Námsstyrkur í Finnlandi

Opintotuki Suomessa
Upplýsingar um möguleika ríkisborgara annarra Norðurlanda til að fjármagna nám í Finnlandi. Einnig er sagt frá finnska námsstyrkjakerfinu. Að lokum er fjallað um máltíðastyrk sem tryggir nemendum í Finnlandi máltíðir á hagstæðu verði.

Finnskur námsstyrkur til ríkisborgara annarra landa

Ríkisborgarar annarra Norðurlanda sem koma til náms í Finnlandi fá yfirleitt áframhaldandi námsstyrk frá eigin heimalandi.

Ríkisborgarar annarra landa geta fengið námsstyrk ef þeir hafa fasta búsetu í Finnlandi og dvelja þar af öðrum orsökum en vegna náms (til dæmis vegna atvinnu, fjölskyldutengsla eða eru að flytja aftur heim eftir dvöl erlendis). Einstaklingur sem fékk inngöngu í finnska menntastofnun áður en hann var skráður til búsetu í Finnlandi og hefur enga ástæðu aðra en námið til að dvelja í landinu getur ekki fengið námsstyrk frá finnska ríkinu.

Máltíðastyrkur

Allt námsfólk í Finnlandi á rétt á máltíðastyrk. Styrknum er ætlað að halda verðlagi í mötuneytum stúdenta hagstæðu. Til að fá afsláttarverð í mötuneytunum þarf að sýna stúdentakort eða máltíðastyrkjakort almannatryggingastofnunar.

Námsfólk í Finnlandi á rétt á máltíðastyrknum þótt það þiggi námsstyrk frá öðrum löndum.

Námsstyrkur í Finnlandi

Námsstyrkur í Finnlandi er veittur nemendum sem stunda fullt nám að loknu grunnskólanámi. Í námsstyrk felst:

  • framfærslustyrkur og
  • námslán með ríkisábyrgð.

Sótt er um námsstyrk í Finnlandi hjá Kela, finnsku almannatryggingastofnuninni.

Frá og með 1. ágúst 2017 getur námsfólk sem þiggur námsstyrk frá finnska ríkinu fengið húsnæðisstyrk til viðbótar námsstyrknum. Í vissum tilvikum á námsfólk rétt á sérstökum húsnæðisbótum auk námsstyrks. Nánari upplýsingar veitir Kela.

Skilyrði fyrir veitingu námsstyrks

Almenn skilyrði fyrir veitingu námsstyrks eru:

  • að menntastofnun hafi veitt nemandanum inngöngu
  • að viðkomandi stundi fullt nám
  • að námsframvinda sé fullnægjandi og
  • að nemandi þurfi á fjárhagsaðstoð að halda.

Styrkhæfir mánuðir skólaársins eru frá og með september til og með maí. Sækja þarf sérstaklega um námsstyrk vegna sumarnáms.

Tekjutakmörk námsfólks

Viss tekjutakmörk gilda um námsstyrkinn; aðeins er leyfilegt að hafa tekjur upp að vissu marki auk styrksins. Þetta þurfa þeir nemendur að hafa í huga sem vinna samhliða námi. Fari tekjur yfir tiltekin mörk þarf að endurgreiða hluta námsstyrksins.

Námsstyrkur frá Finnlandi til annarra landa

Að vissum skilyrðum uppfylltum getur nemandi fengið finnskan námsstyrk greiddan vegna náms sem stundað er að hluta eða öllu leyti við menntastofnun erlendis. Þá þarf nám eða starfsnám sem stundað er erlendis að tengjast því námi sem viðkomandi hefur stundað í Finnlandi, eða að samsvara styrkhæfu námi í Finnlandi. Námsfólk erlendis getur fengið sérstakar húsnæðisbætur auk námsstyrksins, en það gildir ekki alltaf um námsfólk í Finnlandi.

Meginreglan er að aðeins finnskir ríkisborgarar fái námsstyrk vegna náms sem að öllu leyti er stundað í öðru landi en Finnlandi. Í vissum tilvikum eru þó gerðar undantekningar á þessu fyrir ríkisborgara annarra landa.

Nánari upplýsingar

Spurning til Info Norden

Ef þú ert með spurningu eða ef þú hefur rekist á hindrun í norrænu landi skaltu fylla út eyðublað okkar.

ATH: Ef spurningin þín varðar afgreiðslu tiltekins máls eða umsóknar eða annarra persónulegra mála skaltu hafa samband við viðkomandi yfirvald.

Info Norden er upplýsingaþjónusta Norrænu ráðherranefndarinnar. Við gefum upplýsingar til fólks sem vill flytja, vinna, stunda nám, leita styrkjum eða hefja rekstur í öðru norrænu landi.
Leitaðu að skrifstofu Info Norden hérna