Skattar í Finnlandi

Verot Suomessa
Hér segir frá því hvenær þér er skylt að greiða skatt í Finnlandi. Greint er frá skattskyldu vinnandi fólks í ýmsum aðstæðum, skattskyldu námsfólks og lífeyrisþega svo og skattskyldu í öðrum tilfellum. Einnig segir frá því hvernig sækja á um skattkort og telja fram til skatts.

Almenna reglan er sú að þú greiðir skatt í því landi þar sem þú býrð eða aflar tekna. Búir þú í öðru landi en tekna er aflað í geta tekjurnar haft áhrif á skattlagningu þína í búsetulandinu. Þess vegna þarftu að greina skattayfirvöldum í bæði búsetulandinu og starfslandinu frá þeim tekjum sem þú aflar þér. Við skattlagningu í búsetulandi er þess gætt að þú greiðir ekki skatt tvisvar af sömu tekjum.

Hvenær og hvernig ber þér að greiða skatt í Finnlandi?

Skattlagning í Finnlandi ræðst af því hvort þú berð almenna (ótakmarkaða) eða takmarkaða skattskyldu, hvort þú býrð og starfar á landamærasvæði, hvort þú ert í fjarvinnu á milli landa eða vinnur samtímis í fleiri en einu landi. Nánari upplýsingar um þær reglur sem gilda í þínum aðstæðum eru hér fyrir neðan.

Vinnandi fólk

Býrð þú og starfar í Finnlandi?

Ef þú býrð og starfar í Finnlandi berðu almenna skattskyldu þar. Almennt skattskyldir einstaklingar í Finnlandi greiða þar stighækkandi skatt af tekjum sínum, sem þýðir að skattprósenta hækkar með vaxandi tekjum. Skattskyldar tekjur eru til dæmis laun, lífeyrir og greiðslur eða bætur sem fólk fær í stað launa eða lífeyris. Með skattprósentureiknivél finnskra skattayfirvalda getur þú reiknað út hver þín skattprósenta er. Tekjur frá öðrum löndum eru ekki teknar með í þeim útreikningum.

Til að greiða skatt þarft þú að hafa skattkort. Nánari upplýsingar um skattkort eru hér fyrir neðan, undir fyrirsögninni „Skattkort“.

Býrð þú eða starfar í öðru norrænu landi?

Ef þú býrð á Norðurlöndum og starfar í öðru norrænu landi en búsetulandinu berðu yfirleitt almenna skattskyldu í búsetulandi þínu og takmarkaða skattskyldu í starfslandinu. Þá þarftu að gera grein fyrir tekjunum í báðum löndum og við skattlagningu í búsetulandinu er séð til þess að ekki sé tekinn af þeim tvöfaldur skattur.

Einstaklingar með takmarkaða skattskyldu greiða tekjuskatt af launatekjum sínum eins og aðrir. Hægt er að skoða skattprósentuhlutföll á norrænu skattagáttinni Nordisk eTax. Til að greiða skatt þarftu að hafa skattkort. Nánari upplýsingar um skattkort eru hér fyrir neðan, undir fyrirsögninni „Skattkort“.

Einstaklingar með takmarkaða skattskyldu geta óskað eftir því að greiða stighækkandi skatt í stað hefðbundins tekjuskatts, en þá getur skattprósenta breyst í hlutfalli við heildartekjur og -útgjöld á árinu. Einstaklingar sem greiða stighækkandi skatt eiga til dæmis rétt á að telja kostnað vegna ferðalaga milli heimilis og vinnustaðar og útgjöld vegna tekjusköpunar fram til skattafrádráttar.

Nánari upplýsingar eru á vefsvæði norrænu skattagáttarinnar (Nordisk eTax).

Fyrirtækjarekstur og sjálfstætt starfandi einstaklingar

Ef þú bæði býrð og starfar í Finnlandi skaltu leita nánari upplýsinga á vefsvæði finnskra skattayfirvalda (Verohallinto).

Ef þú býrð eða starfar í öðru norrænu landi skaltu leita nánari upplýsinga á vefsvæði norrænu skattagáttarinnar (Nordisk eTax).

Útsendir starfsmenn

Ef þú ert útsendur starfsmaður í öðru landi á vinnuveitandinn að kynna sér í hvaða landi þér ber að greiða skatt. Nánari upplýsingar á vefsvæði finnskra skattayfirvalda (Verohallinto).

