Veikindi á námstíma í Finnlandi

Opiskelun aikainen sairastaminen Suomessa
Upplýsingar um rétt námsfólks í Finnlandi til heilsugæslu og um sjúkradagpeninga fyrir þau sem þiggja finnskan námsstyrk meðan á veikindum stendur. Einnig er sagt frá framfærslu á veikindatíma fyrir námsfólk sem þiggur námsstyrk frá öðru landi.

Heilsugæsla og hjúkrun fyrir námsfólk í Finnlandi

Nemendur við finnskar menntastofnanir eiga rétt á heilsugæsluþjónustu námsfólks í boði þess sveitarfélags sem nám er stundað í, eða annarrar stofnunar með umboði sveitarfélagsins, óháð búsetu. Undir heilsugæsluþjónustu námsfólks heyra almenn heilsugæsla, hjúkrun og tannlækningar. Áhersla er lögð á fyrirbyggjandi þjónustu.

Þjónusta hjúkrunarfræðings, sálfræðings og félagsráðgjafa er yfirleitt án endurgjalds. Fyrir læknisþjónustu er yfirleitt innheimt gjald sem getur ýmist verið árlegt eða fyrir hvern læknistíma. Læknisþjónusta er ókeypis fyrir yngri en 18 ára.

Heilsugæslustöðvar sveitarfélaganna hafa umsjón með heilsugæslu fyrir nemendur grunnskóla, framhaldsskóla og iðnháskóla.

Ríkisstofnunin Ylioppilaiden terveydenhoitosäätiö (YTHS) eða Heilsugæsla stúdenta hefur umsjón með heilsugæslu nemenda við háskóla, æðri rannsóknarstofnanir og listaháskóla. Doktorsnemar eiga ekki rétt á þjónustu heilsugæslunnar.

Þurfi námsfólk nauðsynlega á læknisþjónustu að halda sem ekki fellur undir heilsugæslu námsfólks getur það leitað á náðir opinbera heilbrigðiskerfisins. Nauðsynleg læknisþjónusta er þá veitt gegn sama gjaldi og íbúar sveitarfélagsins greiða, gegn framvísun gildra skilríkja (s.s. ökuskírteinis eða vegabréfs) eða evrópsks sjúkratryggingakorts. Einnig þarf viðkomandi að gefa upp heimilisfang sitt í búsetulandinu. Námsfólk með lögheimili í Finnlandi getur fengið alla nauðsynlega læknisþjónustu innan opinbera heilbrigðiskerfisins.

Sjúkradagpeningar

Námsfólk á finnskum námsstyrk

Námsfólki með fasta búsetu í Finnlandi er tryggð framfærsla meðan á langvarandi veikindum stendur með sjúkradagpeningum á grundvelli búsetu. Sjúkradagpeningar á grundvelli búsetu eru greiddir nemendum í fullu námi á aldrinum 16-67 ára ef þeir veikjast á námstíma og getur ekki haldið náminu áfram af þeim sökum. Nemi sem þiggur sjúkradagpeninga má stunda nám sitt áfram upp að einhverju marki.

Ólíkt því sem tíðkast á hinum Norðurlöndunum heyra sjúkratryggingar námsfólks í Finnlandi undir reglugerðir á sviði almannatrygginga, ekki reglugerðir um menntamál. Sem stendur felst eina framfærsluöryggi námsfólks sem þiggur námsstyrk frá Finnlandi en stundar nám í öðru Norðurlandi í tekjutengdum sjúkradagpeningum, sem veittir eru á grundvelli atvinnusögu í viðkomandi landi. Nánari upplýsingar veita finnska almannatryggingastofnunin (Kansaneläkelaitos eða Kela) og almannatryggingastofnun þess lands þar sem nám er stundað.

Ekki borgar sig að sækja um sjúkradagpeninga nema veikindi vari í að lágmarki tvo mánuði. Vari veikindi skemur en það skal viðkomandi halda sig innan námsstyrkjakerfisins.

Ákveði Kela að sjúkradagpeningar skuli veittir, stöðvast greiðsla námsstyrks sjálfkrafa á meðan. Ekki þarf því að óska eftir að greiðsla námsstyrks verði stöðvuð áður en sótt er um sjúkradagpeninga.

Upphæð sjúkradagpeninga sem greiddir eru námsfólki ákvarðast ýmist af atvinnutekjum eða upphæð námsstyrks. Auk sjúkradagpeninga er hægt að fá almennan húsnæðisstyrk meðan á veikindum stendur. Hægt er að sækja rafrænt um sjúkradagpeninga og almennan húsnæðisstyrk á vefsvæði Kela.

Námsfólk sem heyrir undir námsstyrkjakerfi annars norræns lands

Námsfólk í Finnlandi sem á rétt á námstengdum framfærslustyrk frá öðru norrænu ríki fær yfirleitt styrk þaðan meðan á veikindum stendur.

Nánari upplýsingar

Spurning til Info Norden

Ef þú ert með spurningu skaltu fylla út eyðublaðið hérna:

ATH: Ef spurningin þín varðar afgreiðslu tiltekins máls eða umsóknar eða annarra persónulegra mála skaltu hafa samband við viðkomandi yfirvald.

Info Norden er upplýsingaþjónusta Norrænu ráðherranefndarinnar. Við gefum upplýsingar til fólks sem vill flytja, vinna, stunda nám, leita styrkjum eða hefja rekstur í öðru norrænu landi.
Leitaðu að skrifstofu Info Norden hérna