Útsendir starfsmenn frá Finnlandi

Atvinnuleysistryggingar og almannatryggingar
Þó að vinnuveitandi þinn sendi þig til starfa í öðru norrænu landi getur þú áfram átt rétt á almannatryggingum í búsetulandi þínu. Til útsendra starfsmanna frá Finnlandi telst það fólk sem sent hefur verið til launaðra starfa annars staðar af finnskum vinnuveitanda og fær laun sín frá sama vinnuveitanda, sem heyrir undir almannatryggingar í Finnlandi og dvelur aðeins tímabundið við störf í öðru landi.
Starfsmaður sem sendur er til starfa frá Finnlandi til annars norræns lands þarf að hafa meðferðis vottorð upp á að hann heyri undir finnska almannatryggingakerfið (til dæmis vottorð A1). Út á slíkt vottorð fá bæði starfsmaður og vinnuveitandi undanþágu frá greiðslu tryggingagjalda í starfslandinu og komast þannig hjá því að greiða slík gjöld á tveimur stöðum. Það þýðir að öll almannatryggingagjöld vegna starfsmanns sem heyrir undir finnska almannatryggingakerfið eru greidd til Finnlands.
Vottorðið sækir vinnuveitandi hins útsenda starfsmanns um hjá finnsku lífeyristryggingamiðstöðinni.
Nánari upplýsingar veita finnska lífeyristryggingamiðstöðin og almannatryggingastofnunin.
Almannatryggingar fjölskyldumeðlims
Fjölskyldumeðlimur sem fylgir útsendum starfsmanni til annars lands þarf að tilkynna almannatryggingastofnun (Kela) um brottför sína. Nánari upplýsingar veitir almannatryggingastofnun.
Heilbrigðisþjónusta
Starfsmaður sem sendur er til annars lands og fjölskyldumeðlimur hans eiga rétt á heilbrigðisþjónustu án tafa meðan á tímabundinni dvöl þeirra stendur (skemmri en eitt ár) á sömu kjörum og aðrir íbúar í starfslandinu. Hér að neðan eru tenglar á upplýsingar um aðstæður í hinum norrænu löndunum.
Starfsmaður sem sendur er frá Finnlandi til annars norræns lands og fjölskyldumeðlimur hans eiga líka rétt á opinberri heilbrigðisþjónustu í Finnlandi þó að þeir séu ekki skráðir þar til heimilis á starfstímabilinu. Komi þær aðstæður upp er hægt að leita til almannatryggingastofnunar og óska eftir vottorði um rétt til heilbrigðisþjónustu í Finnlandi, sem nota má til að sýna fram á rétt til opinberrar heilbrigðisþjónustu.
Nánari upplýsingar veitir alþjóðamiðstöð finnsku almannatryggingastofnunarinnar.
Skattlagning fyrir vinnu erlendis
Ef vinnuveitandi í búsetulandi þínu, í þessu tilviki Finnlandi, sendir þig til starfa í öðru norrænu landi þarft þú eða vinnuveitandi þinn að tilkynna finnskum skattayfirvöldum um starfstilhögunina. Nánari upplýsingar á síðu finnskra skattyfirvalda.
Ef þú ert með spurningu eða ef þú hefur rekist á hindrun í norrænu landi skaltu fylla út eyðublað okkar.
ATH: Ef spurningin þín varðar afgreiðslu tiltekins máls eða umsóknar eða annarra persónulegra mála skaltu hafa samband við viðkomandi yfirvald.