Nám í Finnlandi

Suomeen opiskelemaan lähtevän muistilista
Hér eru ýmiss konar upplýsingar sem komið geta að notum ef þú hyggur á eða ert um það bil að hefja nám í Finnlandi. Upplýsingarnar nýtast einnig sem tékklisti fyrir háskólanema í Finnlandi.

Þessi síða vísar þér áfram á upplýsingar um menntakerfið í Finnlandi, umsóknarferli í háskóla, húsnæðismál, fjármögnun náms og skattlagningu, einkunnaskala og mat á fyrri prófgráðum, starfsþjálfun, heilbrigðisþjónustu og almannatryggingar háskólanema svo og stúdentakort og stúdentaafslætti.

Einnig er hægt að skoða síðuna Til minnis þegar flutt er til Finnlands, en þar eru almennar ráðleggingar varðandi búferlaflutninga til Finnlands.

Menntun

Finnska menntakerfið samanstendur af leikskólastigi, forskóla- og grunnskólastigi, framhaldsskólastigi og háskólastigi auk fullorðinsfræðslu, þar sem stunda má nám á öllum skólastigum.

Mismunandi skólastig

Nánari upplýsingar um mismunandi skólastig í Finnlandi og umsóknarferli:

Fullorðinsfræðsla

Í Finnlandi er einnig hægt að stunda nám ætlað fullorðnum í lýðskólum, sumarháskólum, íþróttanámsmiðstöðvum og símenntunarmiðstöðvum 

Grunnnám í listum

Grunnnám í listum er listnám utan hins almenna skólakerfis sem fyrst og fremst er ætlað börnum og ungmennum. Grunnnám í listum fer fram í tónlistarskólum, myndlistarskólum, dansskólum, handavinnuskólum og fleiri stofnunum. 

Tungumálakennsla

Hér eru upplýsingar um námskeið í finnsku og sænsku.

Einkunnaskalar

Upplýsingar um einkunnaskala sem notast er við í Finnlandi og samanburð við einkunnaskala annarra norrænna landa má finna á síðunni Einkunnagjöf í Finnlandi.

Húsnæðismál

Upplýsingar um húsnæði námsmanna eru á síðunni Stúdentaíbúðir í Finnlandi. Almennar upplýsingar um búsetu í Finnlandi eru á síðunni Búseta í Finnlandi. 

Húsnæðisstyrk færðu yfirleitt frá sama landi og þú færð greiddan námsstyrk frá, sé um slíkan styrk að ræða. Kynntu þér réttindi þín hjá viðeigandi stofnun í brottfararlandi þínu. Ef þú þiggur ekki húsnæðisstyrk sem hluta af námsstyrk og heyrir undir finnska almannatryggingakerfið kanntu að eiga rétt á almennum húsnæðisstyrk í Finnlandi.

Fjármögnun náms og skattlagning

Á síðunni Námsstyrkur í Finnlandi er sagt frá því hvernig ríkisborgarar annarra Norðurlanda geta fjármagnað nám í Finnlandi. Þar er einnig sagt frá finnskum námsstyrk og máltíðastyrk.

Hyggist þú vinna með náminu skaltu kynna þér efni síðunnar Almannatryggingar þegar komið er til starfa í Finnlandi.

Upplýsingar um skattlagningu námsfólks eru á síðunni Skattlagning námsmanna í Finnlandi.

Starfsþjálfun

Hyggist þú sækja starfsþjálfun í Finnlandi er best að hafa fyrst samband við sína menntastofnun. Hægt er að fá pláss í starfsþjálfun gegnum menntastofnanir á háskólastigi á grundvelli samninga sem skólinn sjálfur hefur gert eða í gegnum starfsþjálfunaráætlun Erasmus-verkefnisins.

Einnig er hægt að komast í starfsþjálfun án milliliða. Margir vinnuveitendur auglýsa laus starfsþjálfunarpláss á sama hátt og laus störf á atvinnusíðum TE-þjónustunnar, sem er vinnumálaskrifstofa. Einnig er hægt að hafa beint samband við vinnustaði og spyrjast fyrir um starfsþjálfun. Auk þess er hægt að komast í starfsþjálfun gegnum ýmis alþjóðleg stúdentasamtök. Finnsk fræðsluyfirvöld útvega finnskunemum í erlendum háskólum starfsþjálfunarpláss í Finnlandi undir yfirskriftinni „Suomea Suomessa“ (Finnska í Finnlandi).

