarftu að hafa samband við lífeyrissjóðinn til að fá upplýsingar um hvaða áhrif flutningur til Svíþjóðar hefur á lífeyrissparnað.

Húsnæði í Svíþjóð

Í Svíþjóð eru margar mismunandi gerðir af íbúðarhúsnæði. Þú þarft að meta hvar og hvernig þú vilt búa og kannað hvernig tegund húsnæðis hentar þér. Þegar þú leitar þér að húsnæði getur þú athugað húsnæðisauglýsingar.

Ef þú ert að leita þér að leiguhúsnæði geturðu haft samband við fasteignafyrirtæki í þeim bæ sem þý hyggst flytja til í Svíþjóð. Þú getur leitað að „fastighetsbolag“ eða „bostadsföretag“ til að finna upplýsingar.

Ef þú vilt kaupa hús eða íbúð (búseturétt, bostadsrätt) í Svíþjóð getur þú haft samband við fasteignamiðlara (fastighetsmäklare) til að fá upplýsingar. Ef þú vilt kaupa húsnæði í Svíþjóð skaltu hafa samband við bankann þinn til að fá upplýsingar um þær lánaleiðir sem standa til boða.

Ef þú ætlar að selja húsnæði í landinu sem flutt er frá þarftu að hafa í huga að tekjur af sölu fasteigna eru skattlagðar í Svíþjóð. Ef salan fer fram fyrir flutninginn eru tekjurnar af henni skattlagðar samkvæmt sænskum skattareglum. Ef þú selur eign í landinu sem þú flytur frá áður en þú skráir þig í þjóðskrá í Svíþjóð er salan ekki skattlögð í Svíþjóð.

Búslóðarflutningur til Svíþjóðar

Ef þú flytur frá ESB-landi til Svíþjóðar er þér frjálst að taka búslóðina með þér. Þó þarftu að huga að sérstökum reglum sem gilda um innflutning á áfengi og sígarettum. Ef þú flytur inn meira en tollfrelsismörk leyfa þarftu að hafa samband við tollstjóra (Tullverket).

Þeir sem flytja frá Íslandi og Noregi skulu hafa samband við Tullverket til að fá nánari upplýsingar.

Gæludýr til Svíþjóðar

Ef flytja á hund eða kött með til Svíþjóðar þarf að kynna sér reglur um flutning dýra til landsins.

Í Svíþjóð verða allir hundaeigendur sem hafa fasta búsetu í landinu að skrá sig og hundinn í miðlæga skrá yfir hunda hjá Jordbruksverket. Þú þarft einnig að kaupa hundaábyrgðartryggingu sem á við ef hundur veldur tjóni á fólki eða hlutum.

Tryggingar í Svíþjóð

Sumar tryggingar eru lögbundnar í Svíþjóð. Trygging getur veitt þér vernd ef eitthvað óvænt kemur upp á. Í gegnum tryggingar er hægt að fá skaðabætur fyrir hluti sem skemmast eða er stolið. Tryggingafélagið þitt gefur veitt þér ráðgjöf, t.d. ef það hefur verið brotist inn hjá þér og þú veist ekki hvað þú átt að gera.

Þú getur keypt tryggingar fyrir reiðhjól, farsíma, bíla, hunda og ýmislegt annað.

Bifreið til Svíþjóðar

Meginreglan er sú að bifreið á að vera skráð í búsetulandi eiganda. Ef þú tekur með þér bifreið frá Danmörku, Finnlandi, Íslandi eða Noregi þegar þú flytur til Svíþjóðar þarftu að skrá bifreiðina í Svíþjóð.

Ökuskírteini í Svíþjóð

Gild ökuskírteini sem gefin er út í Danmörku, Finnlandi, Noregi eða á Íslandi gilda einnig í Svíþjóð. Þú getur skipt ökuskírteininu þínu út fyrir sænskt ökuskírteini ef þú hyggst búa í Svíþjóð í lengri tíma.

Skólar og leikskólar í Svíþjóð

Sveitarfélög í Svíþjóð reka skóla og leikskóla. Hafðu samband við sveitarfélagið í Svíþjóð sem þú hyggst flytja til til þess að fá nánari upplýsingar um leikskóla og skólagöngu og hvernig þú skráir þig á biðlista fyrir dagvistunarplássi.

Kosningaréttur í Svíþjóð

Þegar þú hefur hefur skráð þig í þjóðskrá í Svíþjóð öðlast þú kosningarétt í sveitar- og bæjarstjórnarkosningum. Ef þú ert ríkisborgari lands utan ESB/EES færðu kosningarétt eftir að hafa búið í Svíþjóð í þrjú ár.

Ef þú ert ríkisborgari í ESB-ríki og býrð í Svíþjóð getur þú valið um að greiða atkvæði í greiða atkvæði í kosningum til Evrópuþingsins í Svíþjóð eða landi ríkisfangs þíns. Ef þú vilt greiða atkvæði í landi ríkisfangs þíns þarftu að skrá þig á kjörskrá kosningayfirvöldum í heimalandinu.

Þú þarft að vera sænskur ríkisborgari til að kjósa í þingkosningunum í Svíþjóð.

Atvinnu- og dvalarleyfi í Svíþjóð

Ef þú ert norrænn ríkisborgari er þér frjálst að flytja til Svíþjóðar, dvelja þar og starfa. Þú þarft hvorki vegabréfsáritun, atvinnuleyfi né dvalarleyfi.

Ef þú ert ríkisborgari lands innan ESB/EES er þér frjálst að ferðast til Svíþjóðar og dveljast þar í allt að þrjá mánuði. Ef þú hyggst dvelja lengur í Svíþjóð þarftu að skrá lögheimili þitt þar í landi.

Þeir sem flytja til Svíþjóðar frá landi utan ESB/EES þurfa að sækja um dvalarleyfi. Meginreglan er sú að sótt er um dvalarleyfið og það fengið áður en flutt er til Svíþjóðar.

Ef þú ert með dvalar- eða atvinnuleyfi í Danmörku, Finnlandi, á Íslandi eða í Noregi gildir það ekki í Svíþjóð. Hafðu samband við útlendingastofnun í heimalandi þínu áður en þú sækir um atvinnu- eða dvalarleyfi í Svíþjóð til að fá upplýsingar um hvernig það hefur áhrif á stöðu þína í heimalandinu.

Það sem þarf að gera í heimalandi áður en flutt er

Ef þú hyggst flytja frá einu Norðurlandanna til Svíþjóðar eru nokkrir hlutir sem þú þarft að gera áður en þú ferðast til Svíþjóðar.

Á eftirfarandi tenglum má finna upplýsingar um það sem þarf að hafa í huga þegar flutt er frá Danmörku, Finnlandi, Íslandi, Noregi, Svíþjóð, Færeyjum eða Álandseyjum til annars norræns lands.

Spurning til Info Norden

Ef þú ert með spurningu eða ef þú hefur rekist á hindrun í norrænu landi skaltu fylla út eyðublað okkar.

ATH: Ef spurningin þín varðar afgreiðslu tiltekins máls eða umsóknar eða annarra persónulegra mála skaltu hafa samband við viðkomandi yfirvald.

Info Norden er upplýsingaþjónusta Norrænu ráðherranefndarinnar. Við gefum upplýsingar til fólks sem vill flytja, vinna, stunda nám, leita styrkjum eða hefja rekstur í öðru norrænu landi.
Leitaðu að skrifstofu Info Norden hérna