Leiðbeiningar: árstíðabundin störf í Svíþjóð

Mand i grå hoodie og sorte bukser der holder en brun kasse på en mark
Photographer
Photo by Tim Mossholder on Unsplash
Árstíðabundin störf í Svíþjóð gefa gott tækifæri til að upplifa eitthvað nýtt og vinna í útlöndum. Tryggðu að þú kynnir þér atvinnutækifæri, samningsskilyrði, orlofsgreiðslur, reglur um vinnuvernd og leiðbeiningar sem gilda um veikindi þegar þú starfar tímabundið í Svíþjóð.

Ert þú í leit að sumarstarfi í Svíþjóð? Eða viltu heldur finna þér árstíðarbundið starf í Svíþjóð að vetri til?

Það eru margar góðar ástæður til þess að stunda árstíðarbundna vinnu í Svíþjóð. Þú færð tækifæri til að læra eitthvað nýtt, prófa nýja vinnu, hitta nýtt fólk og kynnast nýju landi. Þú færð líka tækifæri til að kynnast Svíþjóð og Svíum um leið og þú færð borgað. Fyrir námsfólk eða ungmenni getur þetta verið tækifæri til að fá tímabundið starf í sumarfríinu. 

Margir vinnuveitendur í Svíþjóð þurfa á auknum starfskröftum að halda yfir sumarmánuðina og því hentar þeim vel að þú vinnir í stuttan tíma og haldir síðan heim. Í Svíþjóð er árstíðabundin störf yfirleitt að finna í ferðaþjónustu, hótel- og veitingageirunum, afþreyingargeiranum og við umönnun. 

Bæði sumar- og vetrarstörf er að vinna í Svíþjóð. Fyrir hverja árstíð þurfa hótel, ferðamannastaðir, veitingastaðir og barir að tryggja sér starfsfólk áður en ferðamannatíðin hefst, og þú getur vel verið manneskjan sem þau eru að leita að!

Atvinnuleyfi í Svíþjóð

Ríkisborgarar norrænna ríkja þurfa ekki á atvinnuleyfi eða dvalarleyfi að halda til að búa og/eða starfa í öðru norrænu landi og geta dvalið í Svíþjóð í allt að eitt ár án þess að skrá búsetu sína í sænsku þjóðskránni. 

Ríkisborgarar ESB-ríkja geta einnig byrjað að starfa í Svíþjóð án þess að hafa atvinnuleyfi eða skrá dvöl sína. Ríkisborgarar þriðju ríkja þurfa hins vegar að hafa fengið atvinnu- og dvalarleyfi hjá Migrationsverket áður en þeir geta byrjað að starfa í Svíþjóð.

Skattar í Svíþjóð

Þá þarf að sækja um tímabundna sænska kennitölu sem nefnist „samordningsnummer“, eða samræmingartölu. Hægt er að sækja um hana á sama tíma og sót er um sænskt skattkort og SINK-skattlagningu hjá Skatteverket í Svíþjóð.

Ef þú starfar skemur en sex mánuði í Svíþjóð gildir SINK-skattafyrirkomulagið alla jafna um þig (um sérstakan tekjuskatt fyrir fólk sem ekki er búsett í Svíþjóð), en það mælir fyrir um 25% skatt. 

Samkvæmt SINK þarftu ekki að skila skattskýrslu í Svíþjóð. Þú getur skrifað undir og sent SINK-eyðublaðið til Skatteverket á vefsíðu Skatteverket. Mundu að láta afrit af vegabréfi eða öðrum skilríkjum fylgja með. Með þessari umsókn sækir þú einnig um samræmingartölu. Vinnuveitandi þinn þarf að fá samræmingartöluna til að geta greitt þér laun. Sæktu um með góðum fyrirvara þar sem afgreiðslutíminn getur verið langur.

Ef meira en 90% skattskyldra tekna þinna er aflað í Svíþjóð getur þú valið að greiða skatt samkvæmt almennum sænskum skattareglum í stað SINK. Í því tilfelli notar þú sama eyðublað en undir „Övriga upplysningar“ (aðrar upplýsingar) skrifar þú að þú viljir greiða skatt samkvæmt lögum um tekjuskatt, eða „beskattet enligt inkomstskattelagen“. Undir sömu yfirskrift er sótt um grunnfrádrátt. 

