Námsstyrkir í Noregi

Student
Photographer
Photo by Surface on Unsplash
Hér eru gefnar upplýsingar um hverjir eiga rétt á námslánum og -styrkjum í Noregi, hvernig sótt er um þá, hvaða menntun er styrkhæf og hversu háar upphæðirnar eru.

Komir þú til Noregs í þeim tilgangi að stunda nám skaltu byrja á því að kanna hvort þú getið fengið námslán eða styrk frá heimalandinu. Yfirleitt er hægt að taka námslán eða -styrk með sér frá heimalandinu til að sækja sér menntun í öðru norrænu landi. Ef þú getur ekki fengið námslán eða styrk í heimalandinu geturðu kannað hvort þú uppfyllir kröfur til að fá námslán eða styrk í Noregi.Ef þú uppfyllir norskar kröfur og átt rétt á námsláni eða námsstyrk frá Lånekassen geturðu fengið lán eða styrk til að stunda nám í framhaldsskóla, háskóla eða lýðháskóla. 

Átt þú rétt á námsláni eða námsstyrk frá Noregi?

Meginreglan er sú að til þess að fá námslán eða námsstyrk frá norska lánasjóðnum (Lånekassen) þarftu að vera norskur ríkisborgari og hafa fengið aðgang að viðurkenndu námi. Í sumum tilfellum geta þó einstaklingar með erlend ríkisfang fengið námslán eða námsstyrk í Noregi. Þessi réttur fer eftir tengslum viðkomandi við Noreg og ástæðum fyrir dvöl í landinu. Þú getur til að mynda átt rétt á námsláni eða námsstyrk frá Noregi ef þú uppfyllir kröfuna um að hafa unnið og greitt skatta í Noregi, um hjúskap eða önnur ættartengsl.

Hvernig og hve mikla fjárhagsaðstoð er hægt að fá?

Í Noregi skiptist fjárhagsaðstoð fyrir námsmenn í lán og styrki. Greint er á milli lána og styrkja fyrir framhaldsskólanám og fyrir æðri menntun við háskóla.

Æðri menntun

Ef um æðri menntun er að ræða er grunnupphæðin greidd í formi láns. Allt að 40% upphæðarinnar geta breyst í styrk að loknu námi eða loknu prófi. Tekjur og eignir hafa einnig áhrif á hve stórt hlutfall lánsins breytist í styrk. 

Lán eða styrkir vegna annars náms en framhaldsskólanáms eru veittir í alls átta ár að hámarki. Þú getur ekki fengið lán eða styrki í meira en átta ár þrátt fyrir að tafir verði í náminu. Hægt er að veita undanþágur ef tafirnar eru af völdum veikinda, fötlunar eða fæðingar/ættleiðingar.

Framhaldsskólanám 

Allir sem stunda framhaldsskólanám geta fengið námsstyrk frá Lånekassen. Þú þarft að hafa fengið skólavist áður en þú sækir um. Flestir fá aðeins styrk fyrir námsgögnum en sumir fá styrk vegna búsetu og tekjutengdan styrk.

Önnur menntun

Í vissum tilfellum eru einnig veitt námslán og námsstyrkir fyrir fagskóla og lýðháskóla.

Hvernig er sótt um námslán og námsstyrki í Noregi?

Allir sem sækja um námslán gera það rafrænt á vef Lånekassen. Athugaðu að þú þarft að geta skráð þig inn með rafrænum skilríkjum og geta sýnt fram á að þú hafir fengið inngöngu í viðurkennt nám og tengingu þína við Noreg. 

Umsóknarfrestir um lán eru 15. nóvember fyrir haustönn og 15. mars fyrir vorönn.

Hvað gerist ef veikindi koma upp eða þungun eða ef þú átt börn?

Ef þú eignast barn á meðan þú ert í námi getur stærri hluti lánsins orðið að styrk.

Ef þú veikist í námi og getur ekki sótt tíma geturðu fengið láninu breytt í styrk. Almennum styrkjum er þá breytt í veikindastyrk. 

Hvernig er lánið greitt til baka?

Um sjö mánuðum eftir að þú lýkur námi þarftu að byrja að greiða niður lánið. Þá færðu greiðsluáætlun og yfirlit yfir vexti af láninu. Allir fá breytilega vexti í upphafi og þeir eru þeir sömu fyrir alla. Hægt er að sækja um að fá fasta vexti.

Ef þú getur ekki greitt af láninu getur þú sótt um greiðslufrestun. Allir geta frestað greiðslum allt að 36 sinnum á greiðslutímanum, sem samsvarar þremur árum.

Er hægt að fá námslán eða námsstyrk vegna náms í öðru norrænu landi?

Þú getur fengið lán til háskólanáms en einnig framhaldsskólanáms erlendis en þá þarf námið að vera fullt starf. Upphæðin fer eftir því hvaða land þú velur, hvernig skóla og hvernig nám. Munur er á kröfum sem gerðar eru vegna náms á Norðurlöndum eða utan Norðurlandanna.

Eru aðrir sjóðir og styrkjakerfi í boði?

Til eru ýmsir sjóðir og styrkjakerfi þar sem hægt er að sækja um styrki. Sjá yfirlit hér að neðan. 

Hver getur veitt þér svar við spurningum?

Hafðu samband við Lånekassen í Noregi.

Hafðu samband við yfirvöld
Spurning til Info Norden

Ef þú ert með spurningu eða ef þú hefur rekist á hindrun í norrænu landi skaltu fylla út eyðublað okkar.

ATH: Ef spurningin þín varðar afgreiðslu tiltekins máls eða umsóknar eða annarra persónulegra mála skaltu hafa samband við viðkomandi yfirvald.

Info Norden er upplýsingaþjónusta Norrænu ráðherranefndarinnar. Við gefum upplýsingar til fólks sem vill flytja, vinna, stunda nám, leita styrkjum eða hefja rekstur í öðru norrænu landi.
Leitaðu að skrifstofu Info Norden hérna