Skattlagning lífeyristekna í Finnlandi

Eläkkeiden verotus
Hér er sagt frá skattlagningu lífeyristekna frá Finnlandi og öðrum löndum.

Skattlagning lífeyris sem greiddur er frá Finnlandi

Lífeyrir sem greiddur er frá Finnlandi er yfirleitt skattskyldur í Finnlandi þó að lífeyrisþegi búi annars staðar.

Einstaklingar búsettir í öðrum löndum þurfa oft einnig að greiða skatt af lífeyri frá Finnlandi í búsetulandinu. Búsetulandið á þó að sjá til þess að tvísköttun eigi sér ekki stað.

Í einhverjum tilvikum getur skattasamningur milli Finnlands og búsetulandsins orðið til þess að ekki þurfi að greiða skatt í Finnlandi af lífeyri sem greiddur er frá Finnlandi. Hyggist þú flytja til Finnlands skaltu hafa samband við skattyfirvöld þar áður svo hægt sé að ganga úr skugga um hvort skattasamningur milli landanna hafi áhrif í þínu tilfelli. Lífeyrisþegi þarf einnig að tilkynna skattyfirvöldum um flutninga og nýtt heimilisfang í Finnlandi.

Nánari upplýsingar um skattlagningu eru á heimasíðu skattyfirvalda og á norrænu skattagáttinni.

Skattlagning lífeyris sem greiddur er frá öðru norrænu landi til Finnlands

Lífeyrisgreiðslur frá öðru norrænu landi eru skattskyldar í því ríki sem greiðir þær. Einnig þarf að gera grein fyrir lífeyrisgreiðslum erlendis frá á finnsku skattframtali. Norræni skattasamningurinn kveður þó á um að koma skuli í veg fyrir tvísköttun. Lífeyrir sem þú þiggur frá öðru norrænu landi er talinn með í heildartekjum þínum, sem skattprósenta þín í Finnlandi er reiknuð út frá.

Gera skal grein fyrir lífeyristekjum frá öðru landi á finnsku skattframtali undir lið 10.1 um erlendar lífeyristekjur. Hafi skattur verið greiddur í öðru landi skal gera grein fyrir honum undir lið 11.1 um skatt greiddan erlendis.

Nánari upplýsingar veitir norræna skattagáttin. Þiggir þú lífeyri frá Svíþjóð færðu einnig nánari upplýsingar á vefsvæði finnskra skattyfirvalda.

Spurning til Info Norden

Ef þú ert með spurningu skaltu fylla út eyðublaðið hérna:

ATH: Ef spurningin þín varðar afgreiðslu tiltekins máls eða umsóknar eða annarra persónulegra mála skaltu hafa samband við viðkomandi yfirvald.

Info Norden er upplýsingaþjónusta Norrænu ráðherranefndarinnar. Við gefum upplýsingar til fólks sem vill flytja, vinna, stunda nám, leita styrkjum eða hefja rekstur í öðru norrænu landi.
Leitaðu að skrifstofu Info Norden hérna