Grunnfrádrátturinn þýðir að þú þarft ekki að greiða skatt af fyrstu 20.000 sænsku krónunum sem þú vinnur þér inn. Af öðrum tekjum er greiddur 30-35% skattur. Ef þú greiðir skatt samkvæmt lögum um tekjuskatt í Svíþjóð þarftu að skila skattframtali. Gefa verður upp tekjur erlendis frá á skattframtalinu sem er fyrirframútfyllt og sent til þín á vormánuðum.

Stofna bankareikning í Svíþjóð

Spurðu vinnuveitanda þinn að því hvort þú þurfir að hafa sænskan bankareikning. Það getur verið auðveldara að opna bankareikning eftir að hafa fengið samræmingartölu.

Ekki allir vinnuveitendur munu krefjast þess að þú hafir sænskan bankareikning. Sumir vinnuveitendur geta greitt launin beint inn á bankareikning þinn í heimalandinu.

Í lok starfstímabilsins getur þú ákveðið hvort þú viljir loka bankareikningnum eða halda honum til næsta árs.

Réttindi og skyldur á vinnumarkaði í Svíþjóð

Ef þú starfar við sumarvinnu í Svíþjóð hefur þú sömu réttindi og sænskir launþegar að því er varðar laun, vinnutíma, vinnuumhverfi og öryggi.

LO í Svíþjóð hefur tekið saman upplýsingar um atriði sem þú þarft að huga að ef þú hyggst taka að þér árstíðarundið starfs í Svíþjóð. Þú getur haft samband við LO til að fá nánari upplýsingar um réttindi og skyldur við störf í Svíþjóð.

Ef þú sækir um sumarvinnu, vetrarvinnu eða annars konar tímabundið starf í Svíþjóð er mikilvægt að þú gangir úr skugga um að starfskjörin séu viðunandi.

Sænskir kjarasamningar

Gakktu úr skugga um að vinnustaðurinn fylgi kjarasamningum. Kveðið er á um laun, frí og önnur kjör í kjarasamningum og ef vinnustaðurinn er ekki aðili að slíkum samningi þarftu að semja um það sérstaklega. Kjarasamningur er samningur sem stéttarfélag og atvinnurekandi gera með sér.

Ef kjarasamningur er við gildi á hann við um allt starfsfólkið sama hvort það er í stéttarfélagi eða ekki.

Laun í Svíþjóð

Þú getur borið saman laun innan mismunandi atvinnugreina í Svíþjóð á vefsíðu sænsku hagstofunnar. Mörg stéttarfélög og samtök taka einnig saman launatölur um einstakar atvinnugreinar á vefsíðum sínum.

Þú þarft að komast að samkomulagi um laun þín með samningaviðræðum milli ykkar – alla jafna er kjarasamningur í gildi sem myndar grundvöll fyrir launin.

Þú átt að fá launaseðil (lönebesked) í hvert sinn sem þú færð greidd laun til að geta gengið úr skugga um að allt stemmi. Einfaldast er að spyrja stéttarfélagið um hvert launaþrepið er fyrir þitt starf.

Stundum bjóða atvinnurekendur upp á að starfa til reynslu án launa. Þrátt fyrir að þig langi mikið í starfið áttu aldrei að vinna án þess að fá laun fyrir. Þú skalt ekki starfa launalaust í Svíþjóð.

Lestu samninginn áður en þú skrifar undir hann

Samkvæmt sænskum lögum áttu alltaf rétt á ráðningarsamningi. Ráðningarsamningur er samningur milli atvinnurekanda og starfsmanns sem sýnir að þú vinnur þar. Þar á meðal annars að koma fram hver verkefni þín eru, hvað ráðningartíminn er langur og hver ræður þig í vinnu.

Ef það er eitthvað í ráðningarsamningnum sem þú skilur ekki er mikilvægt að þú spyrjir atvinnurekandann út í það áður en þú undirritar samninginn.

Ef þú vinnur á stað sem er háður veðri er atvinnurekandanum heimilt að tilkynna þér að það sé engin vinna tiltekinn dag sökum veðurs og senda þig heim án launa. En ef það stendur í ráðningarsamningnum þínum þar þú eigir að vinna margar klukkustundir á viku getur atvinnurekandinn aldrei sent þig heim án launa.

Sumarstarfsfólk í Svíþjóð nýtur réttinda, svo þú skalt taka skýrt fram að þú ætlist til þess að vinnuveitandinn uppfylli samningsskyldur sínar.

Vinnuverndarreglur í Svíþjóð

Góð hugmynd er að kynna sér vinnuverndarreglurnar svo þú vitir hvernig þú átt að vinna störf þín án þess að það bitni á andlegri eða líkamlegri heilsu þinni.

