Norskar fæðingarorlofsgreiðslur

Playing ball
Photographer
Mads Schmidt Rasmussen / norden.org
Hér eru gefnar upplýsingar um hverjir eiga rétt á fæðingarorlofi og fæðingarorlofsgreiðslum eða eingreiðslu í Noregi, hvernig sótt er um fæðingarorlofsgreiðslur, hversu lengi þú getur fengið fæðingarorlofsgreiðslur og reglur um að fá fæðingarorlof greitt til annars lands.

Fæðingarorlof gefur foreldrum tækifæri til að fá frí frá vinnu eða námi til að annast barn. Þú gætir átt rétt á fæðingarorlofsgreiðslum eða eingreiðslu í tengslum við orlofið. Meginreglan er sú að þú vinnur þér inn rétt á norskum fæðingarorlofsgreiðslum ef þú býrð og starfar í Noregi.  Ef þú býrð í Noregi en starfar annars staðar á Norðurlöndum er meginreglan sú að þú átt rétt á fæðingarorlofsgreiðslum í hinu landinu.

Áttu rétt á orlofi í tengslum við meðgöngu, fæðingu og ættleiðingu?

Foreldrar eiga rétt á orlofi í samtals 12 mánuði í tengslum við og eftir fæðingu barns. Þessir tólf mánuðir ná meðal annars yfir rétt móður á allt að tólf vikna orlofi á meðgöngu og sex vikna orlofi eftir fæðingu.

Þú sækir um orlof til atvinnurekandans í síðasta lagi þremur mánuðum áður en taka orlofs hefst.

Til viðbótar við fyrstu tólf mánuðina á hvort foreldri um sig rétt á eins árs orlofi vegna hverrar fæðingar. Orlofið skal tekið í beinu framhaldi af fyrsta árinu. Sjái annað foreldrið alfarið um umönnun barnsins á það foreldri rétt á báðum árum. Aðrir sem annast barnið geta einnig átt rétt á orlofi.

Við ættleiðingu eða töku barns í varanlegt fóstur eiga foreldrar sama rétt til orlofs frá þeim degi sem þeir taka við umönnun barnsins. Réttur til orlofs á ekki við þegar um ættleiðingu stjúpbarns er að ræða eða ef barnið er eldra en 15 ára.

Ef upp kemur ágreiningur um orlofsrétt er honum vísað til úrskurðarnefndar.

Flestir sem eiga rétt á fæðingarorlofi í Noregi eiga einnig rétt á fæðingarorlofsgreiðslum sem eiga að tryggja tekjur meðan á orlofinu stendur. Þú þarft að uppfylla nokkur skilyrði til þess að öðlast rétt á greiðslum. Nánar er fjallað um þau hér að neðan. Þú getur einnig átt rétt á ólaunuðu eða launuðu orlofi á hluta meðgöngu, gerist þess þörf.

Auk þess á barnshafandi kona rétt á fríi frá vinnu í tengslum við meðgöngueftirlit og skoðanir. 

    Fæðingarorlofsgreiðslur

    Réttur á fæðingarorlofsgreiðslum í fæðingarorlofi er lögfestur í lögum um almannatryggingar. Þú sækir um fæðingarorlofsgreiðslur hjá NAV (vinnumála- og velferðarstofnuninni) sem sér um fæðingarorlofsgreiðslur í Noregi.

    Hver á rétt á greiðslum í fæðingarorlofi?

    Flestir sem starfa í Noregi eiga rétt á fjárhagsaðstoð í tengslum við fæðingu eða ættleiðingu barns. Þú átt rétt á fæðingarorlofsgreiðslum ef þú

    • nýtur norskra almannatrygginga;
    • hefur unnið úti;
    • og hefur haft tekjur með lífeyri í hið minnsta sex af síðustu tíu mánuðum áður en greiðslutímabilið hefst.

