Skattkort og skattframtal í Finnlandi

Verokortti ja veroilmoitus Suomessa
Hér eru upplýsingar um skattkort og skattframtal í Finnlandi.

Skattkort

Í Finnlandi þarf launafólk að skila inn skattkorti til vinnuveitanda síns svo hægt sé að áætla þá skattprósentu sem haldið er eftir. Sé skattkorti ekki skilað inn til vinnuveitenda ber honum alla jafna skylda til að halda eftir 60 prósentum launa vegna skatts.

Upplýsingar um að útvega skattkort eru á heimasíðu finnskra skattyfirvalda.

Skattframtal

Hver sá sem hefur fasta búsetu í Finnlandi, er þar almennt skattskyldur og hefur haft skattskyldar tekjur árið áður, skal skila skattframtali.

Fólk búsett í öðrum löndum sem hefur takmarkaða skattskyldu í Finnlandi skal skila þar skattframtali í eftirtöldum tilvikum:

  • ef það hefur átt fasteign í Finnlandi á skattaárinu
  • ef það hefur stundað viðskipti á föstum vinnustað í Finnlandi
  • ef það hefur óskað eftir þrepaskattlagningu í stað þess að notast við skattkort
  • ef það hefur fengið greiddan lífeyri frá Finnlandi á árinu.

Skattskyldir einstaklingar fá fyrirfram útfyllta skattskýrslu póstsenda að vori. Um er að ræða eyðublað sem skattayfirvöld hafa skráð á upplýsingar frá finnskum greiðendum launa, lífeyris, arðs og annarra tekna. Telji hinn skattskyldi að upplýsingarnar á eyðublaðinu séu réttar og engu þurfi við þær að bæta þarf hann ekki að aðhafast frekar. Þurfi hins vegar að bæta einhverju við eða leiðrétta þarf að tilkynna um það í byrjun maímánaðar.

Tekjur frá öðrum löndum birtast alla jafna ekki á fyrirfram útfylltri skattskýrslu, Ástæðan er að slíkar upplýsingar hafa enn ekki borist til Finnlands í ársbyrjun. Tekjur frá öðrum löndum skal telja fram á þjónustusvæði skattsins á netinu, OmaVero („Minn skattur“), eða með eyðublaði 16A.

Hafir þú flutt til Finnlands á miðju undanliðnu dagatalsári og hafi þér ekki borist fyrirfram úfylllt skattskýrsla í pósti þarftu að biðja skattayfirvöld um eyðublað til útfyllingar. Eyðublöð vegna skattframtals í Finnlandi eru ýmist á finnsku eða sænsku. Eyðublað vegna skattframtals launafólks er einnig til í enskri þýðingu.

Hafir þú flust til Finnlands á undanliðnu ári þarftu að telja fram til skatts bæði í Finnlandi og þínu fyrra búsetulandi. Sama gildir um þau skattaár sem skattskyldir einstaklingar flytja burt frá Finnlandi.

Hafðu samband við yfirvöld
Spurning til Info Norden

Ef þú ert með spurningu skaltu fylla út eyðublaðið hérna:

ATH: Ef spurningin þín varðar afgreiðslu tiltekins máls eða umsóknar eða annarra persónulegra mála skaltu hafa samband við viðkomandi yfirvald.

Info Norden er upplýsingaþjónusta Norrænu ráðherranefndarinnar. Við gefum upplýsingar til fólks sem vill flytja, vinna, stunda nám, leita styrkjum eða hefja rekstur í öðru norrænu landi.
Leitaðu að skrifstofu Info Norden hérna