Örorkulífeyrir í Færeyjum

Færøsk førtidspension
Hér má lesa um færeyskan örorkulífeyri.

Einstaklingur með varanlega skerta starfsgetu á rétt á örorkulífeyri.

  Hverjir geta fengið örorkulífeyri í Færeyjum?

  Þú átt rétt til örorkulífeyris ef þú ert á aldrinum 18 til 67 ára og hefur misst a.m.k. helminginn af starfsorku þinni. Forsenda fyrir því að fá örorkulífeyri er að ekki hafi tekist að bæta starfsfærni þína með endurhæfingakerfi (starfsendurhæfingu o.fl.) eða að finna handa þér hæfilegt starf miðað við aðstæður.

  Örorkulífeyrir skiptist í þrjá bótaflokka. Flokkaskiptingin ræðst af örorku, aldri, starfstækifærum og öðrum aðstæðum sem skipta máli.

    Hvaða skilyrði um ríkisfang þarf að uppfylla til að fá færeyskan örorkulífeyri?
    • Þú þarft að vera danskur ríkisborgari eða gift/ur dönskum ríkisborgara eða að hafa verið síðast gift/ur dönskum ríkisborgara.
    • Þú hefur fasta búsetu í Færeyjum eða starfar sem sjómaður á færeysku skipi og
    • hefur haft fasta búsetu í Danmörku, Færeyjum eða á Grænlandi í a.m.k. 3 ár.

    Öll þrjú skilyrði þarf að uppfylla.

    Hægt er að veita undanþágu frá reglunum um ríkisfang ef einstaklingur hefur búið í Færeyjum í a.m.k. 10 ár. Í þeim tilvikum þarf að sækja um undanþágu.

     Hvernig ávinnur þú þér rétt til örorkulífeyris?

     Þú átt rétt á fullum örorkulífeyri í Færeyjum ef þú hefur verið búsett/ur í Danmörku, Færeyjum eða á Grænlandi í a.m.k. 4/5 tímabilsins frá 15 ára aldri til þess dags sem þér er dæmdur örorkulífeyrir. 

     Hafir þú búið skemur í Færeyjum minnkar upphæð lífeyrisgreiðslunnar í hlutfalli við það. Í ríkjasambandi Danmerkur, Færeyja og Grænlands er búsetutíminn talinn saman en það þýðir að þú ávinnur þér rétt til örorkulífeyris í löndum ríkjasambandsins óháð því í hverju landanna þú býrð. 

     Ef Norðurlandasamningurinn um almannatryggingar á við um þig gilda einnig aðrar reglur. Samkvæmt Norðurlandasamningnum um almannatryggingar felst jafnræði Norðurlandabúa í því að einstaklingar sem hafa búið og/eða starfað í öðrum norrænum löndum eiga rétt á lífeyri frá viðkomandi löndum.

       Hvernig er sótt um örorkulífeyri?

       Almannaverkið, félagsmálayfirvöld í Færeyjum, afgreiða umsókn þína um örorkulífeyri. Ef sækja þarf um örorkulífeyri erlendis frá er Almannaverkið tengill milli landanna í umsóknarferlinu.

         Geturðu sótt um uppbót?

         Hægt er að veita sérlega uppbót til viðbótar við örorkulífeyrinn, þar á meðal maka- og umönnunarbætur, persónulega uppbót byggða á þarfamati og uppbót vegna lyfjakostnaðar.

           Hvað þarftu að hafa í huga þegar þú sækir um örorkulífeyri frá fleiri en einu landi?

           Ef þú sækir um örorkulífeyri frá tveimur löndum þarftu að hafa í huga að löggjöf um örorkulífeyri er mismunandi í löndunum og að starfsfærni getur verið metin á mismunandi hátt.

           Er hægt að taka færeyskan örorkulífeyri með sér til annars norræns lands?

           Þú getur sótt um að taka örorkulífeyrinn með þér ef þú flytur til annars lands eftir að þér er dæmdur örorkulífeyrir. Þá hefurðu samband við Almannaverkið sem sendir umsóknina áfram til færeyska félagsmálaráðuneytisins sem er Almannamálaráðið. 

           Norðurlandasamningurinn um almannatryggingar kveður á um að greiða megi lífeyri til norrænna ríkisborgara með fasta búsetu í EES-landi (ESB- og EFTA-landi). Almennar reglur um ríkisfang og búsetu eiga því ekki við í þeim tilvikum.

           Í ríkjasambandi Danmerkur, Færeyja og Grænlands eru örorkulífeyrisgreiðslur svo mismunandi að þú verður að sækja aftur um í nýju landi þegar þú flytur á milli landa. Eigi búferlaflutningarnir sér stað innan ríkjasambandsins gildir löggjöf þess lands sem þú flytur til.

            Máttu vinna þegar þú færð örorkulífeyri?

            Þú mátt vinna samtímis því að þú færð örorkulífeyri? Lífeyrisgreiðslur eru skertar ef tekjur fara yfir frítekjumörk. . Engu að síður þarftu að hafa í huga að örorka þín getur verið endurmetin.

              Hvernig er örorkulífeyrir greiddur við andlát?

              Réttur til örorkulífeyris fellur úr gildi í lok þess mánaðar sem örorkulífeyrisþegi deyr. Ef sambýlingur lífeyrisþega er einnig örorku- eða ellilífeyrisþegi halda greiðslur á örorkulífeyri hins látna áfram í allt að 3 mánuði eftir andlát hans.

               Nánari upplýsingar um reglurnar um örorkulífeyri veita færeysk félagsmálayfirvöld, Almannaverkið.

               Þú getur fræðst nánar um sérreglur í sambandi við Norðurlandasamninginn um almannatryggingar með því að hafa samband við færeyska félagsmálaráðuneytið, Almannamálaráðið.

               Samband við yfirvöld
               Spurning til Info Norden

               Ef þú ert með spurningu skaltu fylla út eyðublaðið hérna:

               ATH: Ef spurningin þín varðar afgreiðslu tiltekins máls eða umsóknar eða annarra persónulegra mála skaltu hafa samband við viðkomandi yfirvald.

               Info Norden er upplýsingaþjónusta Norrænu ráðherranefndarinnar. Við gefum upplýsingar til fólks sem vill flytja, vinna, stunda nám, leita styrkjum eða hefja rekstur í öðru norrænu landi.
               Leitaðu að skrifstofu Info Norden hérna