    Aðrar greiðslur, til að mynda atvinnuleysisbætur og sjúkradagpeningar, eru metnar til jafns við virka atvinnuþátttöku.

    Ef þú hefur starfað í öðru EES-landi á tímabilinu geturðu bætt þeim tíma við starfstímabil í Noregi. Síðasti vinnustaður þinn áður en taka orlofsins hefst verður þó að vera í Noregi.

    Ef þú ert sjálfstætt starfandi eða atvinnurekandi áttu einnig rétt á fæðingarorlofsgreiðslum.

    Hversu háar eru orlofsgreiðslurnar?

    Eigir þú rétt á fæðingarorlofsgreiðslum er upphæð þeirra yfirleitt miðuð við tekjur sem þú hafðir áður en taka orlofs hófst. Ef þú ert atvinnurekandi eða sjálfstætt starfandi er meginreglan sú að meðallaun síðustu þriggja ára sem gerð hafa verið upp gagnvart skattinum eru lögð til grundvallar útreikningnum. 

    Þú getur fengið fæðingarorlofsgreiðslur í um það bil eitt ár og valið milli tvenns konar tímabila með misháum greiðslum. Lengd fæðingarorlofsgreiðslutímabils fer líka eftir því hvort um er að ræða fæðingu eða ættleiðingu.

     

    Hvernig skiptast fæðingarorlofsgreiðslur milli foreldra?

    Í Noregi er fæðingarorlofsgreiðslutímabilið þrískipt, eitt tímabil sem er ætlað móðurinni (mæðrakvóti), eitt tímabil sem foreldrar geta ráðstafað milli sín (sameiginlegt tímabil) og eitt tímabil sem ætlað er hinu foreldri barnsins (feðrakvóti).

    Móðirin verður að taka orlof síðustu þrjár vikurnar fyrir áætlaðan fæðingardag og fyrstu sex vikurnar eftir fæðingu.

    Óski faðirinn/hin móðirin eftir að nýta hluta af sameiginlega tímabilinu verður móðirin að vera í vinnu, námi eða öðru þess háttar. Engar kröfur eru gerðar um að faðirinn/hin móðirin stundi vinnu eða nám á meðan móðirin tekur orlof af sameiginlega tímabilinu að hluta eða öllu leyti.

    Sem faðirinn eða hin móðirin áttu rétt á fæðingarorlofsgreiðslum ef þú hefur verið með tekjur með lífeyrisréttindum í að minnsta kosti sex af síðustu tíu mánuðum áður en greitt fæðingarorlof hefst en þú átt ekki rétt á feðrakvóta nema móðirin hafi áunnið sér réttindi á fæðingarorlofsgreiðslum og nýti þann rétt sinn.

     

    Er hægt að lengja eða fresta fæðingarorlofsgreiðslutímabili?

    Þú þarft ekki að taka samfellt fæðingarorlofsgreiðslutímabil. Þú getur til dæmis frestað því ef veikindi eða meiðsla verða þess valdandi að þú verður algerlega háð aðstoð við umönnun barnsins eða vegna þess að þú vilt vinna fulla vinnu.

    Einnig er hægt að vinna meðfram fæðingarorlofsgreiðslum ef þess er óskað. Það er kallað þrepaskiptar fæðingarorlofsgreiðslur og gefa þær kost á að lengja fæðingarorlofsgreiðslutímabilið.

    Ef þú ert faðirinn/hin móðirin og óskar eftir því að fresta töku feðrakvótans þarftu að sækja um það. NAV þarf að hafa borist umsóknin í hendur fyrir lokadag sameiginlega tímabilsins. Dagsetninguna er að finna í bréfi sem móðirin fær þegar hún sækir um fæðingarorlofsgreiðslur.

    Þú átt einnig rétt á að taka leyfi á fæðingarorlofsgreiðslutímabilinu eða á meðan þú þiggur fæðingarorlofsgreiðslur. Þá er fæðingarorlofsgreiðslutímabilinu frestað um þann tíma sem leyfið stendur.

    Foreldrar verða að hafa lokið við fæðingarorlofsgreiðslutímabilið áður en barnið verður þriggja ára gamalt.  Ef þú eignast annað barn fellur niður réttur þinn á greiðslum það sem eftir er af fæðingarorlofsgreiðslutímabili vegna eldra barnsins.

    Áttu rétt á öðrum bótum ef þú átt ekki rétt á fæðingarorlofsgreiðslum?

    Ef þú hefur ekki áunnið þér rétt á fæðingarorlofsgreiðslum geturðu átt rétt á eingreiðslu. Þá þarftu að búa í Noregi þegar barnið fæðist eða er ættleitt til þess að eiga rétt á eingreiðslu eða njóta norskra almannatrygginga á annan hátt.

    Hvernig sækir þú um fæðingarorlofsgreiðslur eða eingreiðslu?

    Þú þarft að sækja um fæðingarorlofsgreiðslur hvort sem um er að ræða mæðrakvóta, feðrakvóta eða sameiginlegt tímabil foreldranna. Mikilvægt er að kynna sér dagsetningarnar vel til þess að þú sækir um á réttum tíma. Nánari upplýsingar um umsóknir, afgreiðslutíma og greiðsludaga á nav.no.

    Fæðingarorlofsgreiðslur eru borgaðar út á föstum dagsetningum og dreginn er af þeim skattur.

    Sækja þarf um eingreiðslu í síðasta lagi sex mánuðum eftir fæðingu eða ættleiðingu. Móðirin verður að sækja sjálf um. Eingreiðsla er skattfrjáls upphæð sem hægt er að fá einu sinni og þú færð greidda þegar þú eignast barn.

    Móðirin þarf að leggja við staðfestingu ljósmóður/læknis á áætluðum fæðingardag en það er gert eftir 26. viku meðgöngu.

    Hvaða reglur gilda ef þú flytur til annarra Norðurlanda áður en orlofið hefst eða meðan á því stendur?

    Þú getur yfirleitt flutt með þér áunninn rétt á fæðingarorlofsgreiðslum til annarra Norðurlanda.

    Ef þú ert byrjuð að fá meðgöngu- eða fæðingarorlofsgreiðslur þegar þú ferð til annars ESB/EES-lands heldurðu greiðslunum frá Noregi meðan á dvölinni stendur. Skilyrði er að þú sért ekki í vinnu og að þú uppfyllir önnur skilyrði til að fá fæðingarorlofsgreiðslur.

    Ef þú átt rétt á meðgöngu- eða fæðingarorlofsgreiðslum frá Noregi en greiðslutímabilið er ekki hafið þegar þú ferð til ESB/EES-lands geturðu fengið greiðslurnar frá Noregi meðan á dvölinni stendur. Þó er skilyrði að þú takir ekki vinnu í öðru ESB/EES-landi áður en orlofið hefst og að öðrum reglum um fæðingarorlofsgreiðslur sé fullnægt.

    Hvar geturðu fengið svör við spurningum?

    Hafðu samband við NAV ef spurningar vakna um fæðingarorlofsgreiðslur.

    Hafðu samband við yfirvöld
    Spurning til Info Norden

    Ef þú ert með spurningu eða ef þú hefur rekist á hindrun í norrænu landi skaltu fylla út eyðublað okkar.

    ATH: Ef spurningin þín varðar afgreiðslu tiltekins máls eða umsóknar eða annarra persónulegra mála skaltu hafa samband við viðkomandi yfirvald.

    Info Norden er upplýsingaþjónusta Norrænu ráðherranefndarinnar. Við gefum upplýsingar til fólks sem vill flytja, vinna, stunda nám, leita styrkjum eða hefja rekstur í öðru norrænu landi.
    Leitaðu að skrifstofu Info Norden hérna