Sumar reglur gilda um fólk yngra en 18 ára til dæmis ef þú vinnur á lager og átt að lyfta þungum hlutum. Sum störf eru bönnuð ungu fólki undir 18 ára aldri. Ef þú ert yngri en 18 ára er þér ekki heimilt að vinna á nóttunni og þú mátt heldur ekki vinna lengur en í átta klukkustundir á daginn eða 40 klukkustundir á viku.

Sænskar orlofsgreiðslur

Þrátt fyrir að þú eigir ekki rétt á orlofi þegar þú ert í árstíðabundnu starfi þá áttu rétt á orlofsgreiðslum. Stundum reyna atvinnurekendur að smeygja orlofsgreiðslum inn í launin en samkvæmt lögum á að greiða orlof til viðbótar við launin.

Eigi síðar en mánuði eftir að þú lýkur störfum áttu að fá greitt orlofsfé.

Sænskur lífeyrir

Hafðu samband við vinnuveitanda þinn í Svíþjóð til að fá upplýsingar um hvaða reglur gilda um lífeyri í þínum aðstæðum. Þú getur einnig leitað til sænsku lífeyrisstofnunarinnar til að fá upplýsingar um áunninn lífeyri við árstíðabundin störf í Svíþjóð.

Staðfesting á atvinnu í Svíþjóð

Gakktu úr skugga um að vinnuveitandi þinn í Svíþjóð útbúi staðfestingu á atvinnu (arbetsintyg) sem þú getur sýnt næst þegar þú ert í atvinnuleit.

Svört vinna í Svíþjóð

Svört vinna þýðir að ekki er um ráðningu að ræða og þú ert tæknilega ekki ráðinn á vinnustaðinn. Ef eitthvað kemur fyrir þig í vinnunni ertu ekki tryggð/ur á nokkurn hátt.

Þú átt alltaf að fara fram á að fá launaseðil sem sýnir brúttólaunin, það er launin áður en greiddur er skattur af þeim, en nettólaunin eru súð upphæð sem þú færð þegar búið er að greiða skatt af laununum. Ef þú færð launaseðil er það sönnun þess að skattur hefur verið dreginn af launum þínum.

Sumarstörf í Svíþjóð

Þú getur leitað þér að sumarvinnu í Svíþjóð hjá sænsku vinnumiðluninni, Arbetsförmedlingen. Þú getur einnig leitað að „säsongsjobb“ í leitarvél.

Ef þú ert norrænn ríkisborgari eða ríkisborgari ESB-/EES-lands á aldrinum 18-30 ára getur þú sótt um sumarstarf hjá Nordjobb. Nordjobb miðlar bæði vinnu og húsnæði fyrir ungmeni á Norðurlöndun.

Einkatryggingar þegar unnið er í Svíþjóð

Þú þarft að hafa samband við tryggingafélagið þitt í heimalandi þínu til að ganga úr skugga um að þú sért með viðeigandi tryggingar fyrir tímabundin störf í Svíþjóð.

Læknishjálp í Svíþjóð

Ef þú veikist á meðan þú dvelur í Svíþjóð áttu alltaf rétt á nauðsynlegri læknisþjónustu. Þá er átt við þjónustu sem ekki getur beðið þar til þú kemur aftur til heimalandsins. Norrænir ríkisborgarar hafa einnig sama rétt á tannlæknaþjónustu og sænskir ríkisborgarar.

Til að fá þjónustu þurfa norrænir ríkisborgarar að framvísa vegabréfi, persónuskilríkjum eða öðrum gildum skilríkjum. Hafðu samband við landshlutann í Svíþjóð sem þú býrð í til að fá aðstoð og upplýsingar. Þú getur einnig fengið upplýsingar hjá Vårdguiden.

Spurning til Info Norden

Ef þú ert með spurningu eða ef þú hefur rekist á hindrun í norrænu landi skaltu fylla út eyðublað okkar.

ATH: Ef spurningin þín varðar afgreiðslu tiltekins máls eða umsóknar eða annarra persónulegra mála skaltu hafa samband við viðkomandi yfirvald.

Info Norden er upplýsingaþjónusta Norrænu ráðherranefndarinnar. Við gefum upplýsingar til fólks sem vill flytja, vinna, stunda nám, leita styrkjum eða hefja rekstur í öðru norrænu landi.
Leitaðu að skrifstofu Info Norden hérna