Norskar atvinnuleysisbætur

Norske dagpenger ved arbeidsledighet
Hér geturðu lesið um rétt til bóta ef þú ert ekki í vinnu eða ert í launalausu leyfi í Noregi.

Atvinnuleysisbætur eiga að vega upp tekjutap vegna atvinnumissis. Ef þú missir vinnuna áttu rétt á atvinnuleysisbótum. Ef þú hefur búið í einu norrænu landi en starfað í öðru eða ef þú flytur milli Norðurlandanna þarftu að kynna þér vandlega hvaða reglur gilda.

Í Noregi hefur NAV (vinnumála- og velferðarstofnunin) umsjón með atvinnuleysisbótum.

Atvinnuleysi og aðild að norskum almannatryggingum

Í Noregi nýturðu sjálfkrafa atvinnuleysistryggingar gegnum almannatryggingakerfið þegar þú býrð og hefur störf þar í landi. Annars staðar á Norðurlöndum þarftu að skrá þig í atvinnuleysistryggingasjóð (a-kasse) til að tryggja þig við atvinnuleysi.

Í Noregi er ekki krafist sérstakrar atvinnuleysistryggingar eins og tíðkast víða í EES-löndunum. Þetta þýðir að öll starfstímabil í öðrum EES-löndum sem þú getur sýnt fram á eru tekin með til að uppfylla kröfur um lágmarkstekjur og við útreikninga á atvinnuleysisbótum.

Í hvaða landi áttu að sækja um atvinnuleysisbætur?

Meginreglan er sú að þú sækir um atvinnuleysisbætur í búsetulandinu. Ef þú hefur unnið víðar en í einu landi áttu að hafa samband við almannatryggingar í búsetulandinu til að kanna bótaréttindi þín.

Ef þú býrð í öðru EES-landi geturðu við ákveðnar aðstæður fengið norskar atvinnuleysisbætur á meðan þú dvelst í öðru landi í atvinnuleit.

Ef þú hefur áunnið þér bótarétt og hyggst flytja til annars EES-lands geturðu tekið réttindin með þér. Þá sækirðu um PD U1-vottorð frá NAV. PD U1 sýnir hvað þú hefur áunnið þér mikinn rétt á atvinnuleysisbótum í Noregi. PD U1-vottorðið frá Noregi er eingöngu notað þegar sótt er um atvinnuleysistryggingar í öðru EES-landi. Ef þú hefur engin áform um að sækja um atvinnuleysisbætur eftir að hafa starfað í Noregi þarftu ekki að sækja um PD U1-vottorð.

Þá geturðu leitað að vinnu í Noregi á meðan þú þiggur atvinnuleysisbætur frá öðru EES-landi í þrjá (eða sex) mánuði ef þú ert með PD U2-vottorð frá viðkomandi EES-landi.

Starfs- og tryggingatímabil á síðustu þremur almanaksárum í öðru EES-landi geta við ákveðin skilyrði gefið tilefni til bótaréttar í Noregi ef framvísað er PD U1-vottorði frá hinu EES-landinu.

Áttu rétt á norskum atvinnuleysisbótum?

Þú getur áunnið þér rétt á norskum atvinnuleysisbótum með því að uppfylla ýmis skilyrði. Í fyrsta lagi þarf starfshlutfallið að hafa minnkað um að minnsta kosti 50% og þú þarft að hafa haft ákveðnar lágmarkstekjur. Þú þarft að hafa skráð þig í atvinnuleit og skila svonefndu „meldekort“ til NAV á 14 daga fresti. Meginreglan er sú að þú eigir að búa og dvelja í Noregi en þú getur tekið áunnin réttindi með þér úr landi. Nánari upplýsingar um þetta neðar á síðunni.

Meginreglan er sú að námsfólk og nemar eiga ekki rétt á atvinnuleysisbótum.

Hvernig sækirðu um atvinnuleysisbætur í Noregi?

Þú þarft að skrá þig í atvinnuleit á nav.no og að því loknu geturðu sótt um bætur. Mikilvægt er að NAV berist öll nauðsynleg gögn.

Ef þú hefur unnið og verið atvinnuleysistryggð/ur í öðru EES-landi er hægt í ákveðnum tilvikum að leggja tryggingatímabilin í löndunum saman. Þá þarftu að framvísa PD U1-vottorði frá landinu sem þú starfaðir í.

Ef þú átt sök á atvinnumissinum, ef þér hefur til dæmis verið sagt upp störfum, getur biðtími þinn lengst um 12 vikur. Engu að síður þarftu að hefja atvinnuleit þegar á fyrsta degi atvinnuleysis vegna þess að tímabilið hefst á þeim degi sem þú sækir um.

Hvernig þú getur farið til útlanda í atvinnuleit á norskum atvinnuleysisbótum?

Ef þú uppfyllir ákveðin skilyrði geturðu haldið atvinnuleysisbótum frá Noregi í allt að þrjá mánuði á meðan þú leitar að vinnu í öðru EES-landi. Það gerirðu með því að sækja um PD U2-vottorð hjá NAV. PD U2 er staðfesting þess að þú hafir leyfi til þess að taka með þér norskar atvinnuleysisbætur til annars EES-lands í allt að þrjá mánuði.

Atvinnuleysisbætur í launalausu leyfi

Ef þú ert í launalausu leyfi frá vinnu geturðu átt rétt á atvinnuleysisbótum.  Launalaust leyfi jafngildir ekki uppsögn. Launalaust leyfi þýðir að þú þarft ekki að mæta í vinnu og að vinnustaðurinn þarf ekki að greiða þér laun. Ráðningarsamband starfsmanns og atvinnurekanda er óbreytt og skilyrði er að leyfið sé tímabundið. Ef orlofið er ekki tímabundið ber að segja starfsmanninum upp störfum.

Launalaust orlof getur átt sér gildar ástæður sem varða vinnustaðinn en ekki starfsmanninn.

Þú getur áunnið þér rétt á atvinnuleysisbótum í launalausu leyfi með því að uppfylla þau almennu skilyrði sem greint er frá hér að ofan. Auk þess þurfa ástæður orlofsins að vera verkefnaskortur eða önnur atriði sem vinnustaðurinn ræður ekki við.

Ef þú ert í launalausu orlofi þarftu að afhenda NAV tilhlýðileg gögn þar að lútandi.

Hvar geturðu fengið svör við spurningum þínum?

Hafðu samband við NAV ef þú ert með spurningar um bætur þegar þú ert atvinnulaus eða í launalausu leyfi.

Hafðu samband við yfirvöld
Spurning til Info Norden

Ef þú ert með spurningu eða ef þú hefur rekist á hindrun í norrænu landi skaltu fylla út eyðublað okkar.

ATH: Ef spurningin þín varðar afgreiðslu tiltekins máls eða umsóknar eða annarra persónulegra mála skaltu hafa samband við viðkomandi yfirvald.

Info Norden er upplýsingaþjónusta Norrænu ráðherranefndarinnar. Við gefum upplýsingar til fólks sem vill flytja, vinna, stunda nám, leita styrkjum eða hefja rekstur í öðru norrænu landi.
Leitaðu að skrifstofu Info Norden hérna