Fólk sem sækir vinnu yfir landamæri

Kveðið er á um skattlagningu þeirra sem búa á landamærasvæðum Finnlands, Svíþjóðar eða Noregs og sækja vinnu yfir landamæri í Norræna tvísköttunarsamningnum. Viss skilyrði þurfa að vera uppfyllt til að fólk teljist sækja vinnu yfir landamæri í þeim skilningi sem lagður er í hugtakið í norræna tvísköttunarsamningnum. 

Býrð þú og starfar á landamærasvæði?

Ef þú býrð í einu landi og starfar í öðru ber þér að greiða skatt af launatekjum í búsetulandinu ef þú býrð við landamæri Finnlands og Svíþjóðar eða Finnlands og Noregs og vinnustaðurinn er í sama sveitarfélagi en handan landamæranna. Að auki er skilyrði að þú dveljir reglulega, minnst tvo daga í viku, í föstu húsnæði þínu í búseturíkinu.

Til sveitarfélaga á landamærum Finnlands og Svíþjóðar teljast Finnlandsmegin Tornio, Ylitornio, Pello, Kolari, Muonio og Enontekiö og Svíþjóðarmegin Haaparanta, Övertorneå, Pajala og Kiiruna.

Til sveitarfélaga á landamærum Finnlands og Noregs teljast Noregsmegin Enontekiö, Inari og Utsjoki og Noregsmegin Karasjok, Kautokeino, Kåfjord, Nesseby, Nordreisa, Storfjord, Sør-Varanger og Tana.

Býrð þú ekki eða starfar á landamærasvæði?

Ef þú  býrð í einu landi og starfar í öðru, en býrð ekki á landamærasvæði, greiðir þú yfirleitt tekjuskatt í starfslandinu. Nánari upplýsingar eru í undirkaflanum Vinnandi fólk.

 

Ef þú starfar í fleiri en einu landi

Um skattskyldu gildir almennt sú regla að skatt beri að greiða í búsetulandi, einnig af tekjum sem aflað er með vinnu í öðru landi. Tekjur eru yfirleitt einnig skattskyldar í starfslandinu. Telja þarf tekjur fram bæði í starfs- og búsetulandi, en Norræni tvísköttunarsamningurinn kemur í veg fyrir að sömu tekjur séu skattlagðar tvisvar.

Fjarvinna

Ef þú stundar fjarvinnu í öðru landi með starfsstöð í Finnlandi, í fullu starfi eða hlutastarfi, skaltu leita þér frekari upplýsinga á vef finnskra skattayfirvalda (Verohallinto). Ef þú stundar fjarvinnu í Finnlandi með starfsstöð í öðru landi skaltu hafa samband við skattayfirvöld í viðkomandi landi.

Námsfólk

Í Finnlandi þarf ekki að greiða skatt af mánaðarlegum námsstyrk frá öðru norrænu landi. Finnskur námsstyrkur þinn er heldur ekki skattskyldur í Finnlandi ef þú hefur engar aðrar tekjur. Nánari upplýsingar á vefsvæði finnskra skattayfirvalda (Verohallinto). 

Ellilífeyrisþegar

Ef þú býrð í öðru norrænu landi en þiggur lífeyri frá Finnlandi eru lífeyrisgreiðslurnar skattskyldar í Finnlandi. Þó þarf einnig að gera grein fyrir lífeyrisgreiðslunum á skattframtali í búsetulandinu.

Ef þú býrð í Finnlandi og þiggur lífeyri frá öðru norrænu landi eru lífeyrisgreiðslurnar skattskyldar í búsetulandinu. Þó þarf einnig að gera grein fyrir lífeyrisgreiðslunum á skattframtali í Finnlandi. 

Nánari upplýsingar um skattlagningu eru á samnorrænu skattagáttinni (Nordisk eTax).

Aðrar kringumstæður

Eigir þú eignir eða fjárfestingar í öðru norrænu landi getur þú fundið upplýsingar um skattlagningu þeirra á Norrænu skattagáttinni (Nordisk eTax).

Fáir þú arf eða gjöf frá Finnlandi geturðu fundið upplýsingar um skattlagningu i á vef finnskra skattayfirvalda (Verohallinto).

Nánari upplýsingar um bifreiðaskatt eru á síðunni Ökutæki í Finnlandi.

