Sjúkratryggingar meðan á námsdvöl stendur í Færeyjum
Allt fólk, þar með talið námsfólk, sem er skráð í þjóðskrá í Færeyjum á rétt á heilbrigðisþjónustu samkvæmt lögum um sjúkratryggingar (nánari upplýsingar á Heilsutrygd).
Um leið eiga allir sem eru orðnir átján ára að borga 170 kr. plús 0,55% af skattskyldum tekjum sínum (2015) á mánuði í sjúkratryggingu. Greiðslan er sjálfkrafa dregin af A-tekjum. Ef þú ert ekki með A-tekjur færðu greiðsluseðil í pósti.
Borgarar frá ríkjasambandinu
Ef þú kemur frá Danmörku eða Grænlandi til Færeyja og ert skráður þar í þjóðskrá hefurðu sömu réttindi til sjúkratrygginga og Færeyingar. Engar sérstakar reglur eiga við um námsfólk.
Borgarar utan ríkjasambandsins
Sértu aftur á móti frá öðru norrænu ríki utan danska ríkjasambandsins eða frá öðru landi utan Norðurlanda áttu ekki rétt á opinberum sjúkratryggingum fyrr en sex vikum eftir að þú hefur verið skráð/ur í þjóðskrá.
Tímabundin dvöl
Ef þú ert tímabundið í Færeyjum, vegna náms, sem ferðamaður eða í öðrum tilgangi, skemur en 180 daga ertu ekki skyldug/ur til þess að vera skráð/ur í þjóðskrá og ekki heldur skattskyld/ur að fullu. Þess vegna ertu ekki heldur skyldug/ur til að greiða sjúkratryggingu. Um leið ertu ekki heldur með rétt til að njóta ákveðinnar þjónustu sem fellur undir sjúkratryggingu.
Norrænir borgarar eiga þó alltaf, óháð skráningu í þjóðskrá, rétt á ókeypis heimsókn til læknis á heilsugæslustöð og til bráðameðferðar á sjúkrahúsum landsins.
Vakni spurningar varðandi greiðslu sjúkratrygginga má hafa samband við TAKS, sem eru færeysku skattayfirvöldin.
Ef þú ert með spurningu eða ef þú hefur rekist á hindrun í norrænu landi skaltu fylla út eyðublað okkar.
ATH: Ef spurningin þín varðar afgreiðslu tiltekins máls eða umsóknar eða annarra persónulegra mála skaltu hafa samband við viðkomandi yfirvald.