Laus pláss í starfsþjálfun og ábendingar um tilhögun starfsþjálfunar má einnig finna á heimasíðu Aarresaari, atvinnumiðlunar háskólafólks.

Almannatryggingar starfsnema

Starfsnemi sem flytur til Finnlands frá öðru norrænu landi heyrir almennt undir almannatryggingakerfi síns fasta búsetulands. Fari mánaðarlaun starfsnema yfir tiltekið lágmarksviðmið er þó litið á viðkomandi sem launamann.

Nánari upplýsingar eru á síðunni um almannatryggingar þegar komið er til starfa í Finnlandi.

Heilbrigðisþjónusta og almannatryggingar

Komir þú til náms í Finnlandi frá öðru norrænu landi er yfirleitt litið svo á að þú hafir tímabundna dvöl í Finnlandi. Þá heldur þú almannatryggingum þínum í brottfararlandinu. Nánari upplýsingar á vefsvæði almannatryggingastofnunarinnar í Finnlandi (Kela).

Veikist þú á námstíma áttu rétt á heilsugæsluþjónustu námsmanna í boði þess sveitarfélags sem nám er stundað í, eða annarrar stofnunar með umboði sveitarfélagsins, óháð búsetu. Nánari upplýsingar eru á síðunni Veikindi á námstíma í Finnlandi.

Viðurkenning á prófgráðum

Með viðurkenningu á prófgráðu er annarsvegar átt við inntöku í nám á grundvelli prófgráðu sem lokið var í öðru landi og hins vegar mat á námseiningum frá öðru landi til náms sem ljúka skal í Finnlandi. Nánari upplýsingar um mat á prófgráðum eru á síðunni Að fá prófgráður frá öðrum löndum metnar og viðurkenndar í Finnlandi

Taktu einnig eftir því að í vissum starfsgreinum er krafist sérstakra starfsréttinda auk prófgráðu. Ef vilt starfa í öðru landi að loknu námi í Finnlandi, innan greinar þar sem sérstakra starfsréttinda er krafist, er gott að hafa það í huga meðan á náminu stendur.

Stúdentakort, afslættir og félög

Erlend stúdentakort eru alla jafna ekki tekin gild í Finnlandi. Hið alþjóðlega ISIC-kort veitir þó einhver fríðindi. Finnskt stúdentakort færðu hjá finnska háskólanum þínum eða nemendafélagi skólans. 

Námsmannaafslættir

Stúdentakort flestra nemendafélaga veita fríðindi sem hægt er að kynna sér á þjónustuvefnum Frank.

Með því að framvísa finnsku stúdentakorti færð þú máltíðir á afsláttarverði í stúdentamötuneytum sem styrkt eru af Kela.

Nemendafélög

Nemendafélög eru starfandi í öllum finnskum skólum á háskólastigi. Öllum sem stunda grunn- eða meistaranám við finnskan háskóla er skylt að eiga aðild að nemendafélagi og greiða því félagsgjald. Doktorsnemum er í sjálfsvald sett að skrá sig í nemendafélag. Tengiliðaupplýsingar nemendafélaga í háskólum eru á vefsvæði sambands nemendafélaga háskólanema í Finnlandi  (Suomen ylioppilaskuntien liitto eða SYL).

Aðild að nemendafélagi er valfrjáls fyrir nemendur iðnháskóla. Tengiliðaupplýsingar nemendafélaga iðnháskólanna eru á vefsvæði sambands nemendafélaga iðnháskóla (Suomen opiskelijakuntien liitto eða Samok).

Nánari upplýsingar

Hafið samband við yfirvöld
Spurning til Info Norden

Ef þú ert með spurningu skaltu fylla út eyðublaðið hérna:

ATH: Ef spurningin þín varðar afgreiðslu tiltekins máls eða umsóknar eða annarra persónulegra mála skaltu hafa samband við viðkomandi yfirvald.

Info Norden er upplýsingaþjónusta Norrænu ráðherranefndarinnar. Við gefum upplýsingar til fólks sem vill flytja, vinna, stunda nám, leita styrkjum eða hefja rekstur í öðru norrænu landi.
Leitaðu að skrifstofu Info Norden hérna