Eru tekjur þínar skattlagðar tvisvar?

Ekki þarf að greiða skatt í tveimur mismunandi löndum af sömu tekjunum, en þó ber að gera grein fyrir tekjunum í bæði starfs- og búsetulandi. Í Norræna tvísköttunarsamningnum er kveðið á um það hvaða land megi skattleggja tekjur og hvernig forðast eigi tvísköttun.

Skattkort

Í Finnlandi þarf launafólk að skila inn skattkorti til vinnuveitanda svo að hægt sé að áætla þá skattprósentu sem haldið er eftir. Sé skattkorti ekki skilað inn til vinnuveitenda ber honum alla jafna skylda til að halda eftir 60 prósentum launa vegna skatts.

Upplýsingar um að útvega skattkort eru á heimasíðu finnskra skattayfirvalda (Verohallinto).

Skattframtal

Einstaklingum sem bera almenna skattskyldu í Finnlandi, svo og sumum sem hafa þar takmarkaða skattskyldu, ber að telja fram til skatts í landinu.

Þarft þú að telja fram til skatts í Finnlandi?

Hver sá sem hefur fasta búsetu í Finnlandi, er þar almennt skattskyldur og hefur haft skattskyldar tekjur árið áður, skal skila þar skattframtali.

Fólk búsett í öðrum löndum sem hefur takmarkaða skattskyldu í Finnlandi skal skila þar skattframtali í eftirtöldum tilvikum:

  • ef það hefur átt fasteign í Finnlandi á skattaárinu
  • ef það hefur stundað atvinnustarfsemi á föstum starfsstað í Finnlandi
  • ef það hefur óskað eftir þrepaskattlagningu í stað þess að notast við skattkort
  • ef það hefurfengið greiddan lífeyri frá Finnlandi á árinu.

Hvernig er skattframtali skilað?

Skattskyldir einstaklingar fá fyrirfram útfyllta skattskýrslu póstsenda að vori. Um er að ræða eyðublað sem skattayfirvöld hafa skráð á upplýsingar frá finnskum greiðendum launa, lífeyris, arðs og annarra tekna. Teljir þú að upplýsingarnar á eyðublaðinu séu réttar og að engu þurfi við þær að bæta þarft þú ekki að aðhafast frekar. Ef eitthvað þarf hins vegar að leiðrétta ber þér að tilkynna um það innan frestsins sem gefinn er upp.

Tekjur frá öðrum löndum birtast alla jafna ekki á fyrirfram útfylltri skattskýrslu. Þó er skylt að telja tekjur frá öðrum löndum fram til skatts.

Hvað ef þú flytur?

Hafir þú flutt til Finnlands á miðju síðastliðnu dagatalsári og hafi fyrirfram útfylllt skattskýrsla ekki borist á heimili þitt í pósti þarftu að biðja skattayfirvöld um eyðublað til útfyllingar.

Hafir þú flutt milli landa á árinu ber þér að skila skattskýrslu bæði í brottfararlandinu og því landi sem þú flytur til. Þú þarft að skila skattskýrslu í Finnlandi í þann tíma sem þú berð almenna skattskyldu í landinu.

Finnskur ríkisborgari sem hefur flutt til annars lands ber yfirleitt almenna skattskyldu í Finnlandi það ár sem flutt er og næstu þrjú árin á eftir. Almennri skattskyldu í Finnlandi getur þó lokið fyrr ef þú sýnir fram á að þú hafir ekki haft nein skattaleg tengsl við Finnland á viðkomandi skattlagningarári . Nánari upplýsingar um almenna skattskyldu eru á vef Norrænu skattagáttarinnar (Nordisk eTax).

Nánari upplýsingar

Spurning til Info Norden

Ef þú ert með spurningu eða ef þú hefur rekist á hindrun í norrænu landi skaltu fylla út eyðublað okkar.

ATH: Ef spurningin þín varðar afgreiðslu tiltekins máls eða umsóknar eða annarra persónulegra mála skaltu hafa samband við viðkomandi yfirvald.

Info Norden er upplýsingaþjónusta Norrænu ráðherranefndarinnar. Við gefum upplýsingar til fólks sem vill flytja, vinna, stunda nám, leita styrkjum eða hefja rekstur í öðru norrænu landi.
Leitaðu að skrifstofu Info Norden hérna