For- og grunnskólanám í Finnlandi

Esi- ja perusopetus Suomessa
Upplýsingar um forskóla og grunnskóla í Finnlandi. Í Finnlandi er níu ára grunnskólaskylda, auk forskólanáms í eitt ár.

Börn sem hafa fasta búsetu í Finnlandi eru skólaskyld. Skólaskyldan hefst á því ári sem barnið verður sjö ára og lýkur þegar öllum námsstigum grunnskóla hefur verið lokið eða þegar tíu ár eru liðin frá upphafi skólaskyldu. Árið áður en skólaskylda hefst verður barnið að stunda forskóla.

Forskólanám

Börn sem hafa fasta búsetu í Finnlandi þurfa að stunda forskólanám eða annað sambærilegt nám í eitt ár áður en hin eiginlega skólaskylda hefst. Markmið forskólanámsins er að bæta námsforsendur barna.

Námið fer ýmist fram á finnsku eða sænsku en sænskumælandi forskólar eru þó ekki í öllum sveitarfélögum landsins.

Forskólanámið er án endurgjalds. Börn sem þurfa að ferðast lengra en fimm kílómetra til að sækja forskóla eiga rétt á akstri í skólann án endurgjalds.

Grunnskólanám

Öllum börnum með fasta búsetu í Finnlandi er skylt að ljúka grunnskólanámi. Nám í ríkisreknum finnskum grunnskólum er án endurgjalds.

Grunnskólanámið hefst alla jafna við sjö ára aldur en getur einnig hafist árinu fyrr eða síðar eftir því sem þroski barns veitir ástæðu til. Grunnskólinn varir í níu ár.

Þegar barn kemst á skólaaldur úthlutar búsetusveitarfélagið því plássi í skóla í grennd við heimili þess. Einnig má sækja um í öðrum skólum.

Á hvaða tungumálum er hægt að stunda grunnskólanám?

Grunnskólanám er hægt að stunda á finnsku eða sænsku. Önnur námstungumál geta verið tungumál Rómafólksins, samíska eða táknmál.

Í stærri borgum Finnlands eru alþjóðlegir skólar þar sem kennsla fer að öllu eða einhverju leyti fram á ensku eða öðru erlendu máli. Slíkir skólar eru oft einkareknir og innheimta skólagjöld. Í sumum ríkisreknum grunnskólum eru bekkir þar sem kennt er á ensku.

Aukakennsla í finnsku, sænsku eða eigin móðurmáli

Börn sem hafa flutt til Finnlands frá öðrum löndum geta fengið sérstaka kennslu í finnsku eða sænsku (finnsku/sænsku sem öðru máli), þurfi þau þess með. Nemendur geta einnig fengið sérstaka kennslu í eigin móðurmáli, sé það annað en finnska eða sænska. Nánari upplýsingar hjá viðkomandi skólum og sveitarfélögum.

Skólamáltíðir og akstur í og úr skóla

Grunnskólanemendur eiga rétt á heitri máltíð á skólatíma endurgjaldslaust. Í vissum tilvikum eiga börn rétt á akstri í og úr skóla án endurgjalds.

Spurning til Info Norden

Ef þú ert með spurningu eða ef þú hefur rekist á hindrun í norrænu landi skaltu fylla út eyðublað okkar.

ATH: Ef spurningin þín varðar afgreiðslu tiltekins máls eða umsóknar eða annarra persónulegra mála skaltu hafa samband við viðkomandi yfirvald.

Info Norden er upplýsingaþjónusta Norrænu ráðherranefndarinnar. Við gefum upplýsingar til fólks sem vill flytja, vinna, stunda nám, leita styrkjum eða hefja rekstur í öðru norrænu landi.
Leitaðu að skrifstofu Info